Innlent

Hraða þarf viðræðum

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, í ræðustól á Alþingi.
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, í ræðustól á Alþingi. MYND/Valgarður Gíslason

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, gerði þingheimi í hádeginu grein fyrir ákvörðun Bandaríkjamanna frá í gær um að draga úr starfsemi varnarliðsins í Keflavík á næstu mánuðum. Hann sagði að hraða þyrfti viðræðum um áframhaldandi samstarf. Formaður Samfylkingarinnar segir viðræður hingað til augljóslega ekki hafa skilað neinu.

Utanríkisráðherra sagði að Íslendingar legðu áherslu á að hraða frekari viðræðum við Bandaríkjamenn um varnarsamstarf en auk þess yrði rætt um hvernig auka mætti samstarf ríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði fréttir gærdagsins ekki þurfa að koma á óvart. Gott væri að niðurstaða hefði nú fengist í málið en ljóst að viðræður síðustu ára hefðu ekki skilað neinu.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði mikilvægt að Íslendingar héldu vöku sinni í málinu og tryggðu öryggi landsins. Það yrði að gera í gegnum varnarsamninginn og samstarfið á vegum Atlandshafsbandalagsins.

Ögmundur Jónasson, vinstri grænum, sagði að hann hefði aldrei skilið hvernig öryggi Íslands væri tryggt með fjórum til fimm þotum Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. Stjórnvöld hefðu aldrei svarað því hvaðan búist væri við árás.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×