Innlent

Reyna að liðsinna Aroni Pálma

Geir Haarde utanríkisráðherra segir að stjórnvöld ætli að skoða frekar hvað hægt verði að gera til að liðsinna Aroni Pálma Ágústssyni. Forstöðumaður Barnaverndarstofu telur að barátta stuðningsmanna Arons hér á landi hafi lítil áhrif og segir að varlega þurfi að fara að ríkisstjóranum í Texas. Geir Haarde utanríkisráðherra sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar að á sínum tíma hefði allt verið gert til að liðsinna og hjálpa Aroni Pálma í gegnum sendiráð Íslands í Washington. Utanríkisþjónustan hefði beitt sér í málinu og meðal annars rætt við fulltrúa ríkisstjórans í Texas. Geir sagði að íslensk stjórnvöld ætluðu nú að skoða málið frekar og kanna hvort eitthvað yrði hægt að gera til að losa Aron Pálma úr prísundinni í Texas. Samfylkingin hefur óskað eftir utandagskrárumræðu um málið. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að að hans mati eigi utanríkisráðherra að tala við sendiherra Bandaríkjanna hér á landi og taka málið upp við stjórnvöld bæði í Washington og Texas og leggja sitt af mörkum til þess að koma hreyfingu á málið. Hann sé sannfærður um að það sé hægt ef vilji sé fyrir hendi. Allir þurfi að leggjast á eitt til að fá Aron Pálma heim. Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, segir ekki bjart yfir Aroni Pálma, en hann hefur reynt að ræða við yfirvöld í Texas um mál hans. Bragi telur að það þurfi að fara af mikilli varúð að ríkisstjóranum í Texas, en það þurfi að snúa sér beint að honum. Það þurfi að gera faglega og hófstillt. Texas-búar séu afar stoltir og þeim sé afar illa við það að vera sagt fyrir verkum, en þá snúist þeir öndverðir við. Þeir taki hins vegar afskaplega vel rökum.  Bragi telur að barátta RJF-stuðningshópsins sé dýrmæt fyrir Aron sjálfan og hans líðan. Hins vegar telji hann að barátta hópsins bæði hér heima og ytra hafi ekki mjög mikil áhrif á ríkisstjóra Texas eða hans afstöðu. Þar telji hann að þurfi að koma til diplómatískar og faglegar leiðir ef árangur eigi að nást. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×