Innlent

VG átelja ríkisstjórnina

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur óumflýjanlegt og brýnt að gripið verði til samræmdra aðgerða til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og átelur ríkisstjórnina fyrir háskalegt andvaraleysi. Þetta kemur fram í ályktun flokksráðsfundar Vinstri - grænna sem lýkur í dag. Flokksráðið vísar til tillagna þingflokks Vinstri - grænna frá sl. vetri þar sem meðal annars er lagt til að stöðva allar frekari stóriðjuframkvæmdir. Flokkurinn vill þess í stað leggja áherslu á fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu, stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki og hvers kyns nýsköpun í atvinnumálum. Í ályktuninni segir að ekkert af því sem nú sé að gerast þurfi að koma á óvart, allra síst stjórnvöldum sem sjálf beri mikla ábyrgð á því jafnvægisleysi sem nú sé við að glíma í íslenskum þjóðarbúskap. Þá segir að fráleitt sé, eins og ýmsir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna reyni nú að gera, að kenna Seðlabankanum einum um eða skella skuldinni á erlenda spákaupmenn, „þótt þeir grípi tækifærið eins og fleiri og taki að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og nágrannalandanna“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×