Ímyndið ykkur allt þetta fólk 6. febrúar 2006 00:01 Það var ekki gáfulegt hjá Jótlandspóstinum að panta skrípamyndir af Múhameð spámanni í þeim yfirlýsta tilgangi að sporna við því sem forsvarsmenn blaðsins kölluðu "sjálfsritskoðun"; það er að segja að láta reyna á þau mörk sem bjóðandi séu múslímum. Raunar sýndi framtakið einmitt fram á nauðsyn þess sem ætlunin var að mótmæla: blaðið neyddist til að biðja velvirðingar á ertni sinni í garð trúrækinna múslima. "Þeir unnu" sagði ritstjórinn vonsvikinn eftir að hafa verið neyddur til að sjóða saman einhvers konar afsökunarbeiðni. "Sjálfsritskoðun." Þetta er einn af þessum frösum sem vaða uppi í opinberri umræðu umhugsunarlítið ¿ minnir að því leyti á tugguna "pólitísk rétthugsun" sem margir forystusauðir íslenskrar umræðu japla á í sífellu og ýtir undir þá hugsun að rangt sé að reyna að breyta rétt: orðið "rétt" er orðið að hálfgerðu skammaryrði, okkur beri fremur að temja okkur "pólitískar ranghugmyndir". "Fair is foul, and foul is fair" skríktu nornirnar í Makbeð. En beitum við okkur ekki "sjálfsritskoðun" á hverjum degi í samskiptum okkar við fólk? Eða látum við bara vaða hvað sem kemur upp í hugann hverju sinni án þess að velta því fyrir okkur hvernig það orkar á aðra ¿ bara af því við "megum það"? Ætli það ¿ fólk sem kann sér ekki hóf í samskiptum sínum við umhverfið er stundum kennt við siðvillu eða kallað "sósíópatar" og þykir almennt ekki húsum hæft. "Sjálfsritskoðun": er það ekki bara almenn háttvísi? Tillitssemi við náungann? Að haga sér eins og siðuð manneskja? Listin er sá farvegur sem vestræn samfélög hafa fundið fyrir tilraunastarfsemi með þolmörk samfélagsins gagnvart orðræðu og félagshegðun - listamenn brjóta iðulega af sér félagslegar viðjar í því skyni að opna augu sín og annarra fyrir tilteknum lögmálum, siðum eða ósiðum, kúgun og ranghugmyndum. Söngvar Satans eftir Salman Rushdie er dæmi um slíkt listaverk sem gekk fram af múslimum víða um heim með tilheyrandi yfirgengilegum viðbrögðum þar sem mannvonska og heimska héldust í hendur við vandlætingu og þröngsýni og við fengum verulega ógeðfellda mynd af mörgum andlegum leiðtogum þessa hugmyndaheims. En það var grundvallarmunur á verki Rushdies - og nokkru síðar hinnar hugrökku Taslimu Nasreen frá Bangla Desh, sem berst fyrir kvenfrelsi og sekúlarisma - og svo aftur framtaki æringjanna hjá Jótlandspóstinum. Þau Rushdie og Nasreen eru að skapa margradda listaverk og reyna að bera vitni þeim samfélögum sem þau koma úr, hversu sárt sem það kann að vera. Jótlandspósturinn er að geifla sig framan í "arabana", og ýta undir trúarbragðaerjur í stað þess að leitast við að draga úr mikilvægi trúarbragðanna. Réttur Jótlandspóstsins til að panta og birta skrípamyndir af Múhameð spámanni sem terrorista er að vísu ótvíræður. Rétturinn til smekkleysunnar og rangrar breytni er grundvallaratriði í okkar opnu samfélögum því við höfum fyrir satt að réttlætið og sannleikurinn séu ekki algildar og endanlega stærðir heldur ævinlega til umræðu ¿ og mótmæli múslíma víða um heim sýna glögglega ókunnugleika þeirra á eðli vestrænna samfélaga og frelsi manna þar til að athafna sig á opinberum vettvangi án afskipta kjörinna stjórnvalda. En við ættum samt að hugleiða inn í hvaða samhengi þessar skrípamyndir koma: í huga múslima víða um heim tengjast þær myndunum úr Abu Grahib fangelsinu þar sem við augum þeirra blasti hvernig trúbræður þeirra voru leiknir af hinum nýju krossförum, sigurvegurunum í Íraksstríðinu, en eins og við munum eiga Danir aðild að þeim her sem réðist inn í Írak og danskir hermenn urðu uppvísir að pyntingum á föngum. Í dönsku múslimasamfélagi hafa líka komist til nokkurra áhrifa öfga- og æsingamenn, kannski vegna þess hvernig of oft er komið fram við fólk af erlendum uppruna í Danmörku ¿ eins og Íslendingar þekkja raunar mætavel. Framtak Jótlandspóstsins var til þess að niðurlægja frekar fólk sem taldi sig þegar niðurlægt. Það var til að magna elda. Það var til að kynda undir hatur. Það var til að æsa upp tilfinningar af trúarlegum og kynþáttalegum toga. Þurfum við á slíku að halda? "Ímyndið ykkur," söng guðspjallamaðurinn Lennon, "ef allt þetta fólk gæti búið saman í friði." Norðurlöndin og önnur vestræn lönd eru full af alls konar fólki, meira að segja þetta sker hér. Þannig bara er það, fólkið er hér og fer ekkert. Allt þetta fólk þarf að búa saman, hvort sem því er ljúft eða leitt, hversu illa sem okkur er við furðu mikil áhrif gamalla fáfróðra kalla í samfélagi múslima og hversu illa sem þeim er við sekúlaríseringu samfélagsins. Það að vera óáreitinn við annað fólk, það að stefna að friðsamlegri sambúð við aðra, það "að vera seinþreyttur til vandræða" eins og íslenskan orðar það svo snilldarvel, það er ekki friðkaupastefna að hætti Chamberlains, eins og stundum er sagt, heldur raunsæi, vegna þess að mannlegt félag þrífst því aðeins að fólk læri að "ímynda sér allt þetta fólk", læri að lifa saman við þá sem það telur öðruvísi en sig. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Innlent Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Það var ekki gáfulegt hjá Jótlandspóstinum að panta skrípamyndir af Múhameð spámanni í þeim yfirlýsta tilgangi að sporna við því sem forsvarsmenn blaðsins kölluðu "sjálfsritskoðun"; það er að segja að láta reyna á þau mörk sem bjóðandi séu múslímum. Raunar sýndi framtakið einmitt fram á nauðsyn þess sem ætlunin var að mótmæla: blaðið neyddist til að biðja velvirðingar á ertni sinni í garð trúrækinna múslima. "Þeir unnu" sagði ritstjórinn vonsvikinn eftir að hafa verið neyddur til að sjóða saman einhvers konar afsökunarbeiðni. "Sjálfsritskoðun." Þetta er einn af þessum frösum sem vaða uppi í opinberri umræðu umhugsunarlítið ¿ minnir að því leyti á tugguna "pólitísk rétthugsun" sem margir forystusauðir íslenskrar umræðu japla á í sífellu og ýtir undir þá hugsun að rangt sé að reyna að breyta rétt: orðið "rétt" er orðið að hálfgerðu skammaryrði, okkur beri fremur að temja okkur "pólitískar ranghugmyndir". "Fair is foul, and foul is fair" skríktu nornirnar í Makbeð. En beitum við okkur ekki "sjálfsritskoðun" á hverjum degi í samskiptum okkar við fólk? Eða látum við bara vaða hvað sem kemur upp í hugann hverju sinni án þess að velta því fyrir okkur hvernig það orkar á aðra ¿ bara af því við "megum það"? Ætli það ¿ fólk sem kann sér ekki hóf í samskiptum sínum við umhverfið er stundum kennt við siðvillu eða kallað "sósíópatar" og þykir almennt ekki húsum hæft. "Sjálfsritskoðun": er það ekki bara almenn háttvísi? Tillitssemi við náungann? Að haga sér eins og siðuð manneskja? Listin er sá farvegur sem vestræn samfélög hafa fundið fyrir tilraunastarfsemi með þolmörk samfélagsins gagnvart orðræðu og félagshegðun - listamenn brjóta iðulega af sér félagslegar viðjar í því skyni að opna augu sín og annarra fyrir tilteknum lögmálum, siðum eða ósiðum, kúgun og ranghugmyndum. Söngvar Satans eftir Salman Rushdie er dæmi um slíkt listaverk sem gekk fram af múslimum víða um heim með tilheyrandi yfirgengilegum viðbrögðum þar sem mannvonska og heimska héldust í hendur við vandlætingu og þröngsýni og við fengum verulega ógeðfellda mynd af mörgum andlegum leiðtogum þessa hugmyndaheims. En það var grundvallarmunur á verki Rushdies - og nokkru síðar hinnar hugrökku Taslimu Nasreen frá Bangla Desh, sem berst fyrir kvenfrelsi og sekúlarisma - og svo aftur framtaki æringjanna hjá Jótlandspóstinum. Þau Rushdie og Nasreen eru að skapa margradda listaverk og reyna að bera vitni þeim samfélögum sem þau koma úr, hversu sárt sem það kann að vera. Jótlandspósturinn er að geifla sig framan í "arabana", og ýta undir trúarbragðaerjur í stað þess að leitast við að draga úr mikilvægi trúarbragðanna. Réttur Jótlandspóstsins til að panta og birta skrípamyndir af Múhameð spámanni sem terrorista er að vísu ótvíræður. Rétturinn til smekkleysunnar og rangrar breytni er grundvallaratriði í okkar opnu samfélögum því við höfum fyrir satt að réttlætið og sannleikurinn séu ekki algildar og endanlega stærðir heldur ævinlega til umræðu ¿ og mótmæli múslíma víða um heim sýna glögglega ókunnugleika þeirra á eðli vestrænna samfélaga og frelsi manna þar til að athafna sig á opinberum vettvangi án afskipta kjörinna stjórnvalda. En við ættum samt að hugleiða inn í hvaða samhengi þessar skrípamyndir koma: í huga múslima víða um heim tengjast þær myndunum úr Abu Grahib fangelsinu þar sem við augum þeirra blasti hvernig trúbræður þeirra voru leiknir af hinum nýju krossförum, sigurvegurunum í Íraksstríðinu, en eins og við munum eiga Danir aðild að þeim her sem réðist inn í Írak og danskir hermenn urðu uppvísir að pyntingum á föngum. Í dönsku múslimasamfélagi hafa líka komist til nokkurra áhrifa öfga- og æsingamenn, kannski vegna þess hvernig of oft er komið fram við fólk af erlendum uppruna í Danmörku ¿ eins og Íslendingar þekkja raunar mætavel. Framtak Jótlandspóstsins var til þess að niðurlægja frekar fólk sem taldi sig þegar niðurlægt. Það var til að magna elda. Það var til að kynda undir hatur. Það var til að æsa upp tilfinningar af trúarlegum og kynþáttalegum toga. Þurfum við á slíku að halda? "Ímyndið ykkur," söng guðspjallamaðurinn Lennon, "ef allt þetta fólk gæti búið saman í friði." Norðurlöndin og önnur vestræn lönd eru full af alls konar fólki, meira að segja þetta sker hér. Þannig bara er það, fólkið er hér og fer ekkert. Allt þetta fólk þarf að búa saman, hvort sem því er ljúft eða leitt, hversu illa sem okkur er við furðu mikil áhrif gamalla fáfróðra kalla í samfélagi múslima og hversu illa sem þeim er við sekúlaríseringu samfélagsins. Það að vera óáreitinn við annað fólk, það að stefna að friðsamlegri sambúð við aðra, það "að vera seinþreyttur til vandræða" eins og íslenskan orðar það svo snilldarvel, það er ekki friðkaupastefna að hætti Chamberlains, eins og stundum er sagt, heldur raunsæi, vegna þess að mannlegt félag þrífst því aðeins að fólk læri að "ímynda sér allt þetta fólk", læri að lifa saman við þá sem það telur öðruvísi en sig.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun