Innlent

Hafi ekki fengið syndakvittun

Stjórnarandstæðingar segja af og frá að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hafi fengið syndakvittun, þrátt fyrir að umboðsmaður Alþingis kanni ekki að eigin frumkvæði, hvort ráðherra hafi verið vanhæfur þegar kom að sölu Búnaðarbankans. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-hreyfingarinnar - græns framboðs, segir að með spurningum sínum til forsætisráðuneytisins hafi umboðsmaður Alþingis sett athugun á hvort rétt hafi verið staðið að sölu Búnaðarbankans í farveg á nýjan leik. Steingrímur segir það engu breyta þó umboðsmaður hafi ekki ákveðið að kanna hæfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra með hliðsjón af eignarhlut hans í einu fyrirtækjanna sem keyptu Búnaðarbankann. Umboðsmaður velti upp spurningum sem beri það með sér að menn hafi í raun ekki staðið nógu vel að málum. Spurt sé hvort til standi að skýra lögformlega og stjórnskipunarlega stöðu einkavæðingarnefndar og ráðherranefndar um einkavæðingu, hvor setja eigi reglur þar um og við hvaða hæfisreglur hafi verið stuðst. Halldór Ásgrímsson sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær, að fyrst umboðsmaður Alþingis sæi ekki forsendu til að kanna hæfi hans við sölu Búnaðarbankans stæði niðurstaða Ríkisendurskoðanda að hann væri ekki vanhæfur óhögguð. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, er á annari skoðun og segir ekki hægt að túlka ákvörðun umboðsmanns svo að hann álíti forsætisráðherra hafa hreinan skjöld. Hann sjái líka í bréfi umboðsmanns að hann vilji skoða ákveðna ferla í málinu og þótt hann taki fram að hann ætli ekki inn í fortíðina þá gefi það tilefni til þess að draga þá ályktun að umboðsmanni hafi ekki þótt allt eðlilegt í málinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði svo í Bylgjufréttum í gær að umræðunni um einkavæðinguna og hvernig að henni hafi verið staðið væri ekki lokið og sagði forsætisráðherra enga syndarkvittun hafa fengið. Hún sagði þó að líklega yrði ekki komist lengra með þennan þátt málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×