Innlent

Ráðherra svaraði ekki kærunum

MYND/Vísir

Íbúar í Grafarvogi eru afar ósáttir við úrskurð umhverfisráðherra varðandi mat á umhverfisáhrifum fyrsta áfanga Sundabrautar og landfyllingu við Gufunes. Fjórar kærur voru lagðar fram í málinu og segir fulltrúi íbúa að ráðherra hafi engan veginn svarað kærunum.

Skipulagsstofnun fékk til umfjöllunar á sínum tíma mat á umhverfisáhrifum fyrsta áfanga Sundabrautar og landfyllingar við Gufunes. Í úrskurði sínum, sem var kunngerður fyrir tæpu ári, féllst stofnunin á framkvæmdina. Umhverfisráðherra bárust í framhaldinu fjórar kærur vegna úrskurðarins og tilkynnti hann niðurstöðu sína í gær. Þar segir að áhrif Sundabrautar á umhverfið séu ekki umtalsverð og var hinn kærði úrskurður því staðfestur, þó að viðbættum tveimur skilyrðum. Annað þeirra snertir íbúa Hamrahverfis í Grafarvogi - það er: framkvæmdaraðilar skuli hafi samráð við fulltrúa íbúa hverfisins um hönnun og útfærslu hljóðvarna, og leitast skal við að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.

Jón V. Gíslason, forsvarsmaður þeirra íbúa Grafarvogs sem kærðu mat Skipulagsstofnunar, segist afar ósáttur við úrskurð umhverfisráðherra. Það skilyrði sem ráðherrann hafi bætt við sé nú þegar til staðar í stjórnsýslulögum og hann segir úrskurðinn í heild ekki útskýra á nokkurn hátt hvers vegna heimildin fyrir framkvæmdunum hafi verið veitt. Kærunum, sem séu í u.þ.b. 30 liðum, sé hreinlega ekki svarað efnislega. Jón segir ekki ákveðið á þessari stundu hvað verði gert í framhaldinu en það sé alveg ljóst að eitthvað verði að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×