Innlent

Flokksformenn ekki í takt

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir ekki gert ráð fyrir lækkun matarskatts sem lið í því að treysta grundvöll kjarasamninga. „Við erum með fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og þar er alveg skýrt hvaða skattalækkanir eru þar uppi á borðinu. Umræðan í þjóðfélaginu hefur frekar verið með þeim hætti að of langt sé gengið í skattalækkunum þannig að ég tel að ekki komi til álita að ganga lengra í þeim efnum," segir Halldór. Geir Haarde utanríkisráðherra og nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins sagði á landsfundi flokksins um síðustu helgi að í stjórnarsáttmálanum væri rætt um breytingar á virðisaukaskatti til hagsbóta fyrir almenning. „Til hagsbóta fyrir almenning hljómar í mínum eyrum þannig að það getur ekki verið um neitt annað að ræða en lækkun. Það á hins vegar eftir að útfæra þetta milli stjórnarflokkanna. Ég hef miklar vonir um að því muni ljúka með fullnægjandi hætti fyrir okkur áður en þetta kjörtímabil er á enda. Og að því munum við stefna," sagði Geir á landsfundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×