Innlent

Auknar líkur á lokun herstöðvar í Keflavík

 

Líkurnar á að Keflavíkurstöðinni verði lokað stórjukust í dag þegar bandaríska utanríkisráðuneytið baðst undan því að koma að varnarviðræðum við Íslendinga. Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna mun framvegis fara með forræði í málinu, sem þykir benda til þess að varnarmálaráðuneytið fái sínu framgengt.

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur hingað til spornað gegn því að varnarmálaráðuneytið fái sínu framgengt og Keflavíkurstöðinni verði lokað. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra, hefur fylgst með málinu en ekki lengur, miðað við tíðindi dagsins. Í kjölfar snubbóttra funda íslenskra og bandarískra embættismanna í síðustu viku er þolinmæðin í bandaríska utanríkisráðuneytinu á þrotum, og hefur það beðist undan því að koma að málinu.

Íslenska sendinefndin mun ítrekað hafa vísað til þess að Davíð Oddsson og Bush forseti hafi rætt um málin í síma og gefið í skyn að málið væri því ekki á valdi fulltrúa utanríkisráðuneytisins í Washington. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að þjóðaröryggisráðgjafi Bush forseta, Steve Hadley, hafi samþykkt að taka málið að sér og fylgja því eftir. Hadley er eftirmaður Rice í því embætti og telst til harðlínumanna. Hann er meðal annars náinn Dick Cheney, varaforseta, og Rumsfeld varnarmálaráðherra. Fréttastofan leitaði viðbragða utanríkisráðherra í dag en hann neitaði Stöð 2 um viðtal.

Heimildarmenn fréttastofunnar innan bandaríska stjórnkerfisins segja þetta þrautalendingu sem beri vott um hversu þreyttir Bandaríkjamenn séu á viðræðunum við Íslendinga. Þó að málið sé á borði æðstu manna í Hvíta húsinu þýði það ekkert gott fyrir málstað íslenskra stjórnvalda, heldur frekar að utanríkisráðuneytið láti af andstöðu sinni við haukana í varnarmálaráðuneytinu. Því sé líklegra en fyrr að Keflavíkurstöðinni verði lokað og ákvarðanir um framhaldið teknar einhliða í Washington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×