Konsert handa George Egill Helgason skrifar 6. febrúar 2005 00:01 Um og upp úr jólunum sýndu þeir Concert for George í bæði danska og sænska sjónvarpinu. Ég horfði sem límdur á í bæði skiptin. Konsertinn var haldinn í Royal Albert Hall 29. nóvember 2002. Þarna er samankominn hópur frábærra músíkanta sem spila lög eftir Harrison af mikilli vináttu og kærleika. Fremstur er gamli vinur hans Eric Clapton sem stjórnar hljómsveitinni eins og herforingi - ekki vanþörf á því stundum er slíkur fjöldi af hljóðfæraleikurum á sviðinu að maður gæti búist við því að allt færi í rugl. Af öðrum má nefna Jeff Lynne úr ELO, Paul McCartney sem syngur Something og spilar undir á ukulele, Ringo Starr sem rennir sér í gegnum Photograph og Honey Don´t, Billy Preston, orgelleikarann sem kallaður var "fimmti bítillinn", en einn hápunkta tónleikanna er þegar hann syngur lagið Isn´t It a Pity. Fleiri stjörnur má telja upp: Gary Brooker úr Procul Harum, gítarleikarana Albert Lee og Andy Fairweather-Low, son Georges, Dhani Harrison, Jim Capaldi úr Traffic, Tom Petty, Klaus Voormann, Ravi Shankar og svo Joe Brown, gamlan samferðamann Bítlanna sem endar tónleikana með einstaklega innilegum flutningi á slagaranum I´ll See You in My Dreams. Þetta hefur verið brilljant konsert - andinn sem svífur yfir er viðkunnanlegur eins og maðurinn sem verið er að minnast. Merkilegt hvað mörg lögin hans leyna á sér - þau virka hlédræg líkt og hann sjálfur. Sjaldan hefur jafn frægur maður verið jafn lítið fyrir að trana sér fram. Annars bendi ég á grein sem ég skrifaði á vefinn stuttu eftir andlát Harrisons - ég læt hana fljóta með hér fyrir neðan. Konsertinn fæst bæði á geisladiski og DVD, ég keypti diskinn. Á hann vantar reyndar frábæran flutning Jools Holland og söngkonunnar Sam Brown á laginu Horse to Water sem Harrison samdi undir lok ævi sinnar og líka Monty Python og Tom Hanks sem flytja hinn fræga skógarhöggsmannasöng bresku grínistanna. Þetta er að finna í myndinni - maður bíður bara eftir að hún verði sýnd í sjónvarpi hérna. --- --- ---Harrison allur30.11.2001 George Harrison var stundum eins og hann væri hafinn yfir það að vera Bítill. Einu sinni fór þetta svolítið í taugarnar á mér - er hægt að vera of merkilegur til að vera ein aðalpersónan í einhverri frábærustu sögu aldarinnar? Undir 1970 þegar hljómsveitin var að liðast í sundur gat hann verið á svipinn eins og honum leiddist þetta frekar, eins og þetta væri skrípaleikur sem hann væri farinn að sjá í gegnum. Eftir að hljómsveitin hætti gerði hann stundum lítið úr veru sinni í henni, líkt og þetta hefði verið óþægileg innilokun og vesen. En kannski var hann bara svona hlédrægur? Eða þá að hann var ringlaður? Harrison var ekki nema tvítugur þegar Bítlarnir urðu á örfáum mánuðum frægustu menn í heimi, hann var tuttugu og sjö ára þegar þeir hættu. Það er ungur aldur til að klára besta hluta ævistarfsins, því hvað gerir maður eftir að hafa verið í frægustu hljómsveit allra tíma annað en að verða hálfgildings eftirlaunaþegi? Harrison hafði ómæld áhrif á tónlist Bítlanna og þar af leiðandi á dægurtónlistina síðan. Hann veitti þangað straumum frá Indlandi sem urðu fyrirferðarmiklir á plötunum Rubber Soul, Revolver og Sgt. Peppers. Þennan tón hefur mátt greina í margháttaðri poppmúsík allar götur síðan. Hann spilaði á gítar sem vældi - eða skældi - á einstaklega hugljúfan hátt; sólóin í lögum eins og Something eru ekki löng, það er farið spart með, en þau eru með öllu ógleymanleg. Mann grunar að hann hafi verið betri hljóðfæraleikari en hann skildi sjálfur. Hann hafði sinn eigin stíl, hljóm sem maður þekkir undireins og maður heyrir hann. Það er ekki öllum gefið. Ég var svona fjögurra eða fimm ára þegar ég heyrði fyrst lag með Bítlunum. Mér finnst eins og She Loves You hafi borist með sumargolunni inn um stofugluggann sem vissi út í grænan garð. Þetta voru öðruvísi hljóð en allt sem heyrðist í útvarpinu, sinfóníurnar, harmóníkkan, karlakórarnir og væmnin. Ungt fólk sem upplifði þetta er alltaf að reyna að skýra út hvílík undur og stórmerki hún var þessi músík, hvað þetta var sterk lífsreynsla. Því verðum við að fyrirgefa Ingólfi Margeirssyni þótt hann hafi gert þúsund þætti um Bítlana - honum er ennþá svona mikið niðri fyrir. Fyrir mér er töfraljómi yfir fjórmenningunum frá Liverpool. Það var furðulegt ævintýri á sínum tíma að ómenntaðir unglingspiltar úr stríðs- og kreppuhrjáðu nápleisi skyldu leggja svona undir sig heiminn. Ég skrifaði að þetta hefði verið einhver frábærasta saga tuttugustu aldarinnar. Eftir andstyggilega atburði áranna á undan, heimstyrjöld, kjarnorkusprengju og kalt stríð, sker hún sig úr af því hún var skemmtileg og mestanpart falleg. Bítlarnir lýsa upp árin í kringum sig. Þeir blésu á stéttaskiptingu, snobb, vanahugsun og pólitískar kreddur, á alla grámygluna og leiðindin; í staðinn mæra þeir ástina og verða tákn fyrir óbeislaðan sköpunarkraft, forvitni, hugmyndaflug, lífsgleði, velvilja og þrá eftir friði. Í þessari sögu er George Harrison afar hugþekk persóna þar sem hann stendur á sviðinu, horað ungmenni með stóra gítarinn sinn, strákslegt brosið og fæturna sem taka lítil spor sem hver einasti bítlaaðdáandi kannast við... Brotasilfur Menning Silfur Egils Mest lesið Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Halda til Spánar að smakka messuvín fyrir þjóðkirkjuna