Fastir pennar

Eignarhaldsfélagið Exbé

Samkvæmt þjóðskrá eru Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur ennþá til þótt stjórnmálaflokkarnir sem gegndu þessum nöfnum séu löngu horfnir yfir móðuna miklu. Þessar gamalgrónu alþýðuhreyfingar hafa umbreyst í eignarhaldsfélög sem stofnuð voru utan um eignir og skuldir flokkanna sálugu til þess að Samfylkingin gæti hafið ævi sína óspjölluð í fjármálum.

Það getur hent bestu flokka að daga uppi og verða að eignarhaldsfélagi.

Á hinn bóginn er það nýjung að flokkur umbreyti sér í eignarhaldsfélag samhliða því að hann heldur stjórnmálastarfi áfram, tekur þátt í kosningum, á fulltrúa á þingi og jafnvel í ríkisstjórn líka. En sú þróun virðist eiga sér stað þessa dagana varðandi Framsóknarflokkinn.

Flokkurinn sem eitt sinn hét þessu nafni virðist vera að gufa upp, en í staðinn er komið eignarhaldsfélagið Exbé, sem snýst ekki um stjórnmálastarf heldur hagsmunagæslu fyrir eignir og ítök flokksins.

Þessu til sönnunar er tilhlýðilegt að nefna nokkur dæmi og byrja á þeim einföldustu. Í fyrsta lagi þá er stjórnmálaflokkur bandalag fólks sem deilir sameiginlegum hugsjónum eða í það minnsta skoðunum. Það liggur því í hlutarins eðli að stjórnmálaflokkar manna stöður og þingsæti með fólki sem hefur tekið virkan þátt í starfi flokksins, en ekki aðkeyptu vinnuafli utan úr bæ. Öðru máli gegnir um eignarhaldsfélagið Exbé. Það er eins og hvert annað knattspyrnufélag sem getur fengið til liðs við sig leikmenn úr öðrum liðum (t.d. Hjálmar Árnason eða Kristinn H. Gunnarsson) eða efnilega unga leikmenn úr utandeildarfélögum (t.d. Björn Inga Hrafnsson eða Steingrím S. Ólafsson).

Í öðru lagi er það eðli stjórnmálaflokka að ákveðin festa ríkir í hugsjónum þeirra, jafnvel þegar þeir bregðast við nýjum aðstæðum. Öðru máli gegnir um eignarhaldsfélög sem geta ákveðið að selja öll hlutabréf sín í tilteknum bissness og fjárfesta í einhverju allt öðru. Áratugum saman var Framsóknarflokkurinn til dæmis þjóðlegur flokkur sem stóð dyggan vörð um íslenskan landbúnað. Einnig var til flokkur sem vildi ganga í Evrópusambandið og hafa álver í hverjum firði. Það var Alþýðuflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Jóns Sigurðssonar. Eignarhaldsfélagið Exbé hikar ekki við að varpa 90 ára arfleifð Framsóknarflokksins fyrir róða og leggur nú allt kapp á að sölsa undir sig reytur gamla Alþýðuflokksins.

Jafnframt vanrækir það sín hefðbundnu forgangsmál sem eru falin lítt metnum einstaklingum innan flokksins, mönnum eins og Guðna Ágústssyni, sem ekki hefur til þess verið treyst fyrir öðru en landbúnaðarráðuneytinu.

Skýrasta dæmið um það hvernig Framsóknarflokkurinn hefur umbreyst og er nú orðinn að eignarhaldsfélagi er þó það sem gerðist þegar formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, ákvað að víkja úr sæti. Í stjórnmálaflokki myndi umræðan um arftaka Halldórs þegar í stað hafa beinst að því hver ætti mest pólitískt bakland. Er það Guðni sem talsmaður hefðbundinna dreifbýlissjónarmiða eða vill unga fólkið á mölinni kannski fremur veðja á Siv? Hverjum gekk best í seinustu kosningum, hver hefur mestan styrk í sínu kjördæmi o.s.frv.? Í eignarhaldsfélaginu Exbé gerðist ekkert slíkt.

Þess í stað er leitað til hluthafanna, mannanna sem reka digra sjóði flokksins. Fyrsti valkostur Halldórs var sjálfur kjölfestufjárfestir eignarhaldsfélagsins, Finnur Ingólfsson. Af einhverjum ástæðum fékkst Finnur ekki til þess, en þá var leitað til Jóns Sigurðssonar seðlabankastjóra, manns sem aldrei hefur setið á þingi og á sér þar af leiðandi ekkert pólitískt bakland. Í hópi hluthafa eignarhaldsfélagsins Exbé er hann hins vegar lykilmaður. Eins og hann hefur sjálfur verið óragur við að benda á, þá hefur hann iðulega tekið að sér mikilvæg verkefni í helmingaskiptum eignarhaldsfélagsins við aðrar valdaklíkur, mannað hina og þessa bitlinga sem flokknum hafa stoðið til boða. Val á slíkum manni sem ráðherra hlýtur að vekja furðu þeirra sem líta ennþá á Exbé sem stjórnmálaflokk. Það er hins vegar fullkomlega rökrétt ef við horfumst í augu við það að Exbé er ekki flokkur heldur bandalag um eignir og hagsmuni.

Þannig verður líka framganga oddvita Exbé-listans í Reykjavík skiljanlegri, mannsins sem sat sallarólegur við hlið nýs borgarstjóra nú á dögunum og hlustaði á hann skammast út í fyrrverandi meirihluta sem þó sat einnig í skjóli eignarhaldsfélagsins. Eignarhaldsfélagið Exbé er einfaldlega búið að selja hlutabréf sín í félagshyggjunni og hefur þess í stað fjárfest í mislægum gatnamótum og einkavæðingu almannaþjónustunnar. Með því er hann ekki að svíkja neina stefnu. Eignarhaldsfélög hafa nefnilega ekki aðra stefnu en þá að hámarka gróða fjárfestanna.






×