Innlent

Niðurskurður og skipulagsbreytingar í norrænu samstarfi

Niðurskurður og skipulagsbreytingar í norrænu samstarfi eru meðal umræðuefna á fundi Norðurlandaráðs næstu daga. Um 900 manns eru komin til landsins í tengslum við fundahöldin.

Forsætisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja komu til fundar í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Þeir vilja draga úr yfirbyggingu í norrænu samstarfi og lækka kostnað. Fyrir Norðurlandaráði liggur að taka ákvarðanir um tillögur að viðamiklum skipulagsbreytingum. Leggja á niður fjölda norrænna stofnana á menningarsviðinu og dreifa verkefnum þeirra. Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, vonast til að ekki verði um niðurskurð að ræða á norrænu samstarfi. Hún segist hafa skilið það svo á meðlimum ráðsins að þeir séu fylgjandi því að skoða breytingar, svo fremi að fjármagnið haldist í málaflokkunum, svo það nýtist betur.

Mikil óánægja er með skipulagsbreytingarnar meðal þeirra stofnana sem um ræðir. Margir óttast að kvarnast muni úr norrænu samstarfi á ýmsum sviðum þegar samstarfið verður ekki lengur til staðar í norrænum stofnunum. Um 750 manns - stjórnmálamenn, embættismenn og aðrir - taka þátt í fundum Norðurlandaráðs í Reykjavík næstu daga. Til viðbótar eru blaðamenn og fulltrúar hinna ýmsu stofnana, meðal annars frá Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjum, Rússlandi og Kanada. Engin spurning er um hvað vekur mestan áhuga í Reykjavík í dag. Rannveig segir að margir hinna erlendu gesta hafi ætlað að fara að upplifa fjöldasamkomuna í miðbænum í tilefni kvennafrídagsins, og blaðamennirnir hafi sent fréttir af atburðinum á fréttastofur víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×