Borgarstjórn hlusti á gagnrýnendur 21. febrúar 2005 00:01 Umræðurnar um áform borgarstjórnar Reykjavíkur að láta rífa á þriðja tug gamalla húsa við Laugaveg hafa leitt í ljós að húsverndar- og húsafriðunarsjónarmið eiga enn í vök að verjast hér á landi þrátt fyrir þá útbreiddu skoðun að við Íslendingar berum virðingu fyrir sögu okkar og menningarverðmætum og að dagar vanmetakenndar okkar fyrir byggingararfleifðinni séu liðnir. Dapurlegast er að sjá þá menn sem standa ættu fremst í fylkingu verndunarsinna stýra jarðýtunum sem verið er að senda á gömlu húsin. Einhver vörn kann að vera í því að eigendur margra húsanna á aftökulista borgarstjórnar vilja ekki selja eignir sínar í hendur niðurrifsmanna. Það kann að tefja áformin en því miður er ekki öruggt að sú vörn geti staðið lengi. Furðulegt er að heyra þá röksemd að nýbyggingar við Laugaveg muni snúa við þeirri þróun að verslun og mannlíf í miðborginni eigi undir högg að sækja. Á undanförnum árum og áratugum hefur hvert stórhýsið á fætur öðru risið við Laugaveginn og nágrenni án þess að þær byggingar hafi nokkur áhrif haft. Sumar þeirra hafa jafnvel staðið auðar um langan tíma meðan verslun, þjónusta og veitingarekstur hefur blómstrað í gömlu húsunum. Vandamál Laugavegarins og miðbæjarins verða ekki leyst með niðurrifi gamalla húsa. Eitt gott kann að leiða af uppnáminu sem orðið hefur vegna Laugavegarins. Að vitsmunalegar almennar umræður hefjist um byggingar og byggingarlist og skipulag borgarinnar. Hér á landi er varla haldin svo sýning frístundamálara eða tónleikar byrjenda að ekki birtist um það menningargagnrýni í blöðunum. En hér rísa stórhýsi, heil hverfi og mikil mannvirki, sem setja svip á umhverfi okkar til langs tíma, og um það birtist enginn dómur, hvorki til lofs né lasts. Mannvirkjagagnrýni þarf að verða samferða annarri menningargagnrýni í fjölmiðlum. Og slík skrif ættu ekki bara að birtast eftir að hús og önnur mannvirki eru risin eða tekin niður heldur einnig á meðan mál eru í undirbúningi og í deiglu. Vönduð mannvirkjagagnrýni getur áreiðanlega forðað slysum og greitt fyrir því að ákvarðanir skipulagsyfirvalda séu teknar af þekkingu og yfirvegun. Húsafriðun og varðstaða um menningarverðmæti er ekki flokkspólitískt mál og á ekki að vera það. Í orðu kveðnu eru allir stjórnmálaflokkar með verndun. Það er þess vegna leitt að sjá hve samstaðan er almenn í borgarstjórn um að heimila niðurrif gömlu húsanna við Laugaveg. Aðeins einn borgarfulltrúi, Ólafur F. Magnússon, hefur nægilegan metnað til að rísa upp gegn áformunum. En vonandi verða fleiri borgarfulltrúar til þess að staldra við og hlusta á sjónarmið þeirra sem gagnrýna niðurrifsstefnuna. Þegar eru málsmetandi menn í borgarstjórn farnir að tala um að hlífa tveimur til þremur húsanna. Það er áfangasigur en engan veginn nægilegt. Þetta er mál sem borgarstjórn á að fara yfir frá grunni á nýjan leik. Það er engin minnkun fólgin í því fyrir stjórnmálamenn að endurskoða afstöðu sína. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Umræðurnar um áform borgarstjórnar Reykjavíkur að láta rífa á þriðja tug gamalla húsa við Laugaveg hafa leitt í ljós að húsverndar- og húsafriðunarsjónarmið eiga enn í vök að verjast hér á landi þrátt fyrir þá útbreiddu skoðun að við Íslendingar berum virðingu fyrir sögu okkar og menningarverðmætum og að dagar vanmetakenndar okkar fyrir byggingararfleifðinni séu liðnir. Dapurlegast er að sjá þá menn sem standa ættu fremst í fylkingu verndunarsinna stýra jarðýtunum sem verið er að senda á gömlu húsin. Einhver vörn kann að vera í því að eigendur margra húsanna á aftökulista borgarstjórnar vilja ekki selja eignir sínar í hendur niðurrifsmanna. Það kann að tefja áformin en því miður er ekki öruggt að sú vörn geti staðið lengi. Furðulegt er að heyra þá röksemd að nýbyggingar við Laugaveg muni snúa við þeirri þróun að verslun og mannlíf í miðborginni eigi undir högg að sækja. Á undanförnum árum og áratugum hefur hvert stórhýsið á fætur öðru risið við Laugaveginn og nágrenni án þess að þær byggingar hafi nokkur áhrif haft. Sumar þeirra hafa jafnvel staðið auðar um langan tíma meðan verslun, þjónusta og veitingarekstur hefur blómstrað í gömlu húsunum. Vandamál Laugavegarins og miðbæjarins verða ekki leyst með niðurrifi gamalla húsa. Eitt gott kann að leiða af uppnáminu sem orðið hefur vegna Laugavegarins. Að vitsmunalegar almennar umræður hefjist um byggingar og byggingarlist og skipulag borgarinnar. Hér á landi er varla haldin svo sýning frístundamálara eða tónleikar byrjenda að ekki birtist um það menningargagnrýni í blöðunum. En hér rísa stórhýsi, heil hverfi og mikil mannvirki, sem setja svip á umhverfi okkar til langs tíma, og um það birtist enginn dómur, hvorki til lofs né lasts. Mannvirkjagagnrýni þarf að verða samferða annarri menningargagnrýni í fjölmiðlum. Og slík skrif ættu ekki bara að birtast eftir að hús og önnur mannvirki eru risin eða tekin niður heldur einnig á meðan mál eru í undirbúningi og í deiglu. Vönduð mannvirkjagagnrýni getur áreiðanlega forðað slysum og greitt fyrir því að ákvarðanir skipulagsyfirvalda séu teknar af þekkingu og yfirvegun. Húsafriðun og varðstaða um menningarverðmæti er ekki flokkspólitískt mál og á ekki að vera það. Í orðu kveðnu eru allir stjórnmálaflokkar með verndun. Það er þess vegna leitt að sjá hve samstaðan er almenn í borgarstjórn um að heimila niðurrif gömlu húsanna við Laugaveg. Aðeins einn borgarfulltrúi, Ólafur F. Magnússon, hefur nægilegan metnað til að rísa upp gegn áformunum. En vonandi verða fleiri borgarfulltrúar til þess að staldra við og hlusta á sjónarmið þeirra sem gagnrýna niðurrifsstefnuna. Þegar eru málsmetandi menn í borgarstjórn farnir að tala um að hlífa tveimur til þremur húsanna. Það er áfangasigur en engan veginn nægilegt. Þetta er mál sem borgarstjórn á að fara yfir frá grunni á nýjan leik. Það er engin minnkun fólgin í því fyrir stjórnmálamenn að endurskoða afstöðu sína.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun