Fastir pennar

Skipbrot átakastjórnmálanna

Af hverju skrökvaði Auðun Georg því í hinu fræga hádegisviðtali við Ingimar Karl Helgason 1. apríl að hann hefði ekki hitt Gunnlaug Sævar Gunnlaugsson nýlega? Af hverju komst hann í þær ævintýralegu ógöngur yfir einfaldri spurningu að hann var farinn að ljúga upp í opið geðið á væntanlegum undirmanni um hlut sem allir gátu heyrt að undirmaðurinn vissi þegar og ekki nóg með það heldur staðinn að því að skrökva að þjóðinni í sínu fyrsta viðtali sem andlit og yfirmaður þeirrar stofu sem allt á undir því að fólk telji hana segja satt? Af hverju gat hann ekki bara sagt já ég hef hitt hann og hvað með það - næsta spurning takk? Hvað var með það? Af hverju mátti það ekki vitnast? Auðun Georg er að sögn þeirra sem hann þekkja vænn maður. Hann er að minnsta kosti auðheyrilega ekki góður lygari; þegar ég hlustaði á grátbroslega tilburði hans í þeim efnum varð mér hugsað til þess þegar vinkona mín ein í gamla daga bað mig að smygla fyrir sig myndavél til landsins og sagði að ég skyldi bara bera hana um hálsinn og segjast eiga hana - það tók Kristján Pétursson fimm sekúndna þýðingarmikið augnaráð að brjóta mig niður og beina mér af glæpabrautinni. Auðun Georg var því væntanlega ekki að skrökva af gömlum vana. Á þessari furðulegu framgöngu er sennilegust sú skýring að hann hafi þarna verið að hlýðnast yfirboðara sínum; fyrir honum hafi verið brýnt að segja ekki nokkrum lifandi manni frá fundinum. Af hverju það var svo mikið leyndarmál er óljóst, nema Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni virðist henta illa að starfa í dagsljósinu. Aðalatriðið er þetta: Auðun Georg komst í vandræði fyrir tilstilli sömu manna og höfðu komið honum í öll önnur vandræði, ráðamanna útvarpsins sem stóðu fyrir því að setja hann í stól sem blasti svo átakanlega við öllum að hann átti ekki erindi í. Vonandi eru lærdómar í þessu máli fyrir alla. Til dæmis sá að vera trúr yfir litlu og reyna ekki að komast til metorða án þess að hafa til þeirra unnið. Það er mikilsverður lærdómur. Og fyrir Markús Örn er vert að hugleiða hugtök á borð við virðingu og sæmd. Hann sækir ekki vald sitt til starfsfólks eins og hann þrástagast á, satt er það - en þarf hann ekkert á virðingu þess að halda í starfi? Hefur hann ekkert við traust þess að gera? Það getur enginn krafist trausts. Það er einungis hægt að vinna sér það inn. Virðingar afla stjórnendur sér með framgöngu sinni og viturlegum ákvörðunum - ekki með því að gnísta tönnum, ekki með því að þumbast við, ekki með því tala ekki við fólk, ekki með því að keyra í gegn ákvarðanir sem allir eru andvígir. Margir stjórnendur fyrirtækja virðast eiga furðulega erfitt með að skilja þau einföldu sannindi að þegar allir eru andvígir einhverri ákvörðun eru miklar líkur til þess að sú ákvörðun sé röng. Lærdómur fyrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks er sá að tími átakastjórnmálanna er liðinn. Átakastjórnmál má kalla þau vinnubrögð þegar menn sem komist hafa í valdastöðu fyrir atbeina stjórnmálaflokka ákveða að fara sínu fram án tillits til sjónarmiða þess fólks sem málin varða hverju sinni, og sé almenn andstaða við einhverja tiltekna málsmeðferð skuli hún að engu höfð en málið keyrt af offorsi í gegn til þess að sýna styrk sinn í eitt skipti fyrir öll. Með öðrum orðum: hafa sitt fram með átökum fremur en samræðum. Ofstopastjórnmál af þessu tagi guldu afhroð þann 1. apríl og hafa í raun skilið eftir sig sviðna jörð svo að allir eru í sárum. Þorgerður Katrín menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins getur ekki þvegið hendur sínar af þessari atburðarás - hún þarf að stíga hér inn og sjá til þess að ný vinnubrögð verði tekin upp. Markús Örn Antonsson þarf að fara að haga sér eins og útvarpsstjóri, brjóta odd af oflæti sínu og hætta sér niður af efstu hæðinni í útvarpshúsinu - hann þarf líka að átta sig á því að þessi stöðuveiting nú getur ekki snúist um að rétta hlut Ívars Guðmundssonar frá 1968 eins og mátti skilja á stórundarlegri grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið á dögunum. Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson lýkur nú störfum sínum í útvarpsráði með vansæmd. Ekki er óhætt að leyfa honum að koma frekar nálægt þessari stöðuveitingu eða útvarpinu yfirleitt - hann myndi enda á að gera Hannes Hólmstein að fréttastjóra. Aðrir meðlimir útvarpsráðs hafa litlu meiri sóma af málinu, til dæmis var hjáseta fulltrúa Samfylkingarinnar afar misráðin. Það eina sem er eftir er að byrja upp á nýtt og taka þessa ákvörðun eins og átti alltaf að gera - faglega.






×