Innlent

Stjórnsýslan verði einfaldari

Stjórnsýslan verður að vera einfaldari en hún er nú og meira í takt við tímann, sagði Halldórs Ásgrímsson forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi rétt í þessu. Hann kynnti sérstakt átak ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og sagði reynt að einfalda regluverkið, minnka skriffinnsku og auka skilvirkni. Forsætisráðherra rifjaði upp fréttir af því að íslensk stjórnsýsla væri sú þriðja skilvirkasta í heimi. Hann sagði að samt sem áður mætti ýmislegt betur fara og því hefði hann látið hefja vinnu við einföldun stjórnsýslunnar. "Það þýðir meðal annars endurskoðun á lögum og reglum um Stjórnarráð Íslands. Ég tel einnig mikilsvert að þing og ráðuneyti hugi að leiðum til að bæta löggjafarstarfið þannig að löggjöf sé eins skýr og einföld og kostur er. Við verðum að hugsa um almenning og fyrirtækin í landinu sem þurfa að haga störfum sínum og háttsemi í samræmi við lögin sem hið háa Alþingi samþykkir," sagði Halldór og sagði ríkisstjórnina hafa ákveðið að hrinda af stað sérstöku átaki undir nafninu Einfaldara Ísland. Öll ráðuneyti færu yfir lög og reglur sem undir þau heyrðu og reyndu að einfalda reglur, draga úr skriffinnsku og auka skilvirkni.   Stefnuræða forsætisráðherra Frú forseti, góðir Íslendingar. Ef brýnir þú plóg og strengir stög og stendur í vinnuher þá verði þar jafnan lífs þíns lög, sem land þitt og tunga er. Þá finnur þú Íslands æðaslög hið innra með sjálfum þér. Þannig kvað alþýðuskáldið Guðmundur Ingi Kristjánsson frá Kirkjubóli og lýsti þar íslenskri þjóðarsál betur en flestir hafa gert; þjóðarsál sem frá örófi alda hefur staðið saman ? oft í snörpum stormum sinnar tíðar; þjóðarsál sem neitar að láta fámennið stöðva sig en leggur þess í stað áherslu á stöðu okkar meðal þjóða og einblínir á styrkleika okkar fremur en veikleika. Við Íslendingar erum gæfusöm þjóð. Samkvæmt nýrri lífskjarakönnun Sameinuðu þjóðanna er Ísland næstbesta landið í heiminum að búa í. Fyrir réttum áratug var staðan önnur og Ísland mun neðar á þessum sama lista. Þetta er ekki aðeins skoðun ríkisstjórnarinnar heldur virtra alþjóðaefnahagsstofnana og fyrirtækja. Hagvöxtur hefur verið meiri en í nálægum löndum. Atvinnuleysi er hvergi minna. Kaupmáttur heimilanna hefur einnig aukist meira hér en í nokkru nálægu landi. Það endurspeglar þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir, auk launahækkana. Þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hófu ríkisstjórnarsamstarf sitt að loknum alþingiskosningum árið 1995 var staðan allt önnur. Fyrirtæki börðust í bökkum og gjaldþrot voru nær daglegt brauð. Atvinnuleysi var viðvarandi og kaupmáttur heimilanna rýrnaði ár frá ári. Ríkissjóður var rekinn með halla og innlendar og erlendar skuldir hans fóru vaxandi. Með gjörbreyttri efnahagsstefnu og markvissum aðgerðum hefur tekist að snúa blaðinu við. Ríkissjóður hefur árum saman verið rekinn með umtalsverðum afgangi og skuldir ríkisins nánast greiddar upp þegar tillit er tekið til þeirrar eignar sem felst í gjaldeyrisforða Seðlabankans. Íslensk fyrirtæki hafa margeflst að burðum og eru nú mörg hver umsvifamikil á erlendum vettvangi. Með hliðsjón af þessari hagstæðu, og ég vil leyfa mér að segja einstæðu, þróun er oft furðulegt að fylgjast með umræðum um efnahagsmál hér á landi. Stundum mætti halda að hér væri allt í kaldakoli og að varla stæði steinn yfir steini. Það þarf ekki nema að líta rétt út fyrir landsteinana til að sjá hvað við stöndum vel að vígi. Flest lönd Evrópu hafa um langt árabil háð oft og tíðum vonlausa baráttu við gífurlegt atvinnuleysi sem hefur jafnvel farið yfir 10%, til dæmis í Frakklandi og Þýskalandi. Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar slíks langtímaatvinnuleysis, bæði efnahagslegar og ekki síður félagslegar. Kaupmátturinn hefur ýmist staðið í stað eða minnkað. Hvað myndu menn segja ef við værum í þessum sporum! Af hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð megináhersla á að viðhalda stöðugleika efnahagslífsins með áframhaldandi aðhaldi í ríkisfjármálum árið 2006, þriðja árið í röð. Það hefur skilað sparnaði í almennum rekstri. Jafnframt hefur verið dregið úr framkvæmdum og mun sú stefna ríkja á næsta ári þegar stóriðjuframkvæmdir verða enn miklar. Fyrir dyrum stendur tugmilljarða uppgreiðsla erlendra skulda ríkissjóðs vegna sölu Símans. Afgangurinn verður að mestu ávaxtaður í Seðlabanka Íslands þar til honum verður ráðstafað frá og með árinu 2007. Þetta skilar ríkissjóði umtalsverðum vaxtatekjum og kemur í veg fyrir þensluáhrif á sama tíma og stóriðjuframkvæmdirnar eru í hámarki. Í þessu ljósi sætir nokkurri furðu gagnrýni um að aðhald ríkisfjármála hafi ekki verið nægilega mikið. Það liggur fyrir að frá árinu 2003 hefur aðhaldsstig ríkisfjármála aukist meira hér en í nokkru öðru OECD-ríki. Jafnframt liggur fyrir að stjórnvöld hafa tekið réttan pól í hæðina með því að fylgja skýrri langtímastefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt. Þótt verðbólga hafi aukist meira að undanförnu en spár gerðu ráð fyrir má alfarið rekja það til hækkunar fasteigna- og olíuverðs. Ég tel þó að menn eigi að fara varlega í að fjármagna neysluútgjöld sín með lántökum eins og borið hefur á upp á síðkastið. Það er alltaf hollt að kunna sér hóf. Frú forseti. Menntun og þekking skiptir sköpum í framtíðinni í hinni hörðu samkeppni þjóða á alþjóðavettvangi. Í nýrri skýrslu frá OECD kemur fram að árið 2002 voru Íslendingar sú þjóð sem varði stærstum hluta þjóðarframleiðslu sinnar, eða 7,4%, til menntamála. Við eigum að líta á útgjöld til menntamála sem fjárfestingu í framtíðinni og rétt eins og aðrir fjárfestar viljum við tryggja að fjárfestingin skili sem mestum árangri. Á þessu þingi hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvörp er taka til grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigsins. Áratugur er liðinn frá því að rekstur grunnskóla var færður frá ríki til sveitarfélaga. Í ljósi reynslu síðustu tíu ára hafa sveitarfélögin og samtök þeirra gert margvíslegar athugasemdir við það sem betur má fara og er markmiðið að sníða slíka annmarka af. Íslenskir háskólanemar hafa aldrei verið fleiri, framlög til háskólamála hafa aldrei verið hærri og námsframboðið aldrei fjölbreyttara. Áformuð eru ný rammalög um háskóla. Markmið þeirra er að tryggja að gæði háskólamenntunar hér séu á heimsmælikvarða og prófgráður njóti fullrar viðurkenningar. Jafnframt er ætlunin að  jafna stöðu ríkisrekinna háskóla og þeirra sem reknir eru af öðrum. Í heilbrigðismálum stendur þjóðin á tímamótum. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um að leggja fjórðung þess sem fékkst fyrir Símann í nýtt hátæknisjúkrahús. Þannig er enn á ný skilað til þjóðarinnar verðmætum sem þjóðin skóp. Í tengslum við byggingu nýs spítala er brýnt að endurskilgreina alla sjúkrahúsþjónustu. Það verkefni er ekki síður mikilvægt en ákvörðun um húsbyggingar og staðsetningu. Undanfarið hefur markvisst verið unnið að sameiningu heilbrigðisstofnana undir eina stjórn víðs vegar á landinu. Enn fremur sér fyrir endann á uppbyggingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hugað hefur verið að réttindum foreldra langveikra barna og er ætlunin að tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð þurfi þeir að leggja niður launuð störf eða gera hlé á námi þegar börn þeirra greinast langveik eða alvarlega fötluð. Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að einum milljarði króna af söluandvirði Símans verði varið til þess að leysa úr húsnæðisþörf og bæta þjónustu við geðfatlaða. Markmiðið er að eyða biðlistum og tryggja að geðfatlaðir búi við viðunandi aðstæður. Ég lýsti því yfir um síðustu áramót að kanna bæri stöðu íslensku fjölskyldunnar. Að því verki er nú unnið í fjölskyldunefndinni sem ég skipaði. Margvíslegar hugmyndir eru nú þar til skoðunar sem margar taka til samvinnu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fólkið í landinu. Meðal þess er hvernig koma megi til móts við foreldra barna á aldrinum níu til átján mánaða, eða frá því að fæðingarorlofi lýkur og börn komast almennt inn í leikskólann sem skilgreindur hefur verið sem fyrsta skólastigið. Margir foreldrar verða að brúa þetta bil í dag með ýmsum ráðum. Hefur fjölskyldunefndin rætt ýmsar tillögur í því sambandi enda er hér um brýnt réttindamál að ræða. Vænti ég mikils af störfum nefndarinnar. Á Íslandi á ekki að viðgangast mismunun, hvorki á grundvelli litarháttar, trúarskoðana né kynhneigðar. Þess vegna verður á næstunni lagt fram frumvarp um aukin réttindi samkynhneigðra. Ég er þess fullviss að þingheimur sameinist um að greiða fyrir því máli og hrinda þessari mikilvægu réttarbót í framkvæmd sem fyrst. Frú forseti. Stefnt er að því að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfni landsins með tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006-2009. Þrjú meginmarkmið hafa verið skilgreind. Þau eru í fyrsta lagi að landshlutakjarnar verði efldir jafnframt því að treysta þær byggðir sem búa við fólksfækkun, í öðru lagi að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum og í þriðja lagi að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni. Hagsæld hverrar þjóðar liggur í því hvernig tekst að nýta og virkja þá hæfileika sem í  henni búa. Samgöngur og upplýsingatækni skipar þar stóran þátt. Verið er að hrinda í framkvæmd þeirri fjarskiptaáætlun sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor. Þar var mörkuð stefna stjórnvalda í háhraða- og farsímavæðingu landsins auk fjölmargra annarra þátta sem skipta okkur máli og horfa til framtíðar. Með því að stofna fjarskiptasjóð og láta renna til hans hálfan þriðja milljarð króna af söluandvirði Símans er staðfestur sá vilji ríkisstjórnarinnar að skapa hér hin bestu skilyrði til að nýta þá auðlind, sem í upplýsingatækninni felst, í þágu einstaklinga og atvinnulífsins. Á árunum 2007-2010 verður 15 milljörðum króna varið til framkvæmda í vegamálum, m.a. til byggingar Sundabrautar, og til framkvæmda við helstu þjóðvegi. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldað á tímabilinu og ljóst að mikil breyting verður til batnaðar á samgöngum landshorna á milli og möguleikar Íslands sem ferðamannalands stóraukast. Lengi hefur staðið til að endurnýja tækjakost Landhelgisgæslunnar. Þótt hann hafi þjónað öryggi landsmanna vel og starfsmenn unnið frækileg björgunarafrek er kominn tími til að fá nýtt skip og flugvél. Það hefur nú verið ákveðið og mun hafa mikla þýðingu fyrir alla landsmenn. Hinn 8. október nk. ganga íbúar 61 sveitarfélags að kjörborðinu og greiða atkvæði um sameiningartillögur. Ríkisstjórnin mun ekki láta sitt eftir liggja til að liðka fyrir sameiningu. Í því skyni verður allt að 2,4 milljörðum króna veitt úr ríkissjóði, meðal annars til að gera nýsameinuðum sveitarfélögum kleift að byggja upp nýja þjónustu, svo sem leikskóla og grunnskóla. Höfuðborgin er miðstöð menningar, vísinda og þjónustu. Í lok síðasta mánaðar var kynnt niðurstaða í samkeppni um hönnun á nýju og glæsilegu tónlistar- og ráðstefnuhúsi sem reist verður við Reykjavíkurhöfn. Með byggingu þessa húss verður bylting í tónlistarmálum auk þess sem tónlistarhúsið verður eitt af fegurstu kennileitum höfuðborgarinnar og Íslands. Frú forseti. Velferð hvers þjóðfélags er ekki hvað síst reist á