Innlent

Iðgjöld á sjúkratryggingar

Í drögum að ályktunum um heilbrigðis- og tryggingamál sem lögð verða fram á landsfundi Sjálfstæðisflokks helgina 13.-16. október er lagt til að kerfi sjúkratrygginga verði breytt þannig að greidd verði sérstök iðgjöld. Þar kemur fram tillaga um breytingar þannig að ljóst sé að um „raunverulegt tryggingakerfi sé að ræða þar sem menn njóta tiltekinna, skilgreindra réttinda til heilbrigðisþjónustu sem þeir hafa greitt fyrir með sérstökum iðgjöldum". Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að ekki sé verið að ræða hér um einkavæðingu sjúkratrygginga, enda komi fram í ályktuninni að almannatryggingar og almenn heilbrigðisþjónusta sé að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum. Skilgreina þurfi betur hvaða þættir heilbrigðisþjónustu felist í opinberri sjúkratryggingu. Í dag sé það ekki alveg ljóst og í sumum tilvikum þurfi fólk að reiða fram miklar fjárhæðir fyrir meðferð sem væri ókeypis ef fólk væri lagt inn á spítala. Fólk hafi því möguleika á að meta hvort það þurfi að tryggja sig frekar. Lagt er til að skattar lækki sem nemi iðgjöldum til sjúkratrygginga. „Framlög til heilbrigðismála eru þá eyrnamerkt. Þeir sem ekki borga tekjuskatt verði samt tryggðir í gegnum ríkið," segir Ásta. Hún segir að með þessu hafi fólk betri tilfinningu fyrir því sem það fær fyrir skattana sína í formi heilbrigðisþjónustu. Enn fremur er lagt til að einkaaðilar taki við þeim slysatryggingum sem enn eru í höndum Tryggingastofnunar. Ásta segir að þar sem slysatryggingar séu nú þegar að mestu leyti í höndum tryggingafélaganna, en að litlum hluta hjá almannatryggingum, sé eðlilegt að færa slysatryggingar alfarið til tryggingafélaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×