Innlent

Fáir vinir einkabílsins

Einkabíllinn á sér enga vini. Þá ályktun má í það minnsta draga af mætingu á stofnfund vinafélags einkabílsins, sem haldinn var í dag. Fimmtán sátu fundinn, sem stóð í kortér. Í lok árs 2003 voru um 190 þúsund bílar af öllum gerðum skrásettir hér á landi. Í Reykjavík teljast umferðarteppur nánast daglegt brauð. Sumum þykir hreinlega ekki tekið nægilegt tillit til allra þessara bíla og ökumanna þeirra, meðal annars þeim sem efndu til fundar á hótel Sögu í dag. Þar átti að stofna vinafélag einkabílsins, vinsælasta farartækis borgarbúa. Vinir einkabílsins eru ekki margir, miðað við mætinguna. Sextán sátu í salnum og hlýddu á framsögu Eggerts Ólasonar, sem eftir fjórtán mínútna fund var kjörinn formaður félagsins með lófataki. Hann stendur því í fylkingarbrjósti í baráttunni fyrir.. hverju? "Það er að minnka þessa skattpíningu sem er á einkabílum og greiða fyrir umferðinni, þá fyrst og fremst með því að búa til betri stofnbrautir og nýta þær sem við eigum betur," segir Eggert. Hann segir samtökin ekki tengjast neinum stjórnmálaflokkum beinlínis. "Sjálfur hef ég verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum og er í framboði í prófkjöri flokksins í borginni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×