Innlent

ASÍ vill svör frá ríkisstjórninni

Forseti Alþýðusambands Íslands segir að stjórnvöld verði að brúa bilið milli gerðra kjarasamninga og verðbólgunnar sem nú blasir við, eigi friður að haldast á almennum vinnumarkaði. Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin vilji ræða málið þar sem skynsamlegt sé fyrir alla að kjarasamningar haldi. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar voru boðaðir á fund forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra, og félagsmálaráðherra í Ráðherrabústaðnum í dag til að ræða um forsendur kjarasamninga. Alþýðusamband Íslands telur forsendurnar brostnar og vill að samið verði um viðbót við gerða kjarasamninga fyrir launafólk, að öðrum kosti kann samningum að verða sagt upp frá og með áramótum. Forseti ASÍ bendir á, að við blasi að reyna muni á endurskoðunarákvæði kjarasamninganna og ekki verði séð að ríkisstjórnin geti vikið sér undan því að leysa það með samningum. Og ASÍ vill svör frá ríkisstjórninni fljótlega, þar sem tíminn sé naumur. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir að það sem fyrst og fremst snúi að þeim og þeirra viðsemjendum sé að brúa bilið frá samningum að raunveruleikanum í dag. Hann segir að allt tvö prósent skilji á milli þess sem samið var um og þess sem verðbólgan hefur étið upp. Forsætisráðherra segir skynsamlegast fyrir alla að gerðir kjarasamningar haldi til ársins 2008. Hann segir verið að skoða ýmislegt, meðal annars mál er varða atvinnnuleysisbætur og lífeyrismál, og að þau verði skoðuð og rædd frekar, ásamt aðilum vinnumarkaðarins, á næstu vikum. Hann segir stjórnvöld reiðubúin að koma að málinu en hins vegar sé um mjög flókin mál að ræða, sértaklega lífeyrismálin og örorkumálin sem þeim tengjast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×