Hinn sögulegi farsi Birigr Guðmundsson skrifar 1. apríl 2005 00:01 Miðað við yfirlýsingar Auðuns Georgs Ólafssonar í blöðum í gær er ljóst að hann mun taka við sem fréttastjóri útvarps í dag, 1. apríl. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við þá ákvörðun hans, maðurinn sótti um stöðu og fékk hana og nú er komið að fyrsta vinnudeginum. Engu að síður höfðu margir bundið vonir við að Auðun sjálfur stigi fram og hyggi á þann hnút sem myndast hefur í starfsemi RÚV og þá sérstaklega fréttastofu Útvarps - jafnvel þótt ekki sé með sanngirni hægt að segja að hann beri neina ábyrgð á þeim vanda sem þar er upp kominn. Hann er augljóslega peð í þessu tafli. Vissulega hefði það skapað eitthvert svigrúm ef Auðun hefði ekki tekið starfið, en því fer þó fjarri þegar betur er að gáð að einhver lausn fælist í slíku. Vandinn vegna fréttastjóramálsins hjá RÚV er orðinn meiri og djúpstæðari en svo að hann sé bundinn við þessa einstöku ráðningu. Trúnaðarbrestur er kominn upp milli mikils þorra starfsfólks og yfirstjórnar og trúverðugleiki stofnunarinnar sem fréttamiðils hefur minnkað. Þar skiptir ekki bara máli að sérkennileg sjónarmið ráði við ráðningu yfirmanna og að yfirstjórn stofnunarinnar komi síðan fram í Ríkissjónvarpinu og verji ráðningarsjónarmið sín með að gera lítið úr sínum eigin virtustu fréttamönnum. Varnarbarátta fréttamannanna sjálfra hefur dregið þá inn í hringiðu umræðunnar og gert þá að þátttakendum og viðfangi frétta sem þeir síðan segja sjálfir. Slíka stöðu hafa fréttamenn RÚV jafnan reynt að forðast, en stíga nú fram vegna þess að aðgerðaleysi myndi rýra traust til þeirra enn meira. Vinnudagurinn í dag, 1. apríl, á fréttastofu Útvarps á ugglaust eftir að verða skrautlegur. Fréttamenn geta ekki bakkað með yfirlýsingar sínar um að vinna ekki með nýjum fréttastjóra og hinn nýi fréttastjóri virðist ekki ætla að bakka heldur. Ótrúlegt er að fréttamenn grípi til þess ráðs að takmarka fréttaútsendingar, að minnsta kosti svo neinu nemi enda ekki hefð hér fyrir "flauelsbyltingum" líkt og í Tékklandi. Sjónvarpsmenn í Prag fóru sem kunnugt er í setuverkfall vegna pólitískrar ráðningar í ársbyrjun 2001 undir slagorðinu "Sjónvarp fyrir fólk en ekki flokka!" Hundrað þúsund manns söfnuðust þá saman á Wenceslastorgi og studdu sjónvarpsmenn. Hér heima er hins vegar líklegra að Spaugstofuútgáfan verði ofan á - að nýr fréttastjóri muni ekki stýra nokkrum sköpuðum hlut og allra síst því sem hann vill stýra. Eflaust á hann eftir að kynnast því að fréttastjórn á alvöru fréttastofu byggir ekki á lóðréttu boðvaldi yfirmanns yfir undirmönnum - þar gilda sjálfstæð vinnubrögð og sjálfstæð dómgreind fréttamannanna. Sá sem ekki er velkominn leiðtogi í slíkt teymi mun einfaldlega dingla í frígír á einhverju hliðarspori. Það óvenjulega við þessa stöðu alla er að engin skynsamleg rök eru fyrir því að keyra mál Ríkisútvarpsins inn í þennan farveg. Í það minnsta ef menn gefa sér að það sé ekki beinlínis ætlun yfirvalda og yfirstjórnar RÚV að skemma stofnunina og rýra hana tiltrú almennings. Miðað við nýlegt frumvarp um RÚV þá er það nú varla hugmyndin. Fáum hefur því reynst auðvelt að finna skynsamleg markmið með þessari stefnu gagnvart fréttastofu Útvarps. Í greinarstúf eftir Margréti Indriðadóttur, fyrrum fréttastjóra Útvarps, í Morgunblaðinu í gær koma fram áhugaverðar vísbendingar. Margrét greinir frá því að Ívar Guðmundsson, sá sem sótti um fréttastjórastöðu Útvarps og fékk hana 1968, hafi sagt sér í einkasamtölum að hann hafi talið að sameina ætti fréttastofur Útvarps og Sjónvarps, og sú sameining hafi vakið áhuga hans. Eftir að mótmæli starfsmanna gegn pólitískri ráðningu Ívars komu fram, en þó sérstaklega þegar Ívar fékk upplýsingar um að ekki myndi farið út í sameiningu fréttastofa, taldi hann starfið ekki lengur eins áhugavert og upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Hann þáði því ekki stöðuna. Nú vill svo til að tillaga kom fram í vetur frá Boga Ágústssyni um að sameina fréttastofur Útvarps og Sjónvarps og fékk hún sem betur fer hvorki hljómgrunn hjá fréttamönnum né útvarpsráði, enda megum við varla við því að fækka sjálfstæðum fréttastofum. Óneitanlega hefur leitin að skýringu á framgangi yfirstjórnar RÚV gagnvart fréttastofu Útvarps oftar en ekki einmitt endað í þessari hugmynd - að verið sé að búa til ástand þar sem það yrði skásti valkosturinn að leggja fréttastofu Útvarps niður í núverandi mynd og sameina hana fréttastofu Sjónvarps. Verið sé framkvæma það sem ekki var gert 1968! Í því sambandi rifjast enn upp það sem Karl Marx hafði eftir Hegel á sínum tíma, um endurtekningar í mannkynssögunni: Fyrst koma sögulegir atburðir fyrir sem harmleikir, en í síðara skiptið sem farsi. Hvort sem nú verður um endurtekningu að ræða eða ekki, þá er alla vega ljóst að við erum að verða vitni að sögulegum farsa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Fastir pennar Ráðning Auðuns Georgs Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun
Miðað við yfirlýsingar Auðuns Georgs Ólafssonar í blöðum í gær er ljóst að hann mun taka við sem fréttastjóri útvarps í dag, 1. apríl. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við þá ákvörðun hans, maðurinn sótti um stöðu og fékk hana og nú er komið að fyrsta vinnudeginum. Engu að síður höfðu margir bundið vonir við að Auðun sjálfur stigi fram og hyggi á þann hnút sem myndast hefur í starfsemi RÚV og þá sérstaklega fréttastofu Útvarps - jafnvel þótt ekki sé með sanngirni hægt að segja að hann beri neina ábyrgð á þeim vanda sem þar er upp kominn. Hann er augljóslega peð í þessu tafli. Vissulega hefði það skapað eitthvert svigrúm ef Auðun hefði ekki tekið starfið, en því fer þó fjarri þegar betur er að gáð að einhver lausn fælist í slíku. Vandinn vegna fréttastjóramálsins hjá RÚV er orðinn meiri og djúpstæðari en svo að hann sé bundinn við þessa einstöku ráðningu. Trúnaðarbrestur er kominn upp milli mikils þorra starfsfólks og yfirstjórnar og trúverðugleiki stofnunarinnar sem fréttamiðils hefur minnkað. Þar skiptir ekki bara máli að sérkennileg sjónarmið ráði við ráðningu yfirmanna og að yfirstjórn stofnunarinnar komi síðan fram í Ríkissjónvarpinu og verji ráðningarsjónarmið sín með að gera lítið úr sínum eigin virtustu fréttamönnum. Varnarbarátta fréttamannanna sjálfra hefur dregið þá inn í hringiðu umræðunnar og gert þá að þátttakendum og viðfangi frétta sem þeir síðan segja sjálfir. Slíka stöðu hafa fréttamenn RÚV jafnan reynt að forðast, en stíga nú fram vegna þess að aðgerðaleysi myndi rýra traust til þeirra enn meira. Vinnudagurinn í dag, 1. apríl, á fréttastofu Útvarps á ugglaust eftir að verða skrautlegur. Fréttamenn geta ekki bakkað með yfirlýsingar sínar um að vinna ekki með nýjum fréttastjóra og hinn nýi fréttastjóri virðist ekki ætla að bakka heldur. Ótrúlegt er að fréttamenn grípi til þess ráðs að takmarka fréttaútsendingar, að minnsta kosti svo neinu nemi enda ekki hefð hér fyrir "flauelsbyltingum" líkt og í Tékklandi. Sjónvarpsmenn í Prag fóru sem kunnugt er í setuverkfall vegna pólitískrar ráðningar í ársbyrjun 2001 undir slagorðinu "Sjónvarp fyrir fólk en ekki flokka!" Hundrað þúsund manns söfnuðust þá saman á Wenceslastorgi og studdu sjónvarpsmenn. Hér heima er hins vegar líklegra að Spaugstofuútgáfan verði ofan á - að nýr fréttastjóri muni ekki stýra nokkrum sköpuðum hlut og allra síst því sem hann vill stýra. Eflaust á hann eftir að kynnast því að fréttastjórn á alvöru fréttastofu byggir ekki á lóðréttu boðvaldi yfirmanns yfir undirmönnum - þar gilda sjálfstæð vinnubrögð og sjálfstæð dómgreind fréttamannanna. Sá sem ekki er velkominn leiðtogi í slíkt teymi mun einfaldlega dingla í frígír á einhverju hliðarspori. Það óvenjulega við þessa stöðu alla er að engin skynsamleg rök eru fyrir því að keyra mál Ríkisútvarpsins inn í þennan farveg. Í það minnsta ef menn gefa sér að það sé ekki beinlínis ætlun yfirvalda og yfirstjórnar RÚV að skemma stofnunina og rýra hana tiltrú almennings. Miðað við nýlegt frumvarp um RÚV þá er það nú varla hugmyndin. Fáum hefur því reynst auðvelt að finna skynsamleg markmið með þessari stefnu gagnvart fréttastofu Útvarps. Í greinarstúf eftir Margréti Indriðadóttur, fyrrum fréttastjóra Útvarps, í Morgunblaðinu í gær koma fram áhugaverðar vísbendingar. Margrét greinir frá því að Ívar Guðmundsson, sá sem sótti um fréttastjórastöðu Útvarps og fékk hana 1968, hafi sagt sér í einkasamtölum að hann hafi talið að sameina ætti fréttastofur Útvarps og Sjónvarps, og sú sameining hafi vakið áhuga hans. Eftir að mótmæli starfsmanna gegn pólitískri ráðningu Ívars komu fram, en þó sérstaklega þegar Ívar fékk upplýsingar um að ekki myndi farið út í sameiningu fréttastofa, taldi hann starfið ekki lengur eins áhugavert og upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Hann þáði því ekki stöðuna. Nú vill svo til að tillaga kom fram í vetur frá Boga Ágústssyni um að sameina fréttastofur Útvarps og Sjónvarps og fékk hún sem betur fer hvorki hljómgrunn hjá fréttamönnum né útvarpsráði, enda megum við varla við því að fækka sjálfstæðum fréttastofum. Óneitanlega hefur leitin að skýringu á framgangi yfirstjórnar RÚV gagnvart fréttastofu Útvarps oftar en ekki einmitt endað í þessari hugmynd - að verið sé að búa til ástand þar sem það yrði skásti valkosturinn að leggja fréttastofu Útvarps niður í núverandi mynd og sameina hana fréttastofu Sjónvarps. Verið sé framkvæma það sem ekki var gert 1968! Í því sambandi rifjast enn upp það sem Karl Marx hafði eftir Hegel á sínum tíma, um endurtekningar í mannkynssögunni: Fyrst koma sögulegir atburðir fyrir sem harmleikir, en í síðara skiptið sem farsi. Hvort sem nú verður um endurtekningu að ræða eða ekki, þá er alla vega ljóst að við erum að verða vitni að sögulegum farsa.