Hin danska undrun 24. febrúar 2006 00:01 Það er fróðlegt að spjalla við danska kollega úr blaðamannastétt þessa dagana. Hálf ringlaðir fletta þeir í gegnum gömul nafnspjöld frá ráðstefnum og fundum fyrri ára í leit að íslenskum starfsbróður sem getur útskýrt fyrir þeim hvað sé eiginlega að gerast? Hvernig íslenskir athafnamenn geti sagst ætla að koma til Danmerkur með fríblaðshugmynd þar sem dreifa eigi fullburða dagblaði í hvert hús á stórum svæðum sem er jú allt annað en að dreifa litlu Metro-fríblaði á brautarstöðvum og torgum þar sem menn hittast og eiga samleið í stórum hópum á leið sinni úr og í vinnu. Augljóslega hafa dönsku blaðamennirnir áhuga á ólíkum hlutum eftir því hvert sérsvið þeirra er. Viðskiptablaðamenn hafa fyrst og fremst áhuga á viðskiptahugmyndinni og hvernig hún muni standast danskar forsendur varðandi dreifingu, auglýsingar, prentun og annað. Aðrir hafa meiri áhuga á áhrifunum á blaðamennskuna sjálfa. Allir eru þó gríðarlega uppteknir af áhrifum svona blaðs á danskan blaðamarkað almennt. Spurningaflaumur þeirra snýst því ekki hvað minnst um Fréttablaðið sjálft, hvers konar blað er það, hvert er auglýsingahlutfallið, hvernig er blaðamennskan og hvernig eru tengslin milli auglýsinga og blaðamennsku? Hvaða áhrif hefur tilkoma Fréttablaðsins haft á aðra miðla á Íslandi og íslenskan fjölmiðlamarkað? Hver er staða blaðamanna inni á þessu blaði og hvernig er hægt að halda úti þó þetta stóru blaði með ekki fleiri blaðamönnum en gera jafnframt kröfu um fagleg og vönduð vinnubrögð? Flestar spurningar hinna dönsku kollega bera þess merki að þeir vilja skilja hvað gerðist á Íslandi, hvað það er sem verið er að tala um að flytja út. Það er í sjálfu sér athyglisvert því ef umræðan í framhaldinu um áhrif fríblaðs af þessu tagi verður í samræmi við þessar spurningar, þá er líklegt að hún verði talsvert þroskaðri strax frá upphafi, en hún var hér á landi þegar Fréttablaðið var að ná flugi. Hin íslenska umræða um Fréttablaðið festist strax í skotgröfum pólitískra flokkadrátta tiltölulega einangraðra en að sama skapi áhrifaríkra aðila. Þar var Davíð Oddsson og stór hópur sjálfstæðismanna sem var handgenginn honum, sem voru í annarri fylkingunni og svo eigendur Baugs í hinni. Fréttablaðið var vissulega í kastljósi umræðunnar og sætti aðhaldi bæði eðlilegu og óeðlilegu en stóra umræðan var alltaf baunatalning og textarýni pólitísks rétttrúnaðarfólks sem var að leita að dæmum í blaðinu, sem sönnuðu að það væri fjandsamlegt þáverandi forsætisráðherra og þjónkaði undir stærstu eigendur sína. Fyrir vikið stóð umræðan um nýjungina sem í raun fólst í þessu blaði og þessu blaðaformi ætíð í skugganum af mjög einsleitri umræðu um eigendavald og flokkspólitík. Að sjálfsögðu skiptir eignarhald fjölmiðla máli og að sjálfsögðu þarf að ræða það og setja því skynsamleg mörk. En það er ekki þar með sagt að steypa þurfi alla umræðu um áhrif einnar áhrifamestu nýjungar á fjölmiðlamarkaði alfarið í mót pólitískrar pisskeppni valdamanna eins og gerðist í umræðunni um fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma. Eins og Danir virðast skilja mun betur en Íslendingar þá er grunnhugmyndin um fullburða dagblað sem dreift er frítt í hvert hús mjög einstæð tilraun og Ísland hefur hvað þetta varðar í raun verið eins konar tilraunastofa þar sem hægt er að prófa viðskiptahugmyndina. Íslenskt samfélag er vitaskuld hálfgert dúkkulísusamfélag í samanburði við milljóna þjóðirnar allt í kringum okkur, en engu að síður eru sömu eða sambærilegir þjóðfélagskraftar að verki. Munurinn felst bara í stærðinni, við erum smækkuð mynd af stærri samfélögum. Eflaust eiga íslenskir athafnamenn eftir að notfæra sér þessa tilraunastofu möguleika í vaxandi mæli, en nú þegar eru dæmi um þetta í hugbúnaðariðnaðinum og svo auðvitað í tengslum við hugmyndir um vetnissamfélag. Nú styttist í að fjölmiðlaumræðan hefjist að nýju á Íslandi og að þessu sinni má reikna með að hún verði á mun yfirvegaðri nótum en hún var fyrir tveimur árum, enda liggur nú fyrir þverpólitísk fjölmiðlaskýrsla sem hugmyndin er að byggja á. Engu að síður er í mörg horn að líta og þó hin stafræna bylting á ljósvakanum sé einna mest áberandi í umræðunni nú, þá er samhliða orðin mikil breyting á prentmarkaði. Það mun því verða gagnlegt fyrir okkur hér á upphaflegu tilraunastofunni að fylgjast með því hvernig danskt samfélag tekur á móti danskri útgáfu af Fréttablaðsbyltingu. Hefðir og menning varðandi blaðalestur og blaðamennsku eru talsvert þróaðri þar en hér, og þó íslensku útrásina megi skoða sem nýlendustefnu með öfugum formerkjum, er okkur hollt að muna að það var ekki bara maðkað mjöl sem kom frá Danmörku. Við getum enn lært ýmislegt af Dönum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Skoðanir Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun
Það er fróðlegt að spjalla við danska kollega úr blaðamannastétt þessa dagana. Hálf ringlaðir fletta þeir í gegnum gömul nafnspjöld frá ráðstefnum og fundum fyrri ára í leit að íslenskum starfsbróður sem getur útskýrt fyrir þeim hvað sé eiginlega að gerast? Hvernig íslenskir athafnamenn geti sagst ætla að koma til Danmerkur með fríblaðshugmynd þar sem dreifa eigi fullburða dagblaði í hvert hús á stórum svæðum sem er jú allt annað en að dreifa litlu Metro-fríblaði á brautarstöðvum og torgum þar sem menn hittast og eiga samleið í stórum hópum á leið sinni úr og í vinnu. Augljóslega hafa dönsku blaðamennirnir áhuga á ólíkum hlutum eftir því hvert sérsvið þeirra er. Viðskiptablaðamenn hafa fyrst og fremst áhuga á viðskiptahugmyndinni og hvernig hún muni standast danskar forsendur varðandi dreifingu, auglýsingar, prentun og annað. Aðrir hafa meiri áhuga á áhrifunum á blaðamennskuna sjálfa. Allir eru þó gríðarlega uppteknir af áhrifum svona blaðs á danskan blaðamarkað almennt. Spurningaflaumur þeirra snýst því ekki hvað minnst um Fréttablaðið sjálft, hvers konar blað er það, hvert er auglýsingahlutfallið, hvernig er blaðamennskan og hvernig eru tengslin milli auglýsinga og blaðamennsku? Hvaða áhrif hefur tilkoma Fréttablaðsins haft á aðra miðla á Íslandi og íslenskan fjölmiðlamarkað? Hver er staða blaðamanna inni á þessu blaði og hvernig er hægt að halda úti þó þetta stóru blaði með ekki fleiri blaðamönnum en gera jafnframt kröfu um fagleg og vönduð vinnubrögð? Flestar spurningar hinna dönsku kollega bera þess merki að þeir vilja skilja hvað gerðist á Íslandi, hvað það er sem verið er að tala um að flytja út. Það er í sjálfu sér athyglisvert því ef umræðan í framhaldinu um áhrif fríblaðs af þessu tagi verður í samræmi við þessar spurningar, þá er líklegt að hún verði talsvert þroskaðri strax frá upphafi, en hún var hér á landi þegar Fréttablaðið var að ná flugi. Hin íslenska umræða um Fréttablaðið festist strax í skotgröfum pólitískra flokkadrátta tiltölulega einangraðra en að sama skapi áhrifaríkra aðila. Þar var Davíð Oddsson og stór hópur sjálfstæðismanna sem var handgenginn honum, sem voru í annarri fylkingunni og svo eigendur Baugs í hinni. Fréttablaðið var vissulega í kastljósi umræðunnar og sætti aðhaldi bæði eðlilegu og óeðlilegu en stóra umræðan var alltaf baunatalning og textarýni pólitísks rétttrúnaðarfólks sem var að leita að dæmum í blaðinu, sem sönnuðu að það væri fjandsamlegt þáverandi forsætisráðherra og þjónkaði undir stærstu eigendur sína. Fyrir vikið stóð umræðan um nýjungina sem í raun fólst í þessu blaði og þessu blaðaformi ætíð í skugganum af mjög einsleitri umræðu um eigendavald og flokkspólitík. Að sjálfsögðu skiptir eignarhald fjölmiðla máli og að sjálfsögðu þarf að ræða það og setja því skynsamleg mörk. En það er ekki þar með sagt að steypa þurfi alla umræðu um áhrif einnar áhrifamestu nýjungar á fjölmiðlamarkaði alfarið í mót pólitískrar pisskeppni valdamanna eins og gerðist í umræðunni um fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma. Eins og Danir virðast skilja mun betur en Íslendingar þá er grunnhugmyndin um fullburða dagblað sem dreift er frítt í hvert hús mjög einstæð tilraun og Ísland hefur hvað þetta varðar í raun verið eins konar tilraunastofa þar sem hægt er að prófa viðskiptahugmyndina. Íslenskt samfélag er vitaskuld hálfgert dúkkulísusamfélag í samanburði við milljóna þjóðirnar allt í kringum okkur, en engu að síður eru sömu eða sambærilegir þjóðfélagskraftar að verki. Munurinn felst bara í stærðinni, við erum smækkuð mynd af stærri samfélögum. Eflaust eiga íslenskir athafnamenn eftir að notfæra sér þessa tilraunastofu möguleika í vaxandi mæli, en nú þegar eru dæmi um þetta í hugbúnaðariðnaðinum og svo auðvitað í tengslum við hugmyndir um vetnissamfélag. Nú styttist í að fjölmiðlaumræðan hefjist að nýju á Íslandi og að þessu sinni má reikna með að hún verði á mun yfirvegaðri nótum en hún var fyrir tveimur árum, enda liggur nú fyrir þverpólitísk fjölmiðlaskýrsla sem hugmyndin er að byggja á. Engu að síður er í mörg horn að líta og þó hin stafræna bylting á ljósvakanum sé einna mest áberandi í umræðunni nú, þá er samhliða orðin mikil breyting á prentmarkaði. Það mun því verða gagnlegt fyrir okkur hér á upphaflegu tilraunastofunni að fylgjast með því hvernig danskt samfélag tekur á móti danskri útgáfu af Fréttablaðsbyltingu. Hefðir og menning varðandi blaðalestur og blaðamennsku eru talsvert þróaðri þar en hér, og þó íslensku útrásina megi skoða sem nýlendustefnu með öfugum formerkjum, er okkur hollt að muna að það var ekki bara maðkað mjöl sem kom frá Danmörku. Við getum enn lært ýmislegt af Dönum.