Innlent

Fundað með starfsfólki leikskóla og foreldrum í Kópavogi

Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi munu í dag og á mánudag funda með starfsmönnum leikskóla og forvarsmönnum foreldrafélaga þeirra vegna þeirrar óánægju með leikskólamál bæjarins. Þá hóta leikskólakennarar á Akureyri uppsögnum ef kjör þeirra verði ekki leiðrétt.

Um fimmtíu starfsmenn leikskólanna hafa sagt upp nú eftir áramótin vegna óánægju með kjör sín eftir samninga Reykjavíkurborgar við Eflingu og Starfsmannafélag borgarinnar. Fundirnir í Kópavogi verða þrír, sá fyrsti klukkan þrjú í dag með trúnaðarmönnum ófaglærðra á leikskólum. Á mánudag verður svo fundað með fulltrúum foreldrafélaga á leikskólunum og trúnaðarmönnum leikskólanna.

Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, segir að á fundunum verði staða mála rædd og þau sjónarmið sem fram komi hjá hópunum nýtt í vinnu bæjaryfirvalda fyrir launamálaráðstefnu sveitarfélaganna sem haldin verður 20. janúar næstkomandi.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur var í gær haldinn fundur samráðshóps um kjaramál leikskólakennara. Hópurinn hefur það verkefni að móta hugmyndir fyrir launamálaráðstefnuna. Áætlað er að halda tvo fundi í næstu viku og aðra tvo í vikunni þar á eftir.



Óánægja leikskólakennara er ekki bundin við höfuðborgarsvæðið því í morgun sendi Félag leikskólakennara á Akureyri frá sér yfirlýsinug þar sem uppsögnum er hótað og skorað á sveitarfélög að leysa deiuna um kjaramál leikskólakennara á launamálaráðstefnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×