Tólf árum síðar 25. febrúar 2005 00:01 Minnisstæður opinber klofningur varð í þingflokki Framsóknarflokksins í janúar árið 1993, þegar greidd voru atkvæði um EES-samninginn. Þáverandi formaður flokksins, Steingrímur Hermannsson, greiddi atkvæði á móti ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, svo sem þeim Páli Péturssyni, Stefáni Guðmundssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni heitnum. Ekki kemur á óvart að þá var núverandi þingmaður framsóknar, Kristinn H. Gunnarsson, einnig á móti. Hinn hluti þingflokksins, sem segja má að skipi kjarnann í núverandi forustu Framsóknar, fór gegn formanni sínum og sat hjá, en öllum var ljóst að þessi hópur var í hjarta sínu samþykkur gerð samningsins. Þetta var fólk eins og Halldór Ásgrímsson, Jón Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Finnur Ingólfsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Því er þetta rifjað upp nú, rúmum 12 árum síðar, að segja má að í þessari atkvæðagreiðslu hafi kristallast þær markalínur sem enn eru til staðar í Framsóknarflokknum gagnvart Evrópusamstarfi. Þessir þingmenn endurspegluðu hver um sig sjónarmið og viðhorf í baklandi sínu. Þó svo að margir þessara þingmanna séu nú horfnir af þingi lifa viðhorfin enn meðal stuðningsmanna flokksins þó hlutföll hafi vissulega eitthvað breyst síðan 1993. Stóru línurnar eru enn þær sömu. Það má raunar sjá í því að hjásetuhópurinn, sem síðar varð ráðandi forustuafl flokksins, hefur verið mjög jákvæður í garð Evrópusamstarfs. Halldór Ásgrímsson hefur haldið Evrópuumræðunni vakandi, bæði í flokknum og á vettvangi utanríkisráðuneytisins þegar hann var þar. Eðlilega hefur hann hins vegar verið heftur af samstarfi við Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn. Jafnframt hafa framsóknarmenn verið sér meðvitaðir um að skoðanir eru skiptar í eigin röðum, og markalínurnar úr atkvæðagreiðslunni 1993 birtast til dæmis í því að flokksmenn telja að ákveðið jafnvægi felist í því að á meðan Halldór sitji á formannsstóli sé Evrópu-efamaðurinn Guðni Ágústsson í hlutverki varaformanns. Þessi jafnvægisdans hefur nú verið stiginn um nokkurt árabil og framsóknarmenn hafa farið í gegnum mikla naflaskoðun varðandi framtíð og möguleika EES, en ekki tekið af skarið um hvað beri að gera. Fyrir flokkþinginu sem hefst í dag liggja hins vegar ályktunardrög, sem taka af allan vafa um hvert flokkurinn eigi að stefna – verði þau samþykkt óbreytt. Drögin vilja Framsóknarflokkinn og Íslendinga inn í ESB. Gamalkunnugt átakaefni ólíkra fylkinga hefur þannig verið virkjað að nýju og talsvert púður mun væntanlega fara í að koma því í slíkan farveg að allir geti vel við unað. Í ljósi nýlegra breytinga á stólaskipan og vegna stjórnarsamstarfsins í heild er þetta kannski ekki þægilegasti tíminn fyrir Halldór Ásgrímsson að fá samþykkta herskáa Evrópustefnu. Auk þess munu einhverjir eflaust telja að tímaramminn í ályktunardrögunum um aðildarumsókn sé óraunhæfur. Í sjálfu sér er áhugavert að þetta mál skuli koma inn á flokksþingið með þessum hætti, en það verður enn áhugaverðara í ljósi þess að tvö önnur af fjórum helstu átakamálum þingsins virðast falla nokkurn veginn á átakaásinn frá 1993, rétt eins og Evrópumálin gera. Þetta eru hugmyndir manna um einkavæðingu Landsvirkjunar og sameiningu orkuframleiðslufyrirtækja annars vegar og svo salan á grunnneti Símans hins vegar. Í öllum aðalatriðum skiptast menn í fylkingar eftir sömu línum í þessum þremur málum; Evrópumálinu, Landsvirkjunarmálinu og Símamálinu. Þegar er ljóst að Guðni Ágústsson og ýmsir