Las dagblöðin betur en námsbækurnar 11. febrúar 2007 00:01 Kári Jónasson Lætur nú af störfum sem ritstjóri Fréttablaðsins en hann hefur starfað í blaða- og fréttamennsku í 45 ár.fréttablaðið/gva Tvenn tímamót eru í lífi Kára Jónassonar í dag. Hann er 67 ára og lætur um leið af starfi ritstjóra Fréttablaðsins. Kári er vel á sig kominn og ekki annað að sjá en hann búi yfir nægri starfsorku. Því má spyrja hvers vegna hann ákveði að hætta að vinna. „Ég ákvað fyrir löngu að verða ekki ellidauður í starfi, hvorki á Útvarpinu né annars staðar,“ segir Kári, sem var fréttastjóri Útvarps í átján ár áður en hann varð ritstjóri Fréttablaðsins haustið 2004. „Mér bauðst tilbreyting í starfi þegar ég fór á Fréttablaðið og ætlaði að vera þar í tvö ár eða svo. Nú eru þau liðin. Ég hef verið á fréttavakt í 45 ár og það er alveg nóg.“ Eiginleg blaðamennska Kára hófst á Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins, 1963. Eins og flestir aðrir starfsmenn blaðsins var Kári í Framsóknarflokknum og tók þátt í starfi hans í tvö til þrjú ár. Hann sagði sig úr flokknum eftir að hann byrjaði á Útvarpinu. „Ég held að mörgum hafi fundist græn slikja yfir mér alla tíð síðan en ég hef haldið mig algjörlega frá pólitík. Það var ágætt að kynnast innviðum flokks og sjá hvernig menn vinna í flokki en ég hef átt mjög gott samstarf við fólk í öllum flokkum.“ Kári brosir þegar hann er spurður hvort hann hafi kosið Framsókn allar götur síðan og svarar því einu til að hann hafi alltaf farið á kjörstað. Hann bætir reyndar við að í þrígang hafi honum boðist að fara í framboð – af þremur flokkum.Örlagastundir í SjallanumStendur vaktina við Surtsey Kári var blaðamaður á Tímanum þegar Surtseyjargosið hófst í nóvember 1963. Hér er hann í einni af mörgum ferðum sínum út að Surtsey.Á tímum Kára á Tímanum var öðruvísi umhorfs á fjölmiðlamarkaðnum en nú er. Flokksblöðin voru upp á sitt besta og þar af leiðandi hvert með sínum hætti. Kári segir dagblöðin þrjú sem nú koma út full lík og saknar gamla tímans. „Maður las blöðin með ákveðnum gleraugum. Við á Tímanum vorum svo sem ekki að skamma Sambandið mikið en Indriði G. Þorsteinsson ritstjóri innrætti okkur að vera í fréttum en ekki pólitík. Aðrir sáu um það.“ Það var einmitt Indriði sem réði Kára á Tímann. Fundum þeirra bar saman í frægu húsi við Geislagötu á Akureyri. „Indriði gekk gjarnan frá bókunum sínum á Akureyri og hann var að ljúka við Land og syni árið 1963. Við hittumst fyrir tilviljun á balli í Sjallanum.“ Gengið var frá ráðningunni á staðnum við undirleik Hljómsveitar Ingimars Eydal. Sjallinn virðist vettvangur örlagastunda í lífi Kára því síðar kynntist hann þar eiginkonu sinni, Ragnhildi Valdimarsdóttur. Og auðvitað var Hljómsveit Ingimars líka að spila þá.Rólegra þjóðfélagá fréttastofu útvarps Kári var fréttastjóri Fréttastofu Útvarps í átján ár. Hér er hann í fréttastúdíóinu með samstarfsfólki sínu til margra ára. Frá vinstri: Björg Eva Erlendsdóttir, Broddi Broddason, Sigríður Árnadóttir, Óðinn Jónsson, Ásgeir Tómasson og Jón Guðni Kristjánsson.