Innlent

Enn engin svör vegna meints fangaflugs

MYND/Stöð 2

Íslenskum stjórnvöldum hafa enn engin svör borist frá bandarískum stjörnvöldum vegna fangaflugsins svokallaða. Halldór Ásgrímsson segir aldrei spurt um farþega í vélum sem hér fari um í borgaralegu flugi. Aðalatriðið nú sé hvort ólögleg fangelsi finnist í Evrópu.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir enn ekkert svar hafa borist frá bandarískum stjörnvöldum varðandi draugaflugið svokallaða og millilendingar slíkra flugvéla hér á landi á leið með fanga til meintra leynilegra fangelsa í Evrópu. Hann á þó von á því að eitthvert svar muni berast.

Halldór segir stóru spurninguna nú hins vegar snúast um rannsókn Evrópusambandsins á því hvort fangelsi sem starfi utan alþjóðasáttmála og laga séu á starfssvæði þess. Haft var eftir Halldóri í fréttum Ríkissjónvarps síðastliðin föstudag að fréttir af borgaralegu flugi með slíka fanga væru enn sem komið er sögusagnir. Hann vísaði því sömuleiðis á bug að yfirflugsheimildir í tengslum við innrásina í Írak veittu Bandaríkjamönnum þessa heimild.

Að loknum fundi í ráðherrabústaðnum mátti þó greina á Halldóri að hann efaðist ekki lengur um að umræddar vélar hefðu átt leið um Ísland . Hann sagði yfirflugheimild veitta í þessu sambandi vegna þess að um einkaflugvélar væri að ræða og það væri aldrei hægt að vita nákvæmlega hverjir væru í vélunum. Þarna væri ekki um að ræða vélar sem sæktu um leyfi til yfirflugs á grundvelli þess að þær væru á vegum stjórnvalda.

Aðspurður hvort til greina kæmi að endurskoða yfirflugsleyfi fyrir einkaflugvélar af þessu tagi eða fara betur ofan í saumana á þessum málum sagðist Halldór telja að málið væri alþjóðlegt og því þyrfti að ræða það í alþjóðlegu samhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×