Útlit er fyrir að Mýrin, kvikmynd Baltasar Kormáks eftir sögu Arnaldar Indriðasonar, geti slegið öll aðsóknarmet á Íslandi. Mýrin varð til þess að almennt aðsóknarmet var slegið í kvikmyndahúsunum í gær: Um 16.000 manns hafa nú séð hana Mýrina og eftir fyrstu sýningarhelgi nema tekjur 15,8 milljónum króna. Þetta er metopnun fyrir íslenska bíómynd.
Aðeins ein erlend mynd hefur skilað meiri tekjum á fyrstu sýningarhelgi. Það var Harry Potter og leyniklefinn, sem tók inn 16,6 milljónir fyrstu helgina 2002.
Guðmundur Breiðfjörð, markaðsstjóri kvikmynda hjá Senu, segir að Mýrin stefni í að slá aðsóknarmetið fyrir íslenska bíómynd, 82.000 manns, sem sett var með Englum alheimsins fyrir sex árum. Um 58 þúsund manns sáu mynd Baltasars, Hafið á sínum tíma en aðsóknarmet allra tíma á Íslandi á kvikmyndin Titanic. Hana sáu 124.000 manns árið 1997.