Innlent

Hægir á umsvifum 2007

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni á alþingi í gærkvöldi að uppbygging stóriðju hefði öðru fremur leitt efnahagssveiflu undanfarið og að sama yrði upp á teningnum á næsta ári. En að óbreyttu væri hins vegar útlit fyrir að eftir það hægði verulega á umsvifum í efnahagslífinu. „Til þess að bregðast við þessum horfum hefur ríkisstjórnin meðal annars lagt fram ítarlegar tillögur um það hvernig ráðstöfun söluandvirðis Símans verði best hagað. Jafnframt hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að treysta undirstöður atvinnulífsins með stórauknum fjárframlögum til rannsóknar- og frumkvöðlastarfsemi," sagði Halldór Geir H. Haarde utanríkisráðherra tók undir þetta í sinni ræðu. Alls staðar væri fengist við nýjungar og unga fólkið aflaði sér þekkingar um heim allan til að byggja upp heima fyrir. Við lifðum á sannkölluðu framfaraskeiði. „Það er við þessar aðstæður sem þau tímamót verða að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra ákveður að hverfa af vettvangi stjórnmálanna til annarra starfa. Davíð Oddsson hefur ótvírætt verið einn fremsti stjórnmálaforingi Íslendinga á glæsilegasta framfaratímabili í sögu þjóðarinnar .Undir hans forystu hefur ríkt festa og öryggi í landsmálum á tímum ótrúlegra breytinga. Þjóðin á honum mikið að þakka." Geir sagði að kaupmáttur hefði aukist að raungildi um 50 prósent á 10 árum. Hann sagði meðal annars að áræði íslenskra athafnamanna vekti athygli langt út fyrir landsteinana. „Með aukinni alþjóðavæðingu, bættum samgöngum og nútíma tækni er fyrirhafnalítið að flytja á milli landa og við þurfum því að leggja okkur enn betur fram um að halda í fyrirtækin okkar og starfsfólk þeirra... Það er stefna okkar sjálfstæðismanna að ríkisvaldið eigi að vera nægilega sterkt til þess að verja þá veikari en nógu veikt til þess að hinir sterkari fái notið krafta sinna," sagði Geir H. Haarde í ræðu sinni í gærkvöldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×