Um þrjú þúsund manns hafa tekið þátt í veðbanka um Íslensku tónlistarverðlaunin á Vísi en verðlaunin sjálf verða afhent á morgun.
Dómnefndir hafa valið verk og flytjendur í fjórum flokkum; popp- og rokktónlist, sígild- og samtímatónlist, jazztónlist og önnur verðlaun. Á vefsíðunni Vísi.is er hægt að spá fyrir um úrslit í öllum flokkum og sá eða sú sem kemst næst því að spá fyrir um rétta verðlaunahafa hlýtur að launum ferð fyrir tvo á tónleika U2 í Parken í Kaupmannahöfn ásamt gistingu og gjaldeyri.
Á Vísi er einnig hægt að velja vinsælasta flytjandann en kosningin stendur til klukkan 18 í kvöld.
Sjálf afhending Íslensku tónlistarverðlaunanna fer fram í Þjóðleikhúsinu á morgun, miðvikudag, og verður sýnd í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Útsending hefst klukkan 21.00.
