Innlent

Ólík afstaða Halldórs og Geirs varðandi uppsögn varnarsamningsins

MYND/Hari

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir athyglisvert að formenn stjórnarflokkanna hafi ólíka afstöðu til möguleikanna á uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þá segir hann utanríkisráðherra hafa sýnt ótrúlegt fyrirhyggjuleysi um öryggismál á hafi.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði á fundi í Reykjanesbæ í gær að vel megi vera að það komi til þess að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna verði sagt upp. Össur segir merkilegt að hann skuli taka til orða með þessum hætti því það megi merkja af orðum Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, að undanförnu að hann hafi aðra afstöðu til málsins og vilji frekar halda í samninginn. Össur segist sjálfur ekki vilja hrapa að neinni niðurstöðu í þessum efnum og segir að það verði að skoða alla möguleika.

Forsætisráðherra sagði einnig í gær að það liggi fyrir að Landhelgisgæslan verði efld, og að hún verði hugsanlega að öllu leyti færð til Keflavíkur. Össuri finnst það sterkur leikur, en segir að utanríkisráðherra hafi tekið fálega í óskir Gæslunnar síðastliðið haust um aukinn viðbúnað vegna öryggisgæslu á hafi. Hann hafi sagt ótímabært að ræða þessi mál og því sýnt ótrúlegt fyrirhyggjuleysi, og um leið snuprað yfirmenn Gæslunnar opinberlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×