Margar víddir mannshugans 22. september 2005 00:01 Trúðu mér, lesandi minn góður: ég fór til sálfræðings, áður en ég gekk frá þessari grein til birtingar. Ég reyni að víkja helzt aldrei frá þeirri reglu að ráðfæra mig við þá, sem gerst þekkja til hverju sinni, einkum og ekki sízt þegar ég fjalla um mál, sem liggja langt utan alfaraleiðar. Nú ætla ég að leyfa mér þann lúxus að hugsa upphátt um hagnýta sálarfræði og segja þér frá óvæntri uppgötvun – ef það er þá uppgötvun – á þeim vettvangi. Byrjum á Mozart. Honum tókst, eða svo er a.m.k. sagt í Vín, að sannfæra Jósef II Austurríkiskeisara um yfirburði óperunnar umfram önnur leikhúsverk með þeim rökum, að þegar einn byrjar að syngja, þurfa hinir ekki endilega að hætta eins og í leikritum. Menn geta sungið saman, sagði Mozart við keisarann óður og uppvægur og átti við það, að mannshugurinn getur auðveldlega greint margar söngraddir samtímis. Þetta skilja allir, sem þekkja muninn á einsöng og fjölradda kórsöng. Leiklistin gegnum aldirnar hefur á hinn bóginn hvílt m.a. á þeirri meginforsendu, að þegar einn byrjar að tala, þurfa hinir helzt að þagna. Kórarnir í grísku harmleikjunum eru einróma: allir í kórnum þylja sama texta. Leikhúsin ganga enn sem fyrr út frá því sem sjálfsögðum hlut, að mannshugurinn geti ekki að nokkru gagni numið nema eina rödd í einu, án söngs. Ég man ekki eftir nokkurri undantekningu frá þessari almennu reglu. Það þykir víst ekki heldur góð latína í leikhúsinu að láta persónur talast við öðrum megin á sviðinu og aðrar persónur sýsla eitthvað – dansa, mjólka, spinna, teðja – í hljóði hinum megin sviðs, því að það er talið dreifa athygli áhorfenda, eða svo mun a.m.k. flestum leikstjórum finnast. Nú ber samt svo við, að ný tækni bregður vonglaðri birtu á þetta mál. Ég á í fórum mínum nokkrar kvikmyndir á DVD-diskum, sem veita áhorfandanum kost á að hlusta á lærðan fyrirlestur um myndina um leið og horft er á hana. Mig rak í rogastanz, þegar ég þóttist komast að því, að óperurök Mozarts virðast einnig eiga við um kvikmyndir og þá hugsanlega með líku lagi um leikhúsverk. Það er með öðrum orðum hægt að fylgjast með samtölum í kvikmynd og hlýða samt um leið á fyrirlestur um myndina og hafa gagn og gaman af hvoru tveggja í senn. Fullt gagn? Það veit ég ekki; þar er efinn. Kannski textinn hjálpi. Hvað um það, hugurinn virðist nema texta á tveimur rásum í einu, öndvert því sem ég hafði ævinlega gengið út frá sem gefnum hlut. Sálfræðingarnir vinir mínir í Háskólanum segja mér, að málið hafi verið kannað fyrir hálfri öld og menn hafi þá ekki getað greint nema eina rás í einu að nokkru gagni. Mér sýnist, að málið kunni að þarfnast frekari skoðunar. Hugsum okkur svo fellda tilraun. Fyrst er lesinn texti fyrir hóp manna, og síðan er prófað, hversu vel þeir skildu textann. Úrslit prófsins sýna þá væntanlega, að sumir skildu allt og aðrir skildu næstum allt eins og gengur. Síðan er tilraunin endurtekin með þeirri breytingu, að tveir skyldir – eða óskyldir – textar eru lesnir samtímis fyrir sama hóp, og tilraunadýrin eru prófuð aftur til að athuga, hvort og hversu vel þau skildu textann á báðum rásum. Kannski skildu þau textann á annarri rásinni, kannski hvorugri, kannski báðum, kannski bara hrafl. Tilgangurinn tilraunarinnar væri einmitt að fá úr þessu skorið. Þannig ætti að vera hægt að leggja raunhæft mat á það með mælingum, að hversu miklu leyti skilningur hlustandans á efninu dvín við það, að mannshugurinn reynir að nema texta í tveim víddum í senn frekari en einni. Síðan er hægt að athuga þriðju víddina og þannig áfram, ef menn vilja, en nógu fróðlegt fyndist mér – tómstundasálfræðingnum! – að bera í fyrstunni saman niðurstöðurnar um eina vídd og tvær. Hvað fyndist þér? Menn sjá margt í senn eins og allir vita af eigin raun. Gangi maður inn í hús, þar sem hann hefur aldrei komið áður, getur hann eigi að síður á augabragði lýst í einstökum atriðum ýmsu af því, sem fyrir augu hans ber: blómi í glugga, mynd á vegg o.m.fl. Margir lesa einmitt með þessu lagi: þeir lesa með því að gleypa í sig blaðsíðurnar svo að segja í heilu lagi frekar en að lesa textann frá orði til orðs, og þeir lesa hratt fyrir vikið og fljúga í gegnum bækur og blöð eins og ekkert sé. Eru augun í okkur að þessu leyti frábrugðin eyrunum? Er munurinn kannski minni en menn hafa haldið? Hvaða skoðun ætli Jósef II hefði haft á málinu? Meira næst? Nei, varla. Kannski seinna. Við sjáum til. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Trúðu mér, lesandi minn góður: ég fór til sálfræðings, áður en ég gekk frá þessari grein til birtingar. Ég reyni að víkja helzt aldrei frá þeirri reglu að ráðfæra mig við þá, sem gerst þekkja til hverju sinni, einkum og ekki sízt þegar ég fjalla um mál, sem liggja langt utan alfaraleiðar. Nú ætla ég að leyfa mér þann lúxus að hugsa upphátt um hagnýta sálarfræði og segja þér frá óvæntri uppgötvun – ef það er þá uppgötvun – á þeim vettvangi. Byrjum á Mozart. Honum tókst, eða svo er a.m.k. sagt í Vín, að sannfæra Jósef II Austurríkiskeisara um yfirburði óperunnar umfram önnur leikhúsverk með þeim rökum, að þegar einn byrjar að syngja, þurfa hinir ekki endilega að hætta eins og í leikritum. Menn geta sungið saman, sagði Mozart við keisarann óður og uppvægur og átti við það, að mannshugurinn getur auðveldlega greint margar söngraddir samtímis. Þetta skilja allir, sem þekkja muninn á einsöng og fjölradda kórsöng. Leiklistin gegnum aldirnar hefur á hinn bóginn hvílt m.a. á þeirri meginforsendu, að þegar einn byrjar að tala, þurfa hinir helzt að þagna. Kórarnir í grísku harmleikjunum eru einróma: allir í kórnum þylja sama texta. Leikhúsin ganga enn sem fyrr út frá því sem sjálfsögðum hlut, að mannshugurinn geti ekki að nokkru gagni numið nema eina rödd í einu, án söngs. Ég man ekki eftir nokkurri undantekningu frá þessari almennu reglu. Það þykir víst ekki heldur góð latína í leikhúsinu að láta persónur talast við öðrum megin á sviðinu og aðrar persónur sýsla eitthvað – dansa, mjólka, spinna, teðja – í hljóði hinum megin sviðs, því að það er talið dreifa athygli áhorfenda, eða svo mun a.m.k. flestum leikstjórum finnast. Nú ber samt svo við, að ný tækni bregður vonglaðri birtu á þetta mál. Ég á í fórum mínum nokkrar kvikmyndir á DVD-diskum, sem veita áhorfandanum kost á að hlusta á lærðan fyrirlestur um myndina um leið og horft er á hana. Mig rak í rogastanz, þegar ég þóttist komast að því, að óperurök Mozarts virðast einnig eiga við um kvikmyndir og þá hugsanlega með líku lagi um leikhúsverk. Það er með öðrum orðum hægt að fylgjast með samtölum í kvikmynd og hlýða samt um leið á fyrirlestur um myndina og hafa gagn og gaman af hvoru tveggja í senn. Fullt gagn? Það veit ég ekki; þar er efinn. Kannski textinn hjálpi. Hvað um það, hugurinn virðist nema texta á tveimur rásum í einu, öndvert því sem ég hafði ævinlega gengið út frá sem gefnum hlut. Sálfræðingarnir vinir mínir í Háskólanum segja mér, að málið hafi verið kannað fyrir hálfri öld og menn hafi þá ekki getað greint nema eina rás í einu að nokkru gagni. Mér sýnist, að málið kunni að þarfnast frekari skoðunar. Hugsum okkur svo fellda tilraun. Fyrst er lesinn texti fyrir hóp manna, og síðan er prófað, hversu vel þeir skildu textann. Úrslit prófsins sýna þá væntanlega, að sumir skildu allt og aðrir skildu næstum allt eins og gengur. Síðan er tilraunin endurtekin með þeirri breytingu, að tveir skyldir – eða óskyldir – textar eru lesnir samtímis fyrir sama hóp, og tilraunadýrin eru prófuð aftur til að athuga, hvort og hversu vel þau skildu textann á báðum rásum. Kannski skildu þau textann á annarri rásinni, kannski hvorugri, kannski báðum, kannski bara hrafl. Tilgangurinn tilraunarinnar væri einmitt að fá úr þessu skorið. Þannig ætti að vera hægt að leggja raunhæft mat á það með mælingum, að hversu miklu leyti skilningur hlustandans á efninu dvín við það, að mannshugurinn reynir að nema texta í tveim víddum í senn frekari en einni. Síðan er hægt að athuga þriðju víddina og þannig áfram, ef menn vilja, en nógu fróðlegt fyndist mér – tómstundasálfræðingnum! – að bera í fyrstunni saman niðurstöðurnar um eina vídd og tvær. Hvað fyndist þér? Menn sjá margt í senn eins og allir vita af eigin raun. Gangi maður inn í hús, þar sem hann hefur aldrei komið áður, getur hann eigi að síður á augabragði lýst í einstökum atriðum ýmsu af því, sem fyrir augu hans ber: blómi í glugga, mynd á vegg o.m.fl. Margir lesa einmitt með þessu lagi: þeir lesa með því að gleypa í sig blaðsíðurnar svo að segja í heilu lagi frekar en að lesa textann frá orði til orðs, og þeir lesa hratt fyrir vikið og fljúga í gegnum bækur og blöð eins og ekkert sé. Eru augun í okkur að þessu leyti frábrugðin eyrunum? Er munurinn kannski minni en menn hafa haldið? Hvaða skoðun ætli Jósef II hefði haft á málinu? Meira næst? Nei, varla. Kannski seinna. Við sjáum til.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun