Sport

Jafntefli við Svía í Sandgerði

Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri lék öðru sinni vináttulandsleik gegn sænska U19-liðinu í gær en 2-0 sigur vannst í fyrri leiknum. Leikið var í Sandgerði í gær og þegar upp var staðið skildu liðin jöfn með 2-2 jafntefli. Íslenska liðið lék betur í leiknum og hefði átt að ná sigri. Matthías Vilhjálmsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks með góðu skoti eftir flottan undirbúning Heiðars Geirs Júlíussonar. Í síðari hálfleik virtist Ísland ætla að halda áfram á sömu siglingu og fékk vítaspyrnu þegar sænski markvörðurinn braut á Matthíasi. Heiðar Geir fór á punktinn en markvörðurinn bætti upp fyrir brotið og varði spyrnuna. Eftir þetta datt leikur íslenska liðsins niður í nokkurn tíma, vörnin klikkaði í tvö skipti og í bæði skiptin náðu gestirnir að skora og tóku þannig forystuna. Pétur Mar Pétursson náði þó að jafna fyrir Ísland eftir frábæra aukaspyrnu Kristjáns Ara Halldórssonar, sem var hættulegur eftir að hann kom inn á. Ísland fékk síðan færi til að tryggja sér sigurinn en það tókst ekki og jafntefli niðurstaðan. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×