sem eru honum pólitískt skyldir hafa tekið mjög djúpt í árinni með einkavæðingu Landsvirkjunar. Þar eru línurnar því nokkuð skýrar. Gagnvart Símanum er það í rauninni Halldór Ásgrímsson sem hefur gefið upp boltann með því að gefa út mjög afgerandi yfirlýsingar um að fyrri ákvarðanir um að grunnetið verði selt muni standa. Um það eru hins vegar miklar efasemdir og áhyggjur, eins og kemur berlega fram í ályktunardrögunum sem liggja fyrir þinginu. Þar kemur grunnnetið við sögu á einum 5-6 ólíkum stöðum og alltaf talað um að tryggja þurfi jafnan aðgang allra landsmanna að því og að samkeppnin þar sé virk. Það er einmitt sú forsenda sem gengið hefur erfiðlega að sýna fram á að sé til staðar, þannig að formaðurinn mun þurfa að sýna Kristni H. Gunnarssyni og öðrum flokksmönnum sínum fram á slíkt með mjög sannfærandi hætti. Ólíkt því sem virtist fyrir nokkrum dögum kynni því að draga til pólitískra átaka milli fylkinga á flokksþinginu, einkum vegna þess að þar munu koma upp þrjú hitamál sem flokksmenn skiptast í svipaðar fylkingar um. Fjórða málið sem líklegt er til að kynda undir átök er hinar sérkennilegu uppákomur í Kópavogi upp á síðkastið og umræðan almennt um jafnréttismál og þá kannski ekki síst hvort vinnubrögð forustunnar séu í þeim farvegi sem þau eigi að vera. Þau mál hins vegar eru nokkuð annars eðlis en til dæmis Evrópumálin og lúta sínum eigin lögmálum. En í ljósi þess að eitt vinsælasta orðatiltæki í umræðunni um stjórnmál snýst um að draga fram hve "ein vika sé langur tími í pólitík", þá er óneitanlega fróðlegt til þess að hugsa hve stuttur tími 12 ár eru þrátt fyrir allt í pólitík - í það minnsta þegar kemur að flokkadráttum í Framsókn um Evrópumál og fleira. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Fastir pennar Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Minnisstæður opinber klofningur varð í þingflokki Framsóknarflokksins í janúar árið 1993, þegar greidd voru atkvæði um EES-samninginn. Þáverandi formaður flokksins, Steingrímur Hermannsson, greiddi atkvæði á móti ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, svo sem þeim Páli Péturssyni, Stefáni Guðmundssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni heitnum. Ekki kemur á óvart að þá var núverandi þingmaður framsóknar, Kristinn H. Gunnarsson, einnig á móti. Hinn hluti þingflokksins, sem segja má að skipi kjarnann í núverandi forustu Framsóknar, fór gegn formanni sínum og sat hjá, en öllum var ljóst að þessi hópur var í hjarta sínu samþykkur gerð samningsins. Þetta var fólk eins og Halldór Ásgrímsson, Jón Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Finnur Ingólfsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Því er þetta rifjað upp nú, rúmum 12 árum síðar, að segja má að í þessari atkvæðagreiðslu hafi kristallast þær markalínur sem enn eru til staðar í Framsóknarflokknum gagnvart Evrópusamstarfi. Þessir þingmenn endurspegluðu hver um sig sjónarmið og viðhorf í baklandi sínu. Þó svo að margir þessara þingmanna séu nú horfnir af þingi lifa viðhorfin enn meðal stuðningsmanna flokksins þó hlutföll hafi vissulega eitthvað breyst síðan 1993. Stóru línurnar eru enn þær sömu. Það má raunar sjá í því að hjásetuhópurinn, sem síðar varð ráðandi forustuafl flokksins, hefur verið mjög jákvæður í garð Evrópusamstarfs. Halldór Ásgrímsson hefur haldið Evrópuumræðunni vakandi, bæði í flokknum og á vettvangi utanríkisráðuneytisins þegar hann var þar. Eðlilega hefur hann hins vegar verið heftur af samstarfi við Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn. Jafnframt hafa framsóknarmenn verið sér meðvitaðir um að skoðanir eru skiptar í eigin röðum, og markalínurnar úr atkvæðagreiðslunni 1993 birtast til dæmis í því að flokksmenn telja að ákveðið jafnvægi felist í því að á meðan Halldór sitji á formannsstóli sé Evrópu-efamaðurinn Guðni Ágústsson í hlutverki varaformanns. Þessi jafnvægisdans hefur nú verið stiginn um nokkurt árabil og framsóknarmenn hafa farið í gegnum mikla naflaskoðun varðandi framtíð og möguleika EES, en ekki tekið af skarið um hvað beri að gera. Fyrir flokkþinginu sem hefst í dag liggja hins vegar ályktunardrög, sem taka af allan vafa um hvert flokkurinn eigi að stefna – verði þau samþykkt óbreytt. Drögin vilja Framsóknarflokkinn og Íslendinga inn í ESB. Gamalkunnugt átakaefni ólíkra fylkinga hefur þannig verið virkjað að nýju og talsvert púður mun væntanlega fara í að koma því í slíkan farveg að allir geti vel við unað. Í ljósi nýlegra breytinga á stólaskipan og vegna stjórnarsamstarfsins í heild er þetta kannski ekki þægilegasti tíminn fyrir Halldór Ásgrímsson að fá samþykkta herskáa Evrópustefnu. Auk þess munu einhverjir eflaust telja að tímaramminn í ályktunardrögunum um aðildarumsókn sé óraunhæfur. Í sjálfu sér er áhugavert að þetta mál skuli koma inn á flokksþingið með þessum hætti, en það verður enn áhugaverðara í ljósi þess að tvö önnur af fjórum helstu átakamálum þingsins virðast falla nokkurn veginn á átakaásinn frá 1993, rétt eins og Evrópumálin gera. Þetta eru hugmyndir manna um einkavæðingu Landsvirkjunar og sameiningu orkuframleiðslufyrirtækja annars vegar og svo salan á grunnneti Símans hins vegar. Í öllum aðalatriðum skiptast menn í fylkingar eftir sömu línum í þessum þremur málum; Evrópumálinu, Landsvirkjunarmálinu og Símamálinu. Þegar er ljóst að Guðni Ágústsson og ýmsir sem eru honum pólitískt skyldir hafa tekið mjög djúpt í árinni með einkavæðingu Landsvirkjunar. Þar eru línurnar því nokkuð skýrar. Gagnvart Símanum er það í rauninni Halldór Ásgrímsson sem hefur gefið upp boltann með því að gefa út mjög afgerandi yfirlýsingar um að fyrri ákvarðanir um að grunnetið verði selt muni standa. Um það eru hins vegar miklar efasemdir og áhyggjur, eins og kemur berlega fram í ályktunardrögunum sem liggja fyrir þinginu. Þar kemur grunnnetið við sögu á einum 5-6 ólíkum stöðum og alltaf talað um að tryggja þurfi jafnan aðgang allra landsmanna að því og að samkeppnin þar sé virk. Það er einmitt sú forsenda sem gengið hefur erfiðlega að sýna fram á að sé til staðar, þannig að formaðurinn mun þurfa að sýna Kristni H. Gunnarssyni og öðrum flokksmönnum sínum fram á slíkt með mjög sannfærandi hætti. Ólíkt því sem virtist fyrir nokkrum dögum kynni því að draga til pólitískra átaka milli fylkinga á flokksþinginu, einkum vegna þess að þar munu koma upp þrjú hitamál sem flokksmenn skiptast í svipaðar fylkingar um. Fjórða málið sem líklegt er til að kynda undir átök er hinar sérkennilegu uppákomur í Kópavogi upp á síðkastið og umræðan almennt um jafnréttismál og þá kannski ekki síst hvort vinnubrögð forustunnar séu í þeim farvegi sem þau eigi að vera. Þau mál hins vegar eru nokkuð annars eðlis en til dæmis Evrópumálin og lúta sínum eigin lögmálum. En í ljósi þess að eitt vinsælasta orðatiltæki í umræðunni um stjórnmál snýst um að draga fram hve "ein vika sé langur tími í pólitík", þá er óneitanlega fróðlegt til þess að hugsa hve stuttur tími 12 ár eru þrátt fyrir allt í pólitík - í það minnsta þegar kemur að flokkadráttum í Framsókn um Evrópumál og fleira.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun