Innlent

Útflutningsgreinar brunarústir

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, gagnrýndi stefnuræðu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra harðlega og sagði að ekki örlaði á því að ríkisstjórnin tæki aðvaranir Seðlabankans og annarra sérfræðinga alvarlega. Ríkisstjórnin væri að því leyti í fullkominni afneitun. Steingrímur spurði hverju það sætti að forsætisráðherra ræddi ekki einu orði vaxtahækkun Seðla--bankans í lok ágústmánaðar og það sem Steingrímur kvað vera neyðarkall bankans um aðstoð við stjórn efnahagsmála. Steingrímur undraðist jafnframt að Halldór hefði varla nefnt erfiðleika útflutningsgreinanna í stefnuræðunni og taldi ómögulegt að álykta á annan veg en þann að forsætisráðherranum og ríkisstjórn hans kæmu efnahagsmálin ekki við. Steingrímur beindi orðum sínum einnig að samstarfsflokki Framsóknarmanna, Sjálfstæðisflokknum, og spurði hvort hann ætlaði að láta nýjan leiðtoga sinn, Halldór Ásgrímsson, leiða sig í gegnum brunarústir íslenskra útflutningsatvinnuvega allt til enda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×