Innlent

Reglugerð marki stefnubreytingu

Ný reglugerð félagsmálaráðherra um áhættustýringu Íbúðalánasjóðs fer fyrir brjóstið á Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja sem segja hann marka stefnubreytingu. Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefur breytt reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs. Í viðauka við reglugerðina er fjallað um hvaða viðskipti Íbúðalánasjóður megi ráðast í og við hverja. Þar er hvort tveggja um innlend og erlend fyrirtæki að ræða auk ríkissjóðs, sveitarfélaga og lánastofnana. Í félagsmálaráðuneytinu er lögð áhersla á að með þessu sé aðeins verið að gera heimildir Íbúðalánasjóðs gegnsærri en ekki verið að víkka út heimildir sjóðsins til útlána. Þessu andmæla fulltrúar banka og verðbréfafyrirtækja. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir að með þessu séu stjórnvöld í raun að viðurkenna gagnrýni sem kom fram á sjóðinn í sumar. Þá var sjóðurinn sagður hafa veitt lán umfram heimildir sínar, meðal annars í viðskiptum sínum við bankana. Guðjón segir jafnframt að í breytingu félagsmálaráðherra felist nokkur stefnubreyting. Þarna séu gefnar mun víðtækari heimildir til útlána en gildi um almenn íbúðalán sjóðsins og kannski muni ekki síst mest um það að ekkert þak sé lengur á lánum heldur gildi 90 prósent veðhlutfall. Það veki undrun að þetta sé gert í sömu viku og Seðlabanki Íslands hafi varað sterklega við verðbólguáhrifum af lánastefnu Íbúðalánasjóðs og hvatt til breytinga á starfsumgjörð hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×