Erlent

Kosningar í Kirgistan í júní

Efnt verður til nýrra forsetakosninga í Kirgistan þann 26. júní að ákvörðun þingsins. Rússar hafa ákveðið að starfa með nýjum valdhöfum en verði úrslit kosninga á þann veg að stjórnarandstaðan fari með sigur er ekki búist við að miklar breytingar verði á stjórnarskipan eða stjórnarháttum í landinu. Ashkar Akayev, forseti Kirgistans, sem flúði til Rússlands í fyrradag, kom þeim skilaboðum áleiðis með tölvupósti að hann sé enn við völd í landinu. Akayev flúði landi í kjölfar stjórnarbyltingar í fyrradag þegar stjórnarandstæðingar tóku helstu stjórnarbyggingar yfir. Upplausnarástand hefur ríkt í höfuðborg landsins síðustu sólarhringa. Glæpagengi hafa farið um ruplandi og rænandi en í nótt aðstoðuðu sjálfboðaliðar, vopnaðir bareflum, lögreglu við að gæta verslana. Að minnsta kosti þrír eru sagðir hafa látist í átökum á götum úti í nótt og tugir særst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×