Innlent

Davíð byrjaður í Seðlabankanum

Davíð Oddsson hóf störf sem seðlabankastjóri í dag. Honum var vel tekið af öðrum stjórnendum bankans en helsti fjandvinur hans úr pólitíkinni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, notaði daginn til að hætta í bankaráði Seðlabankans. Davíð segist hafa mætt á réttum tíma og segist afar ánægður með að vera aftur kominn í miðbæinn, þar sem hann hafi unnið nær alla tíð síðan hann hafi verið barn. Að vísu hafi hann verið sendur upp í sveit um tíma, þegar hann vann í utanríkisráðuneytinu. Það er allt á sínum stað, jafnvel vel yddaður blýantur. Davíð segist ætla að dansa í sama takti og hinir bankastjórarnir. Læra stafrófið í bankanum áður en hann lætur til sín taka. Og Davíð Oddsson stjórnmálamaður og allir hinir hafa stundum sent bankanum tóninn til að mynda vegna vaxtastefnunnar. Davíð segir bankanum gert skilt að verðbólgan sé undir ákveðnu marki. Ef því sé ekki sinnt, sé bankinn ekki að sinna sínu meginhlutverki. Bankanum sé vorkunn, því hann verði að beita aðferðum til að halda hlutunum í lög og reglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×