Sport

Liðið og þjóðin þurfti sigur

„Liðið og þjóðin þurftu sigur og ég vona að fólk hafi skemmt sér vel. Það voru fleiri á vellinum en ég bjóst við og mig langar að þakka fyrir stuðninginn sem við fengum. Það reynir dálítið á þolinmæðina fyrir okkur að spila á móti svona vörn og ég var með einn límdan á mig allan leikinn, sem ætlaði að elta mig þegar ég fór á klósettið í hálfleik," sagði Eiður Smári Guðjohnsen sem skoraði í þriðja landsleik sínum í röð og komst upp fyrir föður sinn Arnór Guðjohnsen á markalista A-landsliðsins. Arnór skoraði 14 mörk í 73 leikjum á sínum tíma en Eiður Smári hefur nú skorað 15 mörk í 36 landsleikjum. „Við náðum að spila ágætlega og það eina leiðinlega er að fá á sig þetta mark. Það var mikill kraftur í ungu strákunum hjá okkur, sérstaklega Grétari, hann kom inn í þetta með þvílíkan kraft, sem er bara gott mál. Auðvitað gæti ég nefnt tíu til viðbótar og mér finnst bara gott að enda þetta núna á sigri hérna á heimavelli og það verður gott að komast í smá frí," sagði Eiður Smári sem hefur skorað fimm mörk í sjö leikjum undankeppninnar. Eiður Smári fær nú langþráð frí en hann hefur leikið 64 leiki á þessu tímabili, 57 með Chelsea í öllum keppnum og svo 7 með íslenska landsliðinu. Mörkin hans Eiðs Smára á þessu eftirminnilega og frábæra tímabili eru 22 talsins, 16 með Chelsea og 6 með íslenska landsliðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×