Nú er að hamra járnið 30. janúar 2006 00:01 Ég held að það hafi verið í Mogganum - kannski á vísindavef HÍ - að ég rakst á spurningu til íslenskufræðinga um það hvort maður eigi að tala um að "gúgla" eitthvað eða "gúgla" einhverju - en þessa sniðugu sögn notar almenningur um það þegar leitarvélin Google er notuð á Netinu til að finna vefsíður um hvaðeina. Fyrir svörum varð forstöðumaður Orðabókar Háskólans, og virtist stödd á einhverju allt öðru grasafjalli íslenskrar tungu en spyrjandinn, því hún ómakaði sig ekki við að svara spurningunni heldur vísaði henni nánast á bug. Í stað þess að segja spyrjanda að betur myndi fara hér á þolfalli og nota fágætt tækifæri til að útskýra fyrir áhugasömu ungmenni muninn á eðli þolfalls og þágufalls þá talaði málfræðingurinn af sínum grasafjallstindi um að hún kannaðist ekki við þessa sögn, sem þar með væri ekki til. Í stað þess að velta vöngum með spyrjanda og nota þar með fágætt tækifæri til að taka þátt í hinni eilífu sköpun íslenskrar tungu þá lét málfræðingurinn á sér skilja að þeirri sköpun sé nú lokið, ekki sé rúm fyrir fleiri orð, búið sé að loka málinu: sögnin "að gúgla" er ekki í seðlasafni Orðabókarinnar og þar með er hún ekki til. Forstöðumaðurinn benti fyrirspyrjanda á það að betur fari á því að tala um "að leita á Google". Þetta er eins og einhver komi í búð og biðji um Kristal að drekka en fái þau svör að sá drykkur sé ekki til og hafi aldrei verið til og skuli ekki vera til: hins vegar eigum við hérna Jolly Cola handa þér... Spurningin sýnir tvennt: annars vegar fágæta hæfni íslenskunnar til að búa til snaggaralega sögn um hvers kyns athæfi í nútímanum, þrátt fyrir allan barlóminn um nafnorðastílinn; og hins vegar óöryggi í meðferð beyginga, óvissu um virkni fallanna sem við sáum síðast í því hvernig sögnin "að spá" tók skyndilega að stjórna þágufalli með þeirri afleiðingu að sögnin "að pæla" nánast hvarf úr málinu á einni nóttu. Og loks sýnir spurningin ískyggilegt sambandsleysi þeirra sem rannsaka málið við málnotkun nútímafólks; tilhneigingu til að líta svo á að Orðabókin sé lokuð bók, íslenskan sé best geymd í glerskápum á minjasafni undir vökulu auga og sólahringsvöktun Securitas. Páll Valsson skar upp herör um daginn til varnar íslenskunni sem lifandi máli; og heill og heiður honum. Undirtektir voru ýmislegar svo sem vænta mátti, en það sem þó skipti mestu var að menntamálaráðherra fagnaði þessum umræðum og virtist jafnvel deila þessum áhyggjum, samkvæmt viðtali við Moggann. Það eru tíðindi og brýnt að halda við þessum áhuga ráðherrans, því margt er undir Þorgerði Katrínu komið í þessu máli. Við megum sennilega vænta þess að í kjölfarið verði íslenskudeild Háskóla Íslands stórefld en um nokkurt árabil hefur deildin búið við slíkt fjársvelti að eðlileg endurnýjun hefur ekki orðið þar á prófessorahópnum þar; við verðum að vona að fjárveitingarnar til þeirra stofnana sem við tunguna fást einskorðist ekki við reisa flottar húsabyggingar, eins og hefur því miður svo oft hent landsmenn þegar þeir hafa viljað sýna myndarskap að það liggur við að maður sé að verða andvígur húsum. Áhyggjur ráðherrans af framtíð íslenskrar tungu verða vonandi til þess að veitt verði stórauknu fé til þess að búa til íslenskt leikið sjónvarpsefni. Svo heppilega vildi til að um svipaðar mundir og þessar umræður urðu um framtíð íslenskunnar þá sýndi Anna Th. Rögnvaldsdóttir fram á það með myndaflokknum um alla liti hafsins að hægt er að búa til sannfærandi leikið efni í íslensku sjónvarpi, þegar vel og fagmannlega er að öllu staðið: við þurfum bara að venjast því svolítið að heyra fólk tala íslensku í sjónvarpi um eitthvað annað en júróvisjónkeppnina og leikararnir þurfa bara að reyna að venja sig af því að tala svona mikið með þindinni eða hvað það nú er sem veldur þessari ábúðarmiklu séríslensku leikaraframsögn. Vilji er allt sem þarf. Smám saman hætta leikararnir að tala svona hátt og smám saman vex upp stétt manna sem lærir að skrifa sögur úr lífi okkar fyrir þennan miðil og smám saman hverfa bábiljur um að íslenska henti ekki í sjónvarpi: ef hún hentar í öllum þessum auglýsingum þá hentar hún í sögum sem ekki eru bara búnar til í því skyni að selja okkur eitthvað drasl. Vilji er allt sem þarf: og milljarðarnir frá Þorgerði Katrínu. Gleymi hún sér þá vænti ég þess að þingmenn minni hana á skyldur stjórnarinnar við íslenska tungu og menningu. Nú er að hamra járnið frá Páli og Önnu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Skoðanir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Ég held að það hafi verið í Mogganum - kannski á vísindavef HÍ - að ég rakst á spurningu til íslenskufræðinga um það hvort maður eigi að tala um að "gúgla" eitthvað eða "gúgla" einhverju - en þessa sniðugu sögn notar almenningur um það þegar leitarvélin Google er notuð á Netinu til að finna vefsíður um hvaðeina. Fyrir svörum varð forstöðumaður Orðabókar Háskólans, og virtist stödd á einhverju allt öðru grasafjalli íslenskrar tungu en spyrjandinn, því hún ómakaði sig ekki við að svara spurningunni heldur vísaði henni nánast á bug. Í stað þess að segja spyrjanda að betur myndi fara hér á þolfalli og nota fágætt tækifæri til að útskýra fyrir áhugasömu ungmenni muninn á eðli þolfalls og þágufalls þá talaði málfræðingurinn af sínum grasafjallstindi um að hún kannaðist ekki við þessa sögn, sem þar með væri ekki til. Í stað þess að velta vöngum með spyrjanda og nota þar með fágætt tækifæri til að taka þátt í hinni eilífu sköpun íslenskrar tungu þá lét málfræðingurinn á sér skilja að þeirri sköpun sé nú lokið, ekki sé rúm fyrir fleiri orð, búið sé að loka málinu: sögnin "að gúgla" er ekki í seðlasafni Orðabókarinnar og þar með er hún ekki til. Forstöðumaðurinn benti fyrirspyrjanda á það að betur fari á því að tala um "að leita á Google". Þetta er eins og einhver komi í búð og biðji um Kristal að drekka en fái þau svör að sá drykkur sé ekki til og hafi aldrei verið til og skuli ekki vera til: hins vegar eigum við hérna Jolly Cola handa þér... Spurningin sýnir tvennt: annars vegar fágæta hæfni íslenskunnar til að búa til snaggaralega sögn um hvers kyns athæfi í nútímanum, þrátt fyrir allan barlóminn um nafnorðastílinn; og hins vegar óöryggi í meðferð beyginga, óvissu um virkni fallanna sem við sáum síðast í því hvernig sögnin "að spá" tók skyndilega að stjórna þágufalli með þeirri afleiðingu að sögnin "að pæla" nánast hvarf úr málinu á einni nóttu. Og loks sýnir spurningin ískyggilegt sambandsleysi þeirra sem rannsaka málið við málnotkun nútímafólks; tilhneigingu til að líta svo á að Orðabókin sé lokuð bók, íslenskan sé best geymd í glerskápum á minjasafni undir vökulu auga og sólahringsvöktun Securitas. Páll Valsson skar upp herör um daginn til varnar íslenskunni sem lifandi máli; og heill og heiður honum. Undirtektir voru ýmislegar svo sem vænta mátti, en það sem þó skipti mestu var að menntamálaráðherra fagnaði þessum umræðum og virtist jafnvel deila þessum áhyggjum, samkvæmt viðtali við Moggann. Það eru tíðindi og brýnt að halda við þessum áhuga ráðherrans, því margt er undir Þorgerði Katrínu komið í þessu máli. Við megum sennilega vænta þess að í kjölfarið verði íslenskudeild Háskóla Íslands stórefld en um nokkurt árabil hefur deildin búið við slíkt fjársvelti að eðlileg endurnýjun hefur ekki orðið þar á prófessorahópnum þar; við verðum að vona að fjárveitingarnar til þeirra stofnana sem við tunguna fást einskorðist ekki við reisa flottar húsabyggingar, eins og hefur því miður svo oft hent landsmenn þegar þeir hafa viljað sýna myndarskap að það liggur við að maður sé að verða andvígur húsum. Áhyggjur ráðherrans af framtíð íslenskrar tungu verða vonandi til þess að veitt verði stórauknu fé til þess að búa til íslenskt leikið sjónvarpsefni. Svo heppilega vildi til að um svipaðar mundir og þessar umræður urðu um framtíð íslenskunnar þá sýndi Anna Th. Rögnvaldsdóttir fram á það með myndaflokknum um alla liti hafsins að hægt er að búa til sannfærandi leikið efni í íslensku sjónvarpi, þegar vel og fagmannlega er að öllu staðið: við þurfum bara að venjast því svolítið að heyra fólk tala íslensku í sjónvarpi um eitthvað annað en júróvisjónkeppnina og leikararnir þurfa bara að reyna að venja sig af því að tala svona mikið með þindinni eða hvað það nú er sem veldur þessari ábúðarmiklu séríslensku leikaraframsögn. Vilji er allt sem þarf. Smám saman hætta leikararnir að tala svona hátt og smám saman vex upp stétt manna sem lærir að skrifa sögur úr lífi okkar fyrir þennan miðil og smám saman hverfa bábiljur um að íslenska henti ekki í sjónvarpi: ef hún hentar í öllum þessum auglýsingum þá hentar hún í sögum sem ekki eru bara búnar til í því skyni að selja okkur eitthvað drasl. Vilji er allt sem þarf: og milljarðarnir frá Þorgerði Katrínu. Gleymi hún sér þá vænti ég þess að þingmenn minni hana á skyldur stjórnarinnar við íslenska tungu og menningu. Nú er að hamra járnið frá Páli og Önnu.