Innlent

Vantreystir Landsvirkjun

MYND/Gunnar V. Andrésson
Í utandagskrárumræðum um framkvæmdir á Kárahnjúkum í gær spurði Steingrímur J. Sigfússon Valgerði Sverrisdóttir iðnaðarráðherra hvort Landsvirkjun væri treystandi til að halda byggingu Kárahnjúkastíflu áfram í ljósi þess sem fram hefði komið um óvandaðan undirbúning framkvæmdarinnar, meðal annars þess að samkvæmt nýrri skýrslu væru gerðar auknar kröfur til stíflunnar um jarðskjálftaþol. Þá sagði Steingrímur að erfiðleikar við framkvæmdina, þar sem undirstaðan væri mun sprungnari en gert hefði verið ráð fyrir, hefðu tafið verkið um mánuði og valdið milljarða viðbótarkostnaði. Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar, segir viðbótarkostnað vegna þessara auknu krafna vera um 150 milljónir, bæði vegna hönnunar og framkvæmda. Hins vegar hafi um áramót verið gerður sérstakur samningur við Impregilo, þar sem gerðar hafi verið upp allar breytingar á verkinu fram að þeim tíma. Þar sé með talinn aukinn kostnaður vegna gljúfursins, auknar öryggisgirðingar og varnir og tafir sem hafi orðið vegna flóða. Ekki er gefið upp um hvaða fjárhæð er að ræða, en það rúmast innan varasjóðs sem gert var ráð fyrir vegna ófyrirséðs kostnaðar, sem er 10 prósent af áætluðum byggingakostnaði. Virkjunin á að kosta 90 milljarða á verðlagi 2005.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×