Tónlist

Rokkklúbbnum CBGB lokað

Rokkgyðjan Patti Smith Kvaddi rokkklúbbinn CBGB ásamt fleirum um síðustu helgi.
Rokkgyðjan Patti Smith Kvaddi rokkklúbbinn CBGB ásamt fleirum um síðustu helgi.

Rokkklúbburinn frægi í New York, CBGB, lokaði á sunnudagskvöldið eftir þrjátíu ára aðsetur í Bowery. Patti Smith kvaddi með stuttu setti og smellti mynd af lúnum innréttingum klúbbsins áður en hún taldi í.

CBGB opnaði í desember 1973, og varð snemma einn aðalstaðurinn fyrir rokksenuna sem þá var að blóma: Patti Smith var þar krýnd drottning en flest böndin sem komu fram í borginni á þessum árum áttu þar fastan samastað: Ramones, Blondie, Talking Heads, Television, Sonic Youth og þúsundir smærri banda spiluðu þar uns til yfir lauk.

Deilur hafa staðið við eigendur húsnæðisins á Bowery 313/315 og á endanum ákváðu eigendur klúbbsins að gefa eftir og flytja. Eigandinn Hilly Kristal skuldaði leigu og gat ekki borgað. Ýmsir lögðu honum lið: David Byrne úr Talking Heads og Steven Van Zandt í E Street Band og gengið í The Sopranos, en allt kom fyrir ekki. Kveðjuathöfnin var vandlega kynnt í New York og safnaðist fólk saman við klúbbinn á sunnudag.

Frægir tónleikastaðir í New York hafa týnt tölunni síðustu misserin:

Bottom Line lokaði vegna skulda í fyrra og Fez and the Luna Lounge var lokað vegna nýbygginga. The Continental á þriðja stræti í East Village býður ekki lengur upp á lifandi tónlist. Kristal er að leita að nýju húsnæði fyrir klúbbinn, en það er ógerlegt að flytja margklístruð plaggötin af veggjunum og rómaða hlandlyktina úr salernunum að minnsta kosti ekki til Las Vegas sem Kristal hefur nefnt sem mögulegan áfangastað klúbbsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.