Bíó og sjónvarp

Fjóla smáborgari í sjónvarp

Vigdís Gunnarsdóttir leikstjóri
„Það er sérstaklega skemmtilegt að vinna með öllum þessum hæfileikaríku og kláru konum.“
Vigdís Gunnarsdóttir leikstjóri „Það er sérstaklega skemmtilegt að vinna með öllum þessum hæfileikaríku og kláru konum.“

Smáborgarinn Fjóla er aðalpersóna sjónvarpsþáttar sem tökur hefjast á í dag. Fjóla er úr smiðju Ólafíu Hrannar Jónsdóttur leikkonu, en óvenjuhátt hlutfall kvenna er við stjórnvölinn við þáttagerðina.

Fjóla er flestum Íslendingum að góðu kunn þar sem hún á sér sögu allt frá því í Áramótaskaupinu 1989, þegar Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona kom fyrst fram fyrir hennar hönd. „Það er skrýtið til þess að hugsa að við Fjóla höfum átt samleið svona lengi en ég hef líka gefið henni löng frí inn á milli, jafnvel í einhver ár. Engu að síður virðist fólk þekkja hana ákaflega vel og tekur meira en vel í að fá hana sem reglulegan gest heim í stofu, þannig að mér fannst alveg kominn tími á hana," segir Ólafía Hrönn.

„Fjóla er líka alveg rosaleg kelling. Henni finnst hún tilheyra fína fólkinu en það er engu að síður pakk-púki í henni. Hún er líka þannig að ef hún kemst upp með að ota sínum tota á kostnað annara þá hikar hún aldrei og á sama tíma hugsar hún aðeins allt það versta um aðra."

Persóna Fjólu er greinilega skýr í kollinum á Ólafíu Hrönn enda getur hún nánast rætt um hana eins og gamla vinkonu. „Það var alveg rosalega gaman að skrifa þetta og talsverð viðbrigði frá „sketsa" forminu.

Munurinn felst í því að takast á við að mynda heildstæða sögu og þá verður hver persóna líka skýrari og sterkari fyrir vikið. Fyrir mér er Fjóla fyrst og fremst smáborgari og það af skemmtilegustu gerð svo ég vona bara að íslendingar fái að njóta sem flestra þátta með henni blessaðri."

Tökurnar sem eru að hefjast í dag eru ekki alveg með hefðbundnum hætti þar sem um svokallaðan „Pilot" eða prufuþátt er að ræða. Vigdís Gunnarsdóttir leikstjóri bendir á að þetta sé í raun faglega leiðin að því að vinna svona gamanþætti þar sem vinnslan snýst um að taka einn prufuþátt til þess að sjá hvernig hlutirnir gera sig. En það er einnig óvenjulegt við verkefnið að óvenju margar konur koma að gerð þáttanna.

„Það er sérstaklega skemmtilegt að vinna með öllum þessum hæfileikaríku og kláru konum. Að mínu mati er líka nauðsynlegt að konur séu að fá slík tækifæri í kvikmyndagerð," segir Vigdís og er greinilega ánægð með hvaða fólk kemur að verkinu.

Handritið og Fjóla eru afsprengi Ólafíu Hrannar, Hera Ólafsdóttir er framleiðandi, Sigurbjörg Jónsdóttir klippir, Helga Stefánsdóttir er með búningana og Ragnhildur Gísladóttir verður með tónlistina. „Þröstur Leó og Kjartan Guðjónsson fá svo að vera strákarnir okkar á setti en þeir eru með lykilhlutverk í þáttunum."

„Það er pakk-púki í Fjólu en hún er líka smáborgari af skemmtilegustu gerð,“ segir leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir.


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.