Innlent

Vilja öðruvísi skattalækkanir

Hætta á við áform um skattalækkanir og huga að því hvort taka beri upp evru sem gjaldmiðil. Þetta sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. á opnum fundi í Reykjavík í gær. Ingibjörg sagði blikur á lofti í efnahagsmálum og ekki sá mikli stöðugleiki sem ríkisstjórnin hafi viljað vera láta. „Okkar tillögugerð við fjárlögin miðar að því að halda þurfi aftur af þenslu og vinna gegn verðbólgu. Síðan þurfum við að reyna að bæta kjör þeirra sem lakast eru settir,“ segir hún. Markmiðunum vill hún ná með því að hætta við skattalækkanir og lækka í staðinn matarskatt úr 14 prósentum í 7 prósent. „Það kemur þeim best sem minnstar hafa tekjurnar og slær um leið á verðbólgu.“ Þá segist hún horfa til þess að persónuafsláttur verði hækkaður, sem skipti fólk með lágar og meðaltekjur mestu. Tekjumissir ríkisins við að lækka matarskattinn segir Ingibjörg nema um 4 milljörðum króna og vill hækka persónuafslátt landsmanna um tvo milljarða. „Ef hætt er við skattalækkanir ríkisstjórnarinnar þá fást þar um sex milljarðar til að greiða fyrir þetta.“ Þá lýsti Ingibjörg þeirri skoðun að skoðað yrði alvarlega hvort taka ætti upp evruna sem gjaldmiðil í stað krónunnar. „Ég vil snúa sönnunarbyrðinni við. Ég lít svo á að sjálfstæður gjaldmiðlill hér sé viðskiptahindrun og að væri henni rutt úr vegi mætti auka verulega útflutningstekjur. Þeir sem vilja halda uppi viðskiptahindrun finnst mér eiga að færa rök fyrir því af hverju það sé gott fyrir þjóðarbúið.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×