Háspennulínur skera landið 15. febrúar 2007 00:01 Forstjóri Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, er mjúkmáll þessa dagana. Honum veitir ekki af í andófinu sem er að magnast í kringum hann. Friðrik lítur á mótmæli við frekari virkjunum í Þjórsá sem velferðarvandamál og segir mönnum hollast að minnast þess að fyrr eða síðar kreppi á dalnum í þjóðarbúinu. Hann hótar efnahagslegum þrengingum í ófyrirsjáanlegri framtíð sem röksemd fyrir álbræðslum í Helguvík, Húsavík, stækkun í Straumi og jafnvel Þorlákshöfn, Skagafirði eða Eyjafirði. Hann lætur sem viðbótarvirkjanir í Þjórsá séu löngu ákveðið mál og getur þess í leiðinni að vatnsréttindi þar hafi ríkið átt um áratugaskeið, nánast eins og þjóðinni komi ekki við hvernig þau réttindi verði nýtt og hvenær. Hann undrar sig á andófi manna við línulögnum um landið þvert og endilangt, áður hafi það verið stolt manna að rafmagnsstaur stóð í hlaði: himinn Friðriks Sophussonar er rafmagnslínuturn. Hann sér ekki lengur skóginn fyrir þeim trjám, en veit sem gamall stjórnmálamaður að jafnvel hótanir verður að klæða í mjúkan búning. Landsvirkjun er löngu orðin undarlega sambandslaus við nánasta umhverfi sitt. Talsmenn hennar og starfsmenn halda iðnir áfram látlausri þjónustu við stórkaupendur raforku og líta á áhyggjur almennings sem hvert annað fjas. En Sandgerðingar tóku af skarið: þeir kæra sig ekki um að gegnum sveitarfélagið sitt verði lagðar raflínur til Helguvíkur. Framtíðarmyndin er heldur ekki hugguleg þeim sveitarfélögum á Reykjanesi sem loksins eru laus undan áratuga hersetu: í áætlunum Landsnets verður Reykjanesið sundurskorið með háspennulínum, um hraunin ganga fram raðir risaturna. Það víðerni sem menn hafa loksins á síðasta áratug fundið í næsta nágrenni við borgarþéttbýlið og uppgötvað sem söguríkan og einstakan stað er í hættu. Gestum og heimamönnum verður boðið uppá stórkostlegan gróðareit á Reykjanesi í aðflugi og brottför af landinu: stálturnaskógur Reykjaness er draumsýn Landsvirkjunarmanna. Og línurnar skulu liggja víða um nesið, sem er öruggara opnist jörðin eins og mun gerast og hefur tíðum gerst þar. Sandgerðingar hafa stigið mikilvægt skref í umræðu þjóðarinnar um virkjanir og stóriðju. Fólk á Reykjanesi verður næstu vikur að svara einfaldri spurningu: vilt þú búa undir raflínum, viltu hafa þær fyrir augunum hvert sem litið er á landi, hvar sem þú ert á Reykjanesi? „Ekki er hægt að sætta sig við þau umhverfisspjöll sem slík lína veldur auk þess sem hún setur hömlur á framtíðar-uppbyggingu bæjarfélagsins," segir í samþykkt Sandgerðinga: þau sjá ekki framtíð sína undir háspennulínunum. Síðustu misserin hefur mátt heyra látlausan pirring manna sem fara um Hellisheiði yfir fyrirferð mannvirkja og lagna þar. Menn sjá ofsjónum yfir mannvirkjum í alfaraleið og þeim sem falin eru bak við leiti. Það sem áður var talið framfaramerki og staðfesting á tæknivæðingu samfélagsins er nú að verða kaun í andliti landsins, ör sem ekki verður farðað yfir. Það sem Sandgerðingar föttuðu í síðustu viku, skilja Friðrik Sophusson og hans menn ekki enn. Ef almenningur tuðar nóg, kvartar, mótmælir, kann að vera að stjórnvaldsmönnum skiljist á endanum að tímarnir eru að breytast. Ef til vill þarf að skipa stjórnvaldinu að stefnan sé breytt, dugi ekki annað til. Sá tilskipunardagur kann að nálgast. Páll Baldvin Baldvinsson Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Páll Baldvin Baldvinsson Mest lesið Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Halldór 11.01.2025 Halldór Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Upprætum óttann við óttann Sóley Dröfn Davíðsdóttir Skoðun
Forstjóri Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, er mjúkmáll þessa dagana. Honum veitir ekki af í andófinu sem er að magnast í kringum hann. Friðrik lítur á mótmæli við frekari virkjunum í Þjórsá sem velferðarvandamál og segir mönnum hollast að minnast þess að fyrr eða síðar kreppi á dalnum í þjóðarbúinu. Hann hótar efnahagslegum þrengingum í ófyrirsjáanlegri framtíð sem röksemd fyrir álbræðslum í Helguvík, Húsavík, stækkun í Straumi og jafnvel Þorlákshöfn, Skagafirði eða Eyjafirði. Hann lætur sem viðbótarvirkjanir í Þjórsá séu löngu ákveðið mál og getur þess í leiðinni að vatnsréttindi þar hafi ríkið átt um áratugaskeið, nánast eins og þjóðinni komi ekki við hvernig þau réttindi verði nýtt og hvenær. Hann undrar sig á andófi manna við línulögnum um landið þvert og endilangt, áður hafi það verið stolt manna að rafmagnsstaur stóð í hlaði: himinn Friðriks Sophussonar er rafmagnslínuturn. Hann sér ekki lengur skóginn fyrir þeim trjám, en veit sem gamall stjórnmálamaður að jafnvel hótanir verður að klæða í mjúkan búning. Landsvirkjun er löngu orðin undarlega sambandslaus við nánasta umhverfi sitt. Talsmenn hennar og starfsmenn halda iðnir áfram látlausri þjónustu við stórkaupendur raforku og líta á áhyggjur almennings sem hvert annað fjas. En Sandgerðingar tóku af skarið: þeir kæra sig ekki um að gegnum sveitarfélagið sitt verði lagðar raflínur til Helguvíkur. Framtíðarmyndin er heldur ekki hugguleg þeim sveitarfélögum á Reykjanesi sem loksins eru laus undan áratuga hersetu: í áætlunum Landsnets verður Reykjanesið sundurskorið með háspennulínum, um hraunin ganga fram raðir risaturna. Það víðerni sem menn hafa loksins á síðasta áratug fundið í næsta nágrenni við borgarþéttbýlið og uppgötvað sem söguríkan og einstakan stað er í hættu. Gestum og heimamönnum verður boðið uppá stórkostlegan gróðareit á Reykjanesi í aðflugi og brottför af landinu: stálturnaskógur Reykjaness er draumsýn Landsvirkjunarmanna. Og línurnar skulu liggja víða um nesið, sem er öruggara opnist jörðin eins og mun gerast og hefur tíðum gerst þar. Sandgerðingar hafa stigið mikilvægt skref í umræðu þjóðarinnar um virkjanir og stóriðju. Fólk á Reykjanesi verður næstu vikur að svara einfaldri spurningu: vilt þú búa undir raflínum, viltu hafa þær fyrir augunum hvert sem litið er á landi, hvar sem þú ert á Reykjanesi? „Ekki er hægt að sætta sig við þau umhverfisspjöll sem slík lína veldur auk þess sem hún setur hömlur á framtíðar-uppbyggingu bæjarfélagsins," segir í samþykkt Sandgerðinga: þau sjá ekki framtíð sína undir háspennulínunum. Síðustu misserin hefur mátt heyra látlausan pirring manna sem fara um Hellisheiði yfir fyrirferð mannvirkja og lagna þar. Menn sjá ofsjónum yfir mannvirkjum í alfaraleið og þeim sem falin eru bak við leiti. Það sem áður var talið framfaramerki og staðfesting á tæknivæðingu samfélagsins er nú að verða kaun í andliti landsins, ör sem ekki verður farðað yfir. Það sem Sandgerðingar föttuðu í síðustu viku, skilja Friðrik Sophusson og hans menn ekki enn. Ef almenningur tuðar nóg, kvartar, mótmælir, kann að vera að stjórnvaldsmönnum skiljist á endanum að tímarnir eru að breytast. Ef til vill þarf að skipa stjórnvaldinu að stefnan sé breytt, dugi ekki annað til. Sá tilskipunardagur kann að nálgast. Páll Baldvin Baldvinsson
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun