Innlent

Vill mynda velferðarstjórn

Formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs ítrekaði tilboð sitt til Samfylkingarinnar um myndun velferðarstjórnar í upphafi landsfundar flokksins sem hófst nú síðdegis. Á fjórða hundrað fulltrúar eiga rétt til setu á landsfundinum sem er stærsti landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs til þessa, en um hundrað manns sátu fyrsta landsfundinn sem haldinn var á Akureyri árið 1999. Formaðurinn Steingrímur J. Sigfússon var keikur í ávarpi til flokksmanna sem hófst nú skömmu fyrir fréttir og stendur enn. ,,Við getum verið bærilega sátt við okkar stöðu og hvernig okkur miðar við að byggja hreyfinguna upp. Í könnunum mælumst við nú , misserum saman og mjög stöðugt sem þriðji stærsti flokkur landsins með nálægt 15% fylgi. Það á einnig við hér í Reykjavík þegar kannað er fylgi vegna komandi sveitarstjórnarkosninga og yrði eitthvað annað en það afhroð sem ýmsir ónefndir voru duglegir við að spá okkur í sumar." Þá sendi formaðurinn félögum sínum í Sósíalíska Vinstriflokknum í Noregi árnaðaróskir í tilefni af nýmyndaðri rauð-grænni ríkisstjórn. Og ekki var annað að heyra en hann væri sjálfur á biðilsbuxunum. ,,Myndun rauð - grænu ríkisstjórnarinnar í Noregi hlýtur að verða okkur hvatning til þess að herða róðurinn og hopa hvergi með baráttumál, kosningamarkið okkar frá síðustu kosningum, að mynda velferðarstjórn, græna velferðarstjórn, og bjóða þeim sem líklegastir eru til samstarfs um slíkt. Tilboð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um samstarf um myndun grænnar velferðarstjórnar, rauð - grænnar stjórnar, stendur áfram. "



Fleiri fréttir

Sjá meira


×