Þó að sumum finnist býsna margt markvert vera á seyði í samfélaginu nú um stundir hverfur hugur Kára aftur um áratugi þegar hann rifjar upp minnisstæða viðburði frá ferlinum. Jarðskjálftar, eldgos og þorskastríð koma upp í hugann. „Ég segi oft að á þessum árum hafi hlutirnir verið að gerast. Til dæmis þegar vinstristjórnin tók við 1971 og Morgunblaðið fór hamförum varðandi brottför hersins og landhelgisútfærsluna. Þjóðfélagið hefur róast, áður voru eilíf átök um viðskiptalífið, Sambandið og fleira.“ Náttúruumbrot voru tíð og Kári sinnti þeim öðrum fremur. „Surtseyjargosið hófst stuttu eftir að ég byrjaði á Tímanum og ég fór þangað tuttugu og tvisvar sinnum, ýmist fljúgandi eða siglandi.“ Kára telst til að ferðir hans að Mývatnseldum hafi verið átta og hann var einnig sendur á vettvang þegar gosið hófst í Heimaey í janúar 1973. „Ég fór þangað fyrstu nóttina og var þar í tíu daga. Þar var líka Árni Gunnarsson fyrir Útvarpið og hann varð valdur að því að ég byrjaði á Útvarpinu. Hann lagði út net og ég talaði svo við Margréti Indriðadóttur fréttastjóra.“ Tilviljanir og óvæntar aðstæður hafa ráðið miklu um hvar Kári hefur ráðist til starfa en snemma var ljóst að blaðamennska höfðaði til hans. „Mamma sagði mér að ég hefði lesið dagblöðin á heimilinu betur en námsbækurnar. Ætli blaðamannabakterían sé ekki komin þaðan.“Íslenskukunnáttu hrakarRitstjórar Fréttablaðsins Þorsteinn Pálsson ritstjóri, Steinunn Stefánsdóttir aðstoðarritstjóri, Jón Kaldal ritstjóri og Kári Jónasson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins.fréttablaðið/GVAEina ferðina enn er umrót á blaðamarkaðnum og ný blöð væntanleg. Kári segir ánægjulegt að eitthvað skuli gerast í fjölmiðlun en sér ekki fjárhagslegan grundvöll fyrir öll nýju blöðin. „Ég vona að þessi nýju blöð séu með góða bakhjarla og hafi tryggt fjármagn til að halda eitthvað út. Ég vona líka að þau hleypi lífi í fjölmiðlunina og geri hana fjölbreyttari.“ Kári telur blaðamennsku á Íslandi vera á ágætri vegferð, margt ungt og vel menntað fólk starfi á fjölmiðlunum. „Ég hef tekið eftir því að unga fólkið treystir mjög á netið og tölvurnar en það kemur ekkert í staðinn fyrir persónuleg tengsl. Blaðamenn eiga að stefna að því að ná persónulegu og góðu sambandi við embættismenn, stjórnmálamenn og annað lykilfólk í samfélaginu. Ekkert net kemur í staðinn fyrir að kynnast fólki.“ Þá hefur Kári áhyggjur af hrakandi íslenskukunnáttu þjóðarinnar. „Fólk kemur úr háskóla eftir margra ára nám, sumt með tvær prófgráður, en talar ekki boðlega íslensku. Þetta á við um blaðamenn og fólk á öðrum stöðum í þjóðfélaginu. Það er eitthvað að skólakerfi sem skilar svona fólki út í samfélagið og það verður að taka á þessu.“Nýtt andlit FréttablaðsinsÞegar Kári var ráðinn að Fréttablaðinu voru átökin um fjölmiðlalögin nýafstaðin en blaðið var þar í brennidepli. Í opinberri umræðu var því haldið fram að Kára væri ætlað að ljá blaðinu trúverðugleika af því tagi sem einkenndi fréttastofu Útvarps. Kári segir nokkuð til í því. „Ég ætlaði aldrei að reyna að færa einhvern Útvarpsblæ á blaðið en því er ekki að leyna að þegar ég var ráðinn var mér sagt að það veitti ekki af að fá nýtt andlit á blaðið.