Innlent

Svandís bar sigur úr býtum

Svandís Svavarsdóttir bar sigur úr býtum í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem haldið var í gær og mun hún því skipa efsta sætið á lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Vinstri græn í Reykjavík gengust í gær fyrir forvali á framboðslista sinn fyrir borgarstjórnarkosningarnar á vori komanda. Á kjörskrá voru 750 félagar í hreyfingunni og komu 392 gild atkvæði upp úr kosningunum. Þegar rætt var við Stefán Pálsson, formann kjörstjórnar rétt áður en kjörfundi lauk í gærkvöld kvaðst hann ánægður með kjörsóknina. "Það hefur gengið vel í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem við göngust fyrir slíku forvali og þar sem ekki var búist við miklum átökum um fyrstu tvö sætin erum við sátt." Tíu voru í kjöri og þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöld var ljóst að Svandís Svavarsdóttir, formaður VG í Reykjavík, hefði borið sigur úr býtum en 277 greiddu henni atkvæði sitt í fyrsta sæti, eða rúmlega sjötíu prósent gildra atkvæða. Á hæla henni kom Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi með samtals 167 atkvæði í fyrstu tvö sætin. Í þriðja sæti hafnaði svo Þorleifur Gunnlaugsson með 160 atkvæði í fyrstu þrjú sætin. Aðrir í kjöri voru Ásta Þorleifsdóttir, Grímur Atlason, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Magnús Bergsson, Sóley Tómasdóttir, Ugla Egilsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson. Vinstri græn hyggjast bjóða fram svonefndan fléttulista þar sem sætin skiptast jafnt á milli karla og kvenna. Í ljósi þessa er ljóst að kona mun skipa fjórða sæti listans. Vinstri græn stefna að því að fá í það minnsta þrjá borgarfulltrúa í kosningunum og var ljóst fyrir forvalið að slagurinn stæði því um þriðja sætið. Í skoðanakönnun sem Fréttablaðið gerði fyrir rúmum mánuði sögðust hins vegar 8,8 prósent aðspurða ætla að kjósa Vinstri græn og fengju þau samkvæmt því aðeins einn borgarfulltrúa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×