Innlent

Full ástæða til að safnast saman

Hjól atvinnulífsins hægja verulega á sér upp úr hádegi á mánudag næstkomandi, þegar konur ganga út af vinnustöðum sínum og þramma niður á Ingólfstorg. Þegar konur gengu fyrst út, fyrir þrjátíu árum söfnuðust að minnsta kosti tuttugu og fimm þúsund manns saman í miðbænum, til þess að krefjast jafnréttis. Konur voru þar auðvitað í miklum meirihluta, en margir karlmenn lögðu einnig leið sína í bæinn. Vigdís Finnborgadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, segir að hún vonist til þess að sjá sem flesta karlmenn á mánudaginn. Konur ætla að ganga út klukkan átta mínútur yfir tvö, enda eru þær þá búnar að vinna fyrir sínum launum, ef litið er til þess munar sem er á atvinnutekjum karla og kvenna. Það verður safnast saman á Skólavörðuholti klukkan þrjú og farið í kröfugöngu niður Skólavörðustíg undir yfirskriftinni Konur höfum hátt. Klukkan fjögur hefst svo baráttufundur á Ingólfstorgi, með fjölbreyttri dagskrá. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var alveg upp við sviðið á baráttudeginum fyrir þrjátíu árum. Hún segir að þótt margt hafi áunnist, sé enn full ástæða til að safnast saman. Það nái ekki nokkurri átt að konur séu annars flokks þegnar í þjóðfélaginu, enda geti þær unnið störf á við karla, nema ef vera skildi erfiðisstörf. Það sé merkilegt að ekki hafi miðað meir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×