getu til nýsköpunar og endurnýjunar í atvinnulífinu. Á grundvelli stefnumörkunar Vísinda- og tækniráðs hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir að ríflega tvöfalda úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða á kjörtímabilinu. En betur má ef duga skal. Ég tel framtíð íslensku þjóðarinnar felast í stóreflingu menntunar og vísindarannsókna og að í slíku átaki felist tækifæri til framfara á flestum sviðum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að skynsamlegt væri að stofna sérstaka sameignarsjóði Nýsköpunarsjóðs, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóðanna í landinu sem gætu fjárfest í sprotafyrirtækjum og eflt nýsköpun og vísindarannsóknir. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að verja 2½ milljarði króna af söluandvirði Símans til þess að auka eigið fé Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Stjórn Nýsköpunarsjóðs verður heimilt að verja allt að 1½ milljarði til að stofna sjóð til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum með lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem lýst hafa miklum áhuga á málinu. Stefnt er að því að slíkur sjóður hafi til ráðstöfunar 3-4 milljarða króna. Fyrirtækjum í sjávarútvegi verður gert kleift að auka enn frekar verðmæti þess sjávarfangs sem að landi berst í gegnum verkefnið um aukið virði sjávarfangs. Íslenskt sjávarfang verður að standast allar hugsanlegar kröfur og staðla sem nú eru í gildi og kunna að verða settir um gæði þess og innihald. Frekari rannsóknir, sem ætlað er að tryggja öryggi útflutningstekna, verða unnar hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Fyrir þremur árum samþykkti ríkisstjórnin stefnu um sjálfbæra þróun undir heitinu Velferð til framtíðar. Í haust verður boðað til umhverfisþings þar sem árangur þessarar stefnumörkunar verður til umfjöllunar og áherslur næstu ára kynntar. Fyrir okkur Íslendinga skiptir miklu máli að við nýtum náttúruauðlindir okkar á skynsamlegan og sjálfbæran hátt hvort sem það eru hinar lifandi auðlindir sjávar, endurnýjanlegar orkulindir eða sérstæð náttúrufyrirbæri sem laða að ferðamenn. Mikilvægir áfangar hafa náðst á undanförnum árum í að efla hag jafnt bænda sem og neytenda. Má þar nefna samning um starfsskilyrði garðyrkjubænda sem skilaði sér í lægra vöruverði. Mjólkurafurðastöðvar og sláturhús hafa sameinast og orðið stærri og sérhæfðari. Það hefur aftur leitt til þess að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hefur haldist óbreytt í þrjú ár. Mikil nýsköpun hefur einnig átt sér stað í sveitum landsins. Mest áberandi er hvers konar ferðaþjónusta og skógræktarverkefni sem um 800 bændur taka þátt í. Frú forseti. Einn mikilvægasti leiðtogafundur í sögu Sameinuðu þjóðanna fór fram nýverið. Þar samþykktu þjóðir heims víðtækar umbætur á starfsemi og skipulagi samtakanna þótt vonir hefðu staðið til að enn lengra mætti ganga í framfaraátt, eins og í mannréttindamálum og skipan öryggisráðsins. Í ávarpi mínu minnti ég á framboð Íslands til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem ákveðið var árið 1998 og naut almenns stuðnings á Alþingi. Full samstaða er í ríkisstjórn um að ekki verði vikið frá þeirri stefnu að sækjast eftir sæti í ráðinu árin 2009 og 2010. Leiðtogafundurinn áréttaði einnig þann vilja þjóða heims að draga verulega úr fátækt í heiminum með því að stórauka framlög til þróunarmála. Ríkisstjórn Íslands ákvað að minni tillögu árið 2004 að opinber þróunaraðstoð sem hlutfall af þjóðartekjum skyldi hækka úr 0,19% árið 2004 í 0,35% árið 2009. Þegar því markmiði verður náð hafa framlög Íslands til þróunarsamvinnu fjórfaldast á réttum áratug og er sá gríðarlegi vöxtur í fullu samræmi við aukinn áhuga Íslendinga á þróunarmálum og vilja til að láta gott af sér leiða. Frú forseti. Eitt veigamesta verkefni Alþingis og þjóðarinnar allrar er endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefnd, sem ég skipaði í upphafi árs til að stýra endurskoðunarstarfinu, hefur þegar getið sér gott orð fyrir vönduð og lýðræðisleg vinnubrögð. Rík samstaða þarf að vera um stjórnarskrárbreytingar, meiri samstaða en um lagabreytingar yfirleitt. Það er rík krafa meðal almennings að handhafar ríkisvalds sinni starfi sínu af ábyrgð með almannaheill að leiðarljósi og vandað sé til verka í stjórnsýslu, við lagasetningu og hjá dómstólunum. Enn fremur eru uppi óskir um að fulltrúalýðræðið verði endurnýjað þannig að almenningur fái færi á að taka virkan þátt í ákvörðunartöku um sameiginleg málefni, ekki einungis í þingkosningum á fjögurra ára fresti heldur einnig þess á milli, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í þessu sambandi verðum við að skoða vel reynslu annarra þjóða. Of tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur geta haft þveröfug áhrif og dregið úr almennum áhuga á stjórnmálum. Von mín er sú að þegar upp verði staðið getum við sagt með stolti að með gagnsæjum og vönduðum vinnuaðferðum við endurskoðun stjórnarskrárinnar hafi verið rennt nýjum stoðum undir lýðræði á Íslandi. Á dögunum var frá því greint að íslensk stjórnsýsla væri sú þriðja skilvirkasta í heimi. Samt sem áður má margt betur fara og hef ég látið hefja vinnu sem miðar að því að einfalda stjórnsýsluna og gera hana markvissari og meira í takt við tímann. Það þýðir meðal annars endurskoðun á lögum og reglum um Stjórnarráð Íslands. Ég tel einnig mikilsvert að þing og ráðuneyti hugi að leiðum til að bæta löggjafarstarfið þannig að löggjöf sé eins skýr og einföld og kostur er. Við verðum að hugsa um almenning og fyrirtækin í landinu sem þurfa að haga störfum sínum og háttsemi í samræmi við lögin sem hið háa Alþingi samþykkir. Ríkisstjórnin hefur af þessu tilefni ákveðið að hrinda af stað sérstöku átaki um Einfaldara Ísland. Gert er ráð fyrir að hvert ráðuneyti fari yfir lög og reglur, sem undir það heyra, með það fyrir augum að einfalda regluverkið, minnka skriffinnsku og auka skilvirkni enn frekar. Frú forseti. Stefna ríkisstjórnarflokkanna hefur alla tíð miðað að því að skapa hér skilyrði til efnahagslegs stöðugleika og aukins hagvaxtar en hvort tveggja er forsenda öflugs atvinnulífs og bættra lífskjara almennings. Undanfarin ár hefur mikil uppbygging stóriðju öðru fremur leitt efnahagsuppsveifluna og horfur eru á að sama verði uppi á teningnum á næsta ári. Að öðru óbreyttu er hins vegar útlit fyrir að eftir það hægi verulega á umsvifum í efnahagslífinu. Til þess að bregðast við þessum horfum hefur ríkisstjórnin m.a. lagt fram ítarlegar tillögur um það hvernig ráðstöfun söluandvirðis Símans verði best hagað. Jafnframt hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að treysta undirstöður atvinnulífsins með stórauknum fjárframlögum til rannsóknar- og frumkvöðlastarfsemi. Samhliða er mikilvægt að huga að frekari nýtingu okkar miklu orkulinda þar sem jafnframt verði tekið fullt tillit til umhverfisþátta. Ég er sannfærður um að allir þessir þættir auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og renna traustari stoðum undir þjóðfélagið. Það skapar skilyrði til frekari skattalækkana, jafnt hjá fyrirtækjum sem einstaklingum, og gefur um leið möguleika á áframhaldandi uppbyggingu velferðar- og menntakerfisins. Virðulegi forseti. Þau eru sterk æðaslög þjóðarinnar. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að hlusta á og túlka æðaslög þjóðarinnar, greiða götu hennar og virkja þennan kraft í þágu okkar allra. Þetta tel ég vera mitt meginverkefni og að því mun ég vinna. Góðar stundir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×