Innlent

Sættir sig við takmarkað rými

Foreldraráð í Korpuskóla hefur sætt sig við að nýi skólinn rúmi ekki öll börnin í hverfinu en þrír efstu árgangarnir þurfa að vera í þar til gerðum skúrum sem komið hefur verið fyrir við skólann. Foreldraráðið treystir á að formaður fræðsluráðs og skólastjórinn muni sjá til þess að betri skúrar verði fengnir í stað þeirra sem nú eru. Þrír efstu bekkirnir í Korpuskóla fá kennslustofur í skúrum við hlið skólans til afnota þar sem skólinn rúmar ekki fjölda nemenda sem í honum er. Foreldri barns í áttunda bekk skólans, sem fréttastofa Bylgjunnar ræddi við, er ekki sátt við að grunnskólaganga barns síns sé í skúr eða fjósi en eins og margir vita hefur Korpuskóli verði á Korpúlfsstöðum fram til þessa. Foreldrið segir að Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs Reykjavíkur, hafi lofað of litlum skóla svo skólinn yrði ekki of stór til lengri tíma litið. Foreldraráð skólans hefur eftir nokkuð langa baráttu sætt sig við þessa tilhögun og ætlar ekki lengra með málið. Ekki er þó sátt um skúrana sem hafa verið fengnir, vegna lélegs ásigkomulag þeirra, en foreldraráð treystir orðum skólastjórans og Stefáns Jóns um að þar verði gerð bót á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×