Rödd aftan úr fásinninu 21. nóvember 2005 19:31 Er það til marks um fjölbreytni að hafa hundrað sjónvarpsstöðvar, flestar með nokkurn veginn því sama? Raunveruleikaþáttum, sápum og fréttum. Ég er ekki viss um það. Hafliði Helgason skrifar leiðara í tilefni af opnun NFS í Fréttablaðið á sunnudag og ber þá fjölbreyttu tíma sem við lifum á saman við fásinnið sem ríkti þegar hann var ungur. Það vill svo til að þá var ég líka ungur – ég er bara nokkrum árum eldri en Hafliði. En var lífið svona fábreytt, þurfum við kannski að vorkenna sjálfum okkur að hafa verið uppi fyrir svona þrjátíu árum? Hefur Hafliði kannski aldrei heyrt talað um zapping-leiða – það ástand þegar fólk er með fjarstýringuna fasta i hendinni, ranglar á milli ótal sjónvarpsstöðva, fúlt og vansælt, og finnur ekkert til að horfa á? Kvöld eftir kvöld. Getur samt ekki rifið sig upp. --- --- --- Jú, á tímanum sem Hafliði nefnir var bara ein sjónvarpsstöð, ekkert sjónvarp á fimmtudögum, sjónvarpsfrí í júlí. En á sama tíma komu út sex dagblöð. Fullt af menningartímaritum. Það starfaði miklu meira af alls kyns félögum en nú – átthagafélög, áhugaleikfélög, kórar, Lions og Kiwanis. Þátttaka í stjórnmálastarfi var meiri; stjórnmálaflokkarnir höfðu innan sinna vébanda ótal félög sem héldu vel sótta fundi á kvöldin. Hið sama má segja um verkalýðshreyfinguna – virkni félaga var meiri en nú. Í kvenfrelsisbaráttunni var mikill uppgangur sem náði hámarki í kvennafrídeginum 1975. Á vinstri vængnum starfaði margháttaður félagsskapur sem einkum barðist gegn heimsvaldastefnunni, en hægra megin var í gerjun uppreisn frjálshyggjunnar – það kom út samnefnd bók sem vakti mikla athygli. Þetta var alvöru hugmyndabarátta. Mötunin var langt í frá einhliða. Vilmundur Gylfason fór hamförum og vildi bylta íslensku þjóðfélagi. Helgarpósturinn var stofnaður að nokkru leyti eftir forskrift hans – einhver óháðasti fjölmiðill sem hefur verið til á Íslandi. --- --- --- Í tónlist var þetta gróskumikill tími. Bítlatíminn var rétt liðinn, pönkbylgjan rétt handan við hornið – það er ennnþá verið að vinna úr þeirri tónlist sem menn uppgötvuðu þá. Merkilegt nokk var fjölbreyttara úrval kvikmynda í bíó, enda tíðkaðist þá enn að fullorðið fólk færi í kvikmyndahús. Í miðbænum starfaði öflugur kvikmyndaklúbbur sem sýndi perlur kvikmyndalistarinnar. Menningin gat hreyft við fólki – það urðu harðar deilur um sýningu á Lé konungi, barnasögu sem var lesin í útvarpinu og hvort hægt væri að skrifa bókmenntir um kjör skúringakvenna. Það var meira lesið af bókum; listaskáldin vondu fylltu samkomuhús út um allt land. Megas gaf út bestu plötur sínar. Á kynlífssviðinu var mikið fjör – hugmyndir um frjálsar ástir frá því áratugnum áður voru enn í fullu gildi. Aids var óþekkt. Hópur ungs fólks sem ég þekkti stofnaði kommúnu þar sem allir áttu að vera með öllum. Gekk reyndar ekki vel. Það kallaðist að prófa ný sambýlisform. --- --- -- Ókei. Það var ekki jafnmikið úrval af neysluvarningi og nú, bílarnir voru ekki jafn fínir, það var ekki farið jafn oft til útlanda – Maður er nefndur var í sjónvarpinu. Fólk var enn hamingjusamlega grunlaust um að til yrði fyrirbæri sem nefnist "markaðssetning". Hafliði segir í leiðara sínum að þá hafi verið allt annar heimur en nú: "Sá heimur sem við sem nálgumst eða erum á miðjum aldri þekktum er horfinn. Sá heimur var einfaldur og auðskilinn og einkenndist af fábreytni og miklum áhrifum stjórnmálamanna á samfélagið." Svo heldur hann áfram og segir að nú endurspegli "fjölmiðlar þá atburði og umræðu sem hæst ber í samfélagi hverju sinni" Enn megi þó greina "áhuga fyrir því að stýra umræðu samfélagsins og reyna að skapa jarðveg fyrir skoðanir sínar fremur en að greina frá þeirri umræðu sem brennur á þjóðinni". Einmitt. --- --- --- En bíðum nú við. Eru fjölmiðlarnir ekki jafnt sem áður að halda að okkur ákveðinni heimsmynd? Í skrifum Fréttablaðsins birtast til dæmis ákveðin grundvallarviðhorf sem má kalla leiðarstef blaðsins. Þessar hugmyndir eru augljóslega runnar frá fyrrverandi ritstjóra blaðsins, Gunnari Smára Egilssyni, og ganga út á að hér hafi verið algjört fásinni og eiginlega vonlaust að lifa áður en nýju kapítalistarnir komu og leystu þjóðina úr álögum. Gunnar Smári er búinn að skrifa þessa grein aftur og aftur – og nú hafa aðrir tekið upp þráðinn. Önnur meginkenningin sem endurómar í skrifum margra penna í blaðinu er að stjórnmálamenn séu fremur til óþurftar og eigi helst ekki að skipta sér of mikið af hlutunum. Eða eins og segir í grein Hafliða – stjórnmálamenn eiga ekki að setja reglur um fjölmiðla og viðskiptalíf. Þannig er Fréttablaðið öðru fremur málgagn ákveðins hóps peningamanna – sem nota bene þarf aldrei að lesa neitt misjafnt um sig í blaðinu. Á sama tíma er talað um ribbaldakapítalisma í öðrum fjölmiðli – það er leiðarstefið á þeim bæ. Eins og staðan er á önnur stóra viðskiptablokkin Fréttablaðið og helminginn af fjölmiðlunum, hin er á góðri leið með að eignast Moggann. Finnst mönnum það ekkert skuggalegt? --- --- --- Heimurinn var einfaldur og auðskilinn segir Hafliði – nú er hann flókinn. Má vera. Ætli raunin sé samt ekki sú að menn eiga alltaf í mestu brösum með að skilja samtíð sína? Hugsanlega eru fjölmiðlarnir líka partur af vandamálinu fremur en lausnin – ef maður lætur berast með látlausum flaumnum úr fjölmiðlum kann að vera að manni virðist heimurinn meira á hverfanda hveli en hann er. Því ef einhverjir þjást af einbeitingarskorti og athyglisbresti, þá eru það fjölmiðlar nútímans. Meiri fréttir eru heldur ekki alltaf réttari fréttir – kannski þvert á móti. Við getum nefnt nokkur dæmi: Ef marka mátti fjölmiðla fyrst eftir árásina á World Trade Center í New York var mannfallið varla minna en 50 þúsund. Það reyndist vera innan við 3000. Svipað var upp á teningnum eftir að fellibylurinn Katrín gekk yfir suðurríki Bandaríkjanna; dögum saman var sagt að allt að tugir þúsunda kynnu að hafa farist – talan er nær 1500. Menn muna líka þegar Fox News lýsti því yfir að George W. Bush væri orðinn forseti kosningakvöldið í nóvember 1999 – og allir aðrir fjölmiðlar fylgdu í kjölfarið eins og hjarðdýr af því þeir vildu ekki missa af fréttinni. Og loks er að nefna að þrátt fyrir látlausan fréttaflutning af tveimur Persaflóastríðum höfum við verið litlu nær um þjáningar íbúa Íraks – í því tilfelli er fremur að allar fréttirnar hafi villt um fyrir okkur en gert heiminn skiljanlegri. --- --- --- Ég nefni svo í lokin Rokland Hallgríms Helgasonar. Hann er líka nokkurn veginn jafnaldri okkar Hafliða. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni reiðilestur hans yfir neyslusamfélaginu, fjölmiðlum og alls konar skrumi, heldur einungis að benda á eina eftirminnilegustu og jafnframt dapurlegustu persónuna í bókinni – mömmuna sem situr öllum stundum fyrir framan sjónvarpið sem sýgur smátt og smátt lífsandann úr henni uns hún hverfur bara. Það er hrollvekjandi lýsing. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Er það til marks um fjölbreytni að hafa hundrað sjónvarpsstöðvar, flestar með nokkurn veginn því sama? Raunveruleikaþáttum, sápum og fréttum. Ég er ekki viss um það. Hafliði Helgason skrifar leiðara í tilefni af opnun NFS í Fréttablaðið á sunnudag og ber þá fjölbreyttu tíma sem við lifum á saman við fásinnið sem ríkti þegar hann var ungur. Það vill svo til að þá var ég líka ungur – ég er bara nokkrum árum eldri en Hafliði. En var lífið svona fábreytt, þurfum við kannski að vorkenna sjálfum okkur að hafa verið uppi fyrir svona þrjátíu árum? Hefur Hafliði kannski aldrei heyrt talað um zapping-leiða – það ástand þegar fólk er með fjarstýringuna fasta i hendinni, ranglar á milli ótal sjónvarpsstöðva, fúlt og vansælt, og finnur ekkert til að horfa á? Kvöld eftir kvöld. Getur samt ekki rifið sig upp. --- --- --- Jú, á tímanum sem Hafliði nefnir var bara ein sjónvarpsstöð, ekkert sjónvarp á fimmtudögum, sjónvarpsfrí í júlí. En á sama tíma komu út sex dagblöð. Fullt af menningartímaritum. Það starfaði miklu meira af alls kyns félögum en nú – átthagafélög, áhugaleikfélög, kórar, Lions og Kiwanis. Þátttaka í stjórnmálastarfi var meiri; stjórnmálaflokkarnir höfðu innan sinna vébanda ótal félög sem héldu vel sótta fundi á kvöldin. Hið sama má segja um verkalýðshreyfinguna – virkni félaga var meiri en nú. Í kvenfrelsisbaráttunni var mikill uppgangur sem náði hámarki í kvennafrídeginum 1975. Á vinstri vængnum starfaði margháttaður félagsskapur sem einkum barðist gegn heimsvaldastefnunni, en hægra megin var í gerjun uppreisn frjálshyggjunnar – það kom út samnefnd bók sem vakti mikla athygli. Þetta var alvöru hugmyndabarátta. Mötunin var langt í frá einhliða. Vilmundur Gylfason fór hamförum og vildi bylta íslensku þjóðfélagi. Helgarpósturinn var stofnaður að nokkru leyti eftir forskrift hans – einhver óháðasti fjölmiðill sem hefur verið til á Íslandi. --- --- --- Í tónlist var þetta gróskumikill tími. Bítlatíminn var rétt liðinn, pönkbylgjan rétt handan við hornið – það er ennnþá verið að vinna úr þeirri tónlist sem menn uppgötvuðu þá. Merkilegt nokk var fjölbreyttara úrval kvikmynda í bíó, enda tíðkaðist þá enn að fullorðið fólk færi í kvikmyndahús. Í miðbænum starfaði öflugur kvikmyndaklúbbur sem sýndi perlur kvikmyndalistarinnar. Menningin gat hreyft við fólki – það urðu harðar deilur um sýningu á Lé konungi, barnasögu sem var lesin í útvarpinu og hvort hægt væri að skrifa bókmenntir um kjör skúringakvenna. Það var meira lesið af bókum; listaskáldin vondu fylltu samkomuhús út um allt land. Megas gaf út bestu plötur sínar. Á kynlífssviðinu var mikið fjör – hugmyndir um frjálsar ástir frá því áratugnum áður voru enn í fullu gildi. Aids var óþekkt. Hópur ungs fólks sem ég þekkti stofnaði kommúnu þar sem allir áttu að vera með öllum. Gekk reyndar ekki vel. Það kallaðist að prófa ný sambýlisform. --- --- -- Ókei. Það var ekki jafnmikið úrval af neysluvarningi og nú, bílarnir voru ekki jafn fínir, það var ekki farið jafn oft til útlanda – Maður er nefndur var í sjónvarpinu. Fólk var enn hamingjusamlega grunlaust um að til yrði fyrirbæri sem nefnist "markaðssetning". Hafliði segir í leiðara sínum að þá hafi verið allt annar heimur en nú: "Sá heimur sem við sem nálgumst eða erum á miðjum aldri þekktum er horfinn. Sá heimur var einfaldur og auðskilinn og einkenndist af fábreytni og miklum áhrifum stjórnmálamanna á samfélagið." Svo heldur hann áfram og segir að nú endurspegli "fjölmiðlar þá atburði og umræðu sem hæst ber í samfélagi hverju sinni" Enn megi þó greina "áhuga fyrir því að stýra umræðu samfélagsins og reyna að skapa jarðveg fyrir skoðanir sínar fremur en að greina frá þeirri umræðu sem brennur á þjóðinni". Einmitt. --- --- --- En bíðum nú við. Eru fjölmiðlarnir ekki jafnt sem áður að halda að okkur ákveðinni heimsmynd? Í skrifum Fréttablaðsins birtast til dæmis ákveðin grundvallarviðhorf sem má kalla leiðarstef blaðsins. Þessar hugmyndir eru augljóslega runnar frá fyrrverandi ritstjóra blaðsins, Gunnari Smára Egilssyni, og ganga út á að hér hafi verið algjört fásinni og eiginlega vonlaust að lifa áður en nýju kapítalistarnir komu og leystu þjóðina úr álögum. Gunnar Smári er búinn að skrifa þessa grein aftur og aftur – og nú hafa aðrir tekið upp þráðinn. Önnur meginkenningin sem endurómar í skrifum margra penna í blaðinu er að stjórnmálamenn séu fremur til óþurftar og eigi helst ekki að skipta sér of mikið af hlutunum. Eða eins og segir í grein Hafliða – stjórnmálamenn eiga ekki að setja reglur um fjölmiðla og viðskiptalíf. Þannig er Fréttablaðið öðru fremur málgagn ákveðins hóps peningamanna – sem nota bene þarf aldrei að lesa neitt misjafnt um sig í blaðinu. Á sama tíma er talað um ribbaldakapítalisma í öðrum fjölmiðli – það er leiðarstefið á þeim bæ. Eins og staðan er á önnur stóra viðskiptablokkin Fréttablaðið og helminginn af fjölmiðlunum, hin er á góðri leið með að eignast Moggann. Finnst mönnum það ekkert skuggalegt? --- --- --- Heimurinn var einfaldur og auðskilinn segir Hafliði – nú er hann flókinn. Má vera. Ætli raunin sé samt ekki sú að menn eiga alltaf í mestu brösum með að skilja samtíð sína? Hugsanlega eru fjölmiðlarnir líka partur af vandamálinu fremur en lausnin – ef maður lætur berast með látlausum flaumnum úr fjölmiðlum kann að vera að manni virðist heimurinn meira á hverfanda hveli en hann er. Því ef einhverjir þjást af einbeitingarskorti og athyglisbresti, þá eru það fjölmiðlar nútímans. Meiri fréttir eru heldur ekki alltaf réttari fréttir – kannski þvert á móti. Við getum nefnt nokkur dæmi: Ef marka mátti fjölmiðla fyrst eftir árásina á World Trade Center í New York var mannfallið varla minna en 50 þúsund. Það reyndist vera innan við 3000. Svipað var upp á teningnum eftir að fellibylurinn Katrín gekk yfir suðurríki Bandaríkjanna; dögum saman var sagt að allt að tugir þúsunda kynnu að hafa farist – talan er nær 1500. Menn muna líka þegar Fox News lýsti því yfir að George W. Bush væri orðinn forseti kosningakvöldið í nóvember 1999 – og allir aðrir fjölmiðlar fylgdu í kjölfarið eins og hjarðdýr af því þeir vildu ekki missa af fréttinni. Og loks er að nefna að þrátt fyrir látlausan fréttaflutning af tveimur Persaflóastríðum höfum við verið litlu nær um þjáningar íbúa Íraks – í því tilfelli er fremur að allar fréttirnar hafi villt um fyrir okkur en gert heiminn skiljanlegri. --- --- --- Ég nefni svo í lokin Rokland Hallgríms Helgasonar. Hann er líka nokkurn veginn jafnaldri okkar Hafliða. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni reiðilestur hans yfir neyslusamfélaginu, fjölmiðlum og alls konar skrumi, heldur einungis að benda á eina eftirminnilegustu og jafnframt dapurlegustu persónuna í bókinni – mömmuna sem situr öllum stundum fyrir framan sjónvarpið sem sýgur smátt og smátt lífsandann úr henni uns hún hverfur bara. Það er hrollvekjandi lýsing.