“ Það er mat Kára að sú ætlun hafi heppnast. „Ég kom alls ekki einn að því en það hefur tekist að marka Fréttablaðinu ákveðinn sess í þjóðfélaginu. Við keppum ekki að því að verða Mogginn heldur fjölmiðill sem fólk tekur mark á og sækir upplýsingar og fréttir í. Við ritstjórarnir höfum reynt að byggja upp umræðu í blaðinu og mér sýnist það vera að takast en allt tekur sinn tíma.“ Fréttablaðið hefur oft verið sagt hallt undir eigendur sína og draga taum þeirra í erfiðum málum. Kári kveðst aldrei hafa haft áhyggjur af eignarhaldi blaðsins, ekki frekar en eignarhaldi annarra blaða, til dæmis Morgunblaðsins. „Ég hitti Jón Ásgeir Jóhannesson í tíu til tuttugu mínútur áður en ég byrjaði á blaðinu og það eru mín einu samskipti við hann. Reyndar hitti ég Kára Stefánsson í Íslenskri erfðagreiningu nokkrum sinnum en hann var þá í eigendahópnum. En aldrei varð ég var við neinn þrýsting og aldrei átti ég nein samskipti við eigendurna í sambandi við ritstjórn blaðsins.“Sigur fyrir blaðamennskunaÁrin á Fréttablaðinu voru ekki alltaf dans á rósum og meðal annars mátti Kári þola stefnu af hálfu Jónínu Benediktsdóttur vegna skrifa um tölvupóst hennar. Kári segir það hafa verið hálf leiðinlega reynslu sem þó endaði vel. „Ég þurfti sem ábyrgðarmaður blaðsins að verja þetta en Sigurjón Magnús Egilsson fréttaritstjóri hafði fengið þessi gögn. Ég sá þau hjá honum en vissi ekki hvaðan þau komu. En það er lykilatriði í málinu að það var rætt við eitt aðalvitnið, Styrmi Gunnarsson, og hann staðfesti þessa tölvupósta. Ég er efins um að við hefðum farið út í þetta án þess að fá þetta staðfest.“ Kára létti þegar málið var afstaðið og segir lyktir þess sigur fyrir blaðamennsku á Íslandi. „Ein setning úr dómi Hæstaréttar gladdi blaðamannshjarta mitt en þar sagði að málið hefði átt erindi til almennings.“Ýmislegt fram undanÞó að starfsævinni sé að ljúka er ýmislegt fram undan hjá Kára Jónassyni. Hann er á leið í árlegt skíðaferðalag í Ölpunum og norður í landi á hann jörð ásamt öðrum og þar bíða næg verkefni sem setið hafa á hakanum. „Svo vill þannig til að þegar fréttist af starfslokum mínum var ég beðinn að annast ákveðið verkefni sem ég kíki kannski á þegar ég kem heim af skíðunum.“ Hann vill ekki upplýsa nánar í hverju það felst, segir það koma í ljós. Þá hyggst hann fara í gegnum dágott ljósmyndasafn sem hann á. „Ég tók mikið af myndum í gamla daga og ég hef uppgötvað að margar þeirra hafa söfnunargildi,“ segir hann og nefnir sem dæmi litmynd af karlinum á kassanum á Lækjartorgi tekna 1955. Kári segist ánægður með starfsferil sinn, margt skemmtilegt og óvænt hafi gerst en annirnar hafi verið miklar. „Ég var kannski ekkert ógurlega góður fjölskyldufaðir, ekki alltaf kominn heim á kvöldin og svona, en ég átti og á góða fjölskyldu.“ n Mest lesið Draumurinn langþráði kostaði hana hjónabandið Lífið Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Lífið Kaupmálar, framhjáhöld, félagskvíði og engin að tala saman Áskorun Sleppti gallabuxunum þegar hann giftist sinni drottningu Lífið „Bara það að fá að taka þátt er ómetanlegt“ Lífið Brenton Wood er látinn Lífið Bráðum verður hún frú Beast Lífið Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Asninn að baki Asna allur Lífið Krakkatían: Þrettándinn, stjörnukerfið og barnaefni Lífið Fleiri fréttir Húðrútína Önnu Guðnýjar Sjá meira
Tvenn tímamót eru í lífi Kára Jónassonar í dag. Hann er 67 ára og lætur um leið af starfi ritstjóra Fréttablaðsins. Kári er vel á sig kominn og ekki annað að sjá en hann búi yfir nægri starfsorku. Því má spyrja hvers vegna hann ákveði að hætta að vinna. „Ég ákvað fyrir löngu að verða ekki ellidauður í starfi, hvorki á Útvarpinu né annars staðar,“ segir Kári, sem var fréttastjóri Útvarps í átján ár áður en hann varð ritstjóri Fréttablaðsins haustið 2004. „Mér bauðst tilbreyting í starfi þegar ég fór á Fréttablaðið og ætlaði að vera þar í tvö ár eða svo. Nú eru þau liðin. Ég hef verið á fréttavakt í 45 ár og það er alveg nóg.“ Eiginleg blaðamennska Kára hófst á Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins, 1963. Eins og flestir aðrir starfsmenn blaðsins var Kári í Framsóknarflokknum og tók þátt í starfi hans í tvö til þrjú ár. Hann sagði sig úr flokknum eftir að hann byrjaði á Útvarpinu. „Ég held að mörgum hafi fundist græn slikja yfir mér alla tíð síðan en ég hef haldið mig algjörlega frá pólitík. Það var ágætt að kynnast innviðum flokks og sjá hvernig menn vinna í flokki en ég hef átt mjög gott samstarf við fólk í öllum flokkum.“ Kári brosir þegar hann er spurður hvort hann hafi kosið Framsókn allar götur síðan og svarar því einu til að hann hafi alltaf farið á kjörstað. Hann bætir reyndar við að í þrígang hafi honum boðist að fara í framboð – af þremur flokkum.Örlagastundir í SjallanumStendur vaktina við Surtsey Kári var blaðamaður á Tímanum þegar Surtseyjargosið hófst í nóvember 1963. Hér er hann í einni af mörgum ferðum sínum út að Surtsey.Á tímum Kára á Tímanum var öðruvísi umhorfs á fjölmiðlamarkaðnum en nú er. Flokksblöðin voru upp á sitt besta og þar af leiðandi hvert með sínum hætti. Kári segir dagblöðin þrjú sem nú koma út full lík og saknar gamla tímans. „Maður las blöðin með ákveðnum gleraugum. Við á Tímanum vorum svo sem ekki að skamma Sambandið mikið en Indriði G. Þorsteinsson ritstjóri innrætti okkur að vera í fréttum en ekki pólitík. Aðrir sáu um það.“ Það var einmitt Indriði sem réði Kára á Tímann. Fundum þeirra bar saman í frægu húsi við Geislagötu á Akureyri. „Indriði gekk gjarnan frá bókunum sínum á Akureyri og hann var að ljúka við Land og syni árið 1963. Við hittumst fyrir tilviljun á balli í Sjallanum.“ Gengið var frá ráðningunni á staðnum við undirleik Hljómsveitar Ingimars Eydal. Sjallinn virðist vettvangur örlagastunda í lífi Kára því síðar kynntist hann þar eiginkonu sinni, Ragnhildi Valdimarsdóttur. Og auðvitað var Hljómsveit Ingimars líka að spila þá.Rólegra þjóðfélagá fréttastofu útvarps Kári var fréttastjóri Fréttastofu Útvarps í átján ár. Hér er hann í fréttastúdíóinu með samstarfsfólki sínu til margra ára. Frá vinstri: Björg Eva Erlendsdóttir, Broddi Broddason, Sigríður Árnadóttir, Óðinn Jónsson, Ásgeir Tómasson og Jón Guðni Kristjánsson.Þó að sumum finnist býsna margt markvert vera á seyði í samfélaginu nú um stundir hverfur hugur Kára aftur um áratugi þegar hann rifjar upp minnisstæða viðburði frá ferlinum. Jarðskjálftar, eldgos og þorskastríð koma upp í hugann. „Ég segi oft að á þessum árum hafi hlutirnir verið að gerast. Til dæmis þegar vinstristjórnin tók við 1971 og Morgunblaðið fór hamförum varðandi brottför hersins og landhelgisútfærsluna. Þjóðfélagið hefur róast, áður voru eilíf átök um viðskiptalífið, Sambandið og fleira.“ Náttúruumbrot voru tíð og Kári sinnti þeim öðrum fremur. „Surtseyjargosið hófst stuttu eftir að ég byrjaði á Tímanum og ég fór þangað tuttugu og tvisvar sinnum, ýmist fljúgandi eða siglandi.“ Kára telst til að ferðir hans að Mývatnseldum hafi verið átta og hann var einnig sendur á vettvang þegar gosið hófst í Heimaey í janúar 1973. „Ég fór þangað fyrstu nóttina og var þar í tíu daga. Þar var líka Árni Gunnarsson fyrir Útvarpið og hann varð valdur að því að ég byrjaði á Útvarpinu. Hann lagði út net og ég talaði svo við Margréti Indriðadóttur fréttastjóra.“ Tilviljanir og óvæntar aðstæður hafa ráðið miklu um hvar Kári hefur ráðist til starfa en snemma var ljóst að blaðamennska höfðaði til hans. „Mamma sagði mér að ég hefði lesið dagblöðin á heimilinu betur en námsbækurnar. Ætli blaðamannabakterían sé ekki komin þaðan.“Íslenskukunnáttu hrakarRitstjórar Fréttablaðsins Þorsteinn Pálsson ritstjóri, Steinunn Stefánsdóttir aðstoðarritstjóri, Jón Kaldal ritstjóri og Kári Jónasson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins.fréttablaðið/GVAEina ferðina enn er umrót á blaðamarkaðnum og ný blöð væntanleg. Kári segir ánægjulegt að eitthvað skuli gerast í fjölmiðlun en sér ekki fjárhagslegan grundvöll fyrir öll nýju blöðin. „Ég vona að þessi nýju blöð séu með góða bakhjarla og hafi tryggt fjármagn til að halda eitthvað út. Ég vona líka að þau hleypi lífi í fjölmiðlunina og geri hana fjölbreyttari.“ Kári telur blaðamennsku á Íslandi vera á ágætri vegferð, margt ungt og vel menntað fólk starfi á fjölmiðlunum. „Ég hef tekið eftir því að unga fólkið treystir mjög á netið og tölvurnar en það kemur ekkert í staðinn fyrir persónuleg tengsl. Blaðamenn eiga að stefna að því að ná persónulegu og góðu sambandi við embættismenn, stjórnmálamenn og annað lykilfólk í samfélaginu. Ekkert net kemur í staðinn fyrir að kynnast fólki.“ Þá hefur Kári áhyggjur af hrakandi íslenskukunnáttu þjóðarinnar. „Fólk kemur úr háskóla eftir margra ára nám, sumt með tvær prófgráður, en talar ekki boðlega íslensku. Þetta á við um blaðamenn og fólk á öðrum stöðum í þjóðfélaginu. Það er eitthvað að skólakerfi sem skilar svona fólki út í samfélagið og það verður að taka á þessu.“Nýtt andlit FréttablaðsinsÞegar Kári var ráðinn að Fréttablaðinu voru átökin um fjölmiðlalögin nýafstaðin en blaðið var þar í brennidepli. Í opinberri umræðu var því haldið fram að Kára væri ætlað að ljá blaðinu trúverðugleika af því tagi sem einkenndi fréttastofu Útvarps. Kári segir nokkuð til í því. „Ég ætlaði aldrei að reyna að færa einhvern Útvarpsblæ á blaðið en því er ekki að leyna að þegar ég var ráðinn var mér sagt að það veitti ekki af að fá nýtt andlit á blaðið.“ Það er mat Kára að sú ætlun hafi heppnast. „Ég kom alls ekki einn að því en það hefur tekist að marka Fréttablaðinu ákveðinn sess í þjóðfélaginu. Við keppum ekki að því að verða Mogginn heldur fjölmiðill sem fólk tekur mark á og sækir upplýsingar og fréttir í. Við ritstjórarnir höfum reynt að byggja upp umræðu í blaðinu og mér sýnist það vera að takast en allt tekur sinn tíma.“ Fréttablaðið hefur oft verið sagt hallt undir eigendur sína og draga taum þeirra í erfiðum málum. Kári kveðst aldrei hafa haft áhyggjur af eignarhaldi blaðsins, ekki frekar en eignarhaldi annarra blaða, til dæmis Morgunblaðsins. „Ég hitti Jón Ásgeir Jóhannesson í tíu til tuttugu mínútur áður en ég byrjaði á blaðinu og það eru mín einu samskipti við hann. Reyndar hitti ég Kára Stefánsson í Íslenskri erfðagreiningu nokkrum sinnum en hann var þá í eigendahópnum. En aldrei varð ég var við neinn þrýsting og aldrei átti ég nein samskipti við eigendurna í sambandi við ritstjórn blaðsins.“Sigur fyrir blaðamennskunaÁrin á Fréttablaðinu voru ekki alltaf dans á rósum og meðal annars mátti Kári þola stefnu af hálfu Jónínu Benediktsdóttur vegna skrifa um tölvupóst hennar. Kári segir það hafa verið hálf leiðinlega reynslu sem þó endaði vel. „Ég þurfti sem ábyrgðarmaður blaðsins að verja þetta en Sigurjón Magnús Egilsson fréttaritstjóri hafði fengið þessi gögn. Ég sá þau hjá honum en vissi ekki hvaðan þau komu. En það er lykilatriði í málinu að það var rætt við eitt aðalvitnið, Styrmi Gunnarsson, og hann staðfesti þessa tölvupósta. Ég er efins um að við hefðum farið út í þetta án þess að fá þetta staðfest.“ Kára létti þegar málið var afstaðið og segir lyktir þess sigur fyrir blaðamennsku á Íslandi. „Ein setning úr dómi Hæstaréttar gladdi blaðamannshjarta mitt en þar sagði að málið hefði átt erindi til almennings.“Ýmislegt fram undanÞó að starfsævinni sé að ljúka er ýmislegt fram undan hjá Kára Jónassyni. Hann er á leið í árlegt skíðaferðalag í Ölpunum og norður í landi á hann jörð ásamt öðrum og þar bíða næg verkefni sem setið hafa á hakanum. „Svo vill þannig til að þegar fréttist af starfslokum mínum var ég beðinn að annast ákveðið verkefni sem ég kíki kannski á þegar ég kem heim af skíðunum.“ Hann vill ekki upplýsa nánar í hverju það felst, segir það koma í ljós. Þá hyggst hann fara í gegnum dágott ljósmyndasafn sem hann á. „Ég tók mikið af myndum í gamla daga og ég hef uppgötvað að margar þeirra hafa söfnunargildi,“ segir hann og nefnir sem dæmi litmynd af karlinum á kassanum á Lækjartorgi tekna 1955. Kári segist ánægður með starfsferil sinn, margt skemmtilegt og óvænt hafi gerst en annirnar hafi verið miklar. „Ég var kannski ekkert ógurlega góður fjölskyldufaðir, ekki alltaf kominn heim á kvöldin og svona, en ég átti og á góða fjölskyldu.“ n
Mest lesið Draumurinn langþráði kostaði hana hjónabandið Lífið Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Lífið Kaupmálar, framhjáhöld, félagskvíði og engin að tala saman Áskorun Sleppti gallabuxunum þegar hann giftist sinni drottningu Lífið „Bara það að fá að taka þátt er ómetanlegt“ Lífið Brenton Wood er látinn Lífið Bráðum verður hún frú Beast Lífið Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Asninn að baki Asna allur Lífið Krakkatían: Þrettándinn, stjörnukerfið og barnaefni Lífið Fleiri fréttir Húðrútína Önnu Guðnýjar Sjá meira