Innlent

VG ekki fyrsti kvenfrelsisflokkurinn

Þó VG hafi lýst sig kvenfrelsisflokk um helgina er hann ekki fyrstur til að taka hugmyndafræðina upp, Samfylkingin gerði það strax árið 2000 segir Ingibjörg Sólrún.
Þó VG hafi lýst sig kvenfrelsisflokk um helgina er hann ekki fyrstur til að taka hugmyndafræðina upp, Samfylkingin gerði það strax árið 2000 segir Ingibjörg Sólrún. MYND/Valli

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs misskilur kvenfrelsið ef hann telur flokk sinn geta slegið eignarrétti á hugtakið segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð tók kvenfrelsi inn í stefnuyfirlýsingu sína á flokksþingi sína um helgina. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, sagði þetta eitt af því sem stæði upp úr á flokksþinginu og í viðtali við fréttastofu síðasta föstudag sagði hann að með þessu yrði Vinstrihreyfingin - grænt framboð fyrst þeirra stjórnmálaflokka sem nú starfa til að taka kvenfrelsi, eða femínisma, inn í stefnuskrá sína með þessum hætti.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, segir hins vegar rangt að Vinstri-grænir taki kvenfrelsi fyrstir flokka upp í stefnuskrá sína. Kvenfrelsi hafi til að mynda verið í stefnuskrá Samfylkingar frá stofnun hennar árið 2000. Hún fagnar því hins vegar að fleiri flokkar taki kvenfrelsi upp í stefnuskrá sinni og segir að því fleiri flokkar sem taki þetta upp því betra.

Ingibjörg Sólrún segir það misskilning hjá Steingrími ef hann telji að Vinstrihreyfingin - grænt framboð geti kynnt sig sem helsta kvenfrelsisflokk landsins eftir þetta flokksþing. Þar misskilji hann eðli kvenfrelsisins, það sé ekki vörumerki sem hægt sé að eigna sér heldur hugmyndafræði sem verður að vinna eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×