Innlent

Gæsluvarðhald til 14. júlí

Maður um þrítugt lést af sárum sem hann hlaut í átökum við annan mann í Kópavogi í gærkvöld. Hinn grunaði hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. júlí. Í brýnu sló milli tveggja manna af asískum uppruna sem voru gestir í samkvæmi á efstu hæð fjölbýlishúss við Hlíðarhjalla í Kópavogi í gærkvöldi. Lögreglan var kvödd til um hálfellefu leytið. Þá hafði 29 ára maður hlotið nokkur stungusár í brjóstið. Samkvæmt heimildum fréttastofu var lagt til hans með beittum eldhúshnífi sem var í íbúðinni. Maðurinn lést af völdum áverka sinna. Blóð á veggjum, gólfi og handriði sýnir að átökin hafi verið mikil og að þau hafi borist út úr íbúðinni og fram á stigagang. Annar maður, sem virðist hafa reynt að stöðva átökin, hlaut skurðsár á læri og var fluttur á Landspítalann. Hann var ekki lífshættulega slasaður en þurfti að gangast undir aðgerð. Nágrannar segja að hann hafi verið blóðugur en haltrað af sjálfsdáðum upp í sjúkrabílinn. Þrír menn voru handteknir en tveimur sleppt fyrir hádegi. Síðdegis, eftir yfirheyrslur hjá rannsóknardeild lögreglunnar, óskaði lögreglan eftir því að þriðji maðurinn, sem er grunaður um manndrápið, yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. júlí. Dómari við Héraðsdóm Reykjaness í Hafnarfirði féllst á kröfuna. Maðurinn hefur ekki játað verknaðinn. Hann er 33 ára og hefur ekki komið við sögu lögreglu áður vegna ofbeldibrota eða annarra alvarlegra brota. Lögreglan hefur ekkert gefið upp um orsakir árásarinnar.
MYND/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×