Innlent

Ófremdarástand í Ártúnsbrekku

Ragnar Sær Ragnarsson, frambjóðandi í prófkjöri sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík, fer heldur óvenjulega leið til að vekja athygli á hinni miklu umferð sem fer um Ártúnsbrekkuna. Hann hyggst dreifa upplýsingum um umferðina til ökumanna við umferðarljósin til móts við Suðurlandsveg upp úr klukkan fjögur í dag. Að sögn Ragnars ríkir ófremdarástand í Ártúnsbrekku á álagstímum þar sem 20 til 25 þúsund bílar sitji nánast fastir á mestu álagstímunum. En í upplýsingunum sem Ragnar hyggst dreifa kemur fram að ríflega 72 þúsund bílar fara um Ártúnsbrekku á sólarhring. Þetta þýðir að á annatíma bæði, kvölds og morgna, skapast allt að hálftíma töf sem leiði til 130 glataðra vinnustunda á ári. Þá megi áætla að óþarfa bensínotkun í hægagangi nemi einum komma fimm lítrum á dag á bíl eða 390 lítrum á ári. Ragnar segir að ekki þýði að bíða eftir Sundabrautinni. Nýta verði betur hjáleiðir í Grafarvogi og Grafarholti auk þess sem íbúar í nýrri byggð nærri Rauðavatni geti notað Breiðholtsbrautina í stað Ártúnsbrekkunnar. Þá megi einnig hugsa sér að hefja kennslu í framhaldsskólum klukkan sjö á morgnana og þannig dreifa umferðinni meira, en fjölmargir framhaldsskólanemar séu á eigin bíl. Aðspurður hvort hann verði ekki í hættu við að dreifa upplýsingunum og hvort hann óttist ekki að trufla umferð, segir Ragnar að hann muni aðeins stökkva á bíla sem hafi stöðvað á rauðu ljósi við gatnamótin og vonandi valdi það ekki miklum truflunum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×