Innlent

Félagsmálaráðherra efnir til víðtæks samráðs um framtíð húsnæðislána ríkisins

MYND/GVA

Félagsmálaráðherra ætlar að efna til víðtæks samráðs um framtíð húsnæðislána ríkisins. Starfshópur á vegum ráðherra telur koma til greina að þróa Íbúðalánasjóð í átt til heildsölubanka. Að mati hópsins kemur tvennt til greina, að Íbúðalánasjóður verði rekin áfram í lítið breyttri mynd eða verði heildsölubanki.

 

Niðurstaða starfshópsins var kynnt í dag en hann skipuðu fulltrúar frá Félagsmálaráðuneyti og Íbúðalánasjóði. Starfshópurinn telur rétt að stjórnvöld taki efnislega afstöðu til þess hvort ráðast eigi í grundvallarbreytingar á opinberu húsnæðiskerfi fremur en að ákveða óverulegar breytingar á núverandi hlutverki Íbúðalánasjóðs eða lagaumhverfi. Bæði komi til greina að reka sjóðinn í núverandi mynd eða sem heilsölubanka með félagsleg markmið. Árni Magnússon tilkynnti í dag um að ráðist yrði í víðtækt samráð um framtíð sjóðsins.

Árni vonast til að verkið taki ekki nema nokkura mánuði. Starfslýsing samráðshópsins liggi þó ekki fyrir en óskað verði eftir því að hópurinn geri tillögur um aðkomu ríkisins að húsnæðismarkaði. Sjálfur telji hann aðkomu ríkisins mikilvæga hvort sem sjóðurinn starfi í núverandi mynd eða sem heildsölubanki. Árni Magnússon segir mikilvægt að niðurstaðan byggist á sátt og jafnframt að hún nái utan um þau pólitísku markmið sem hafi verið sett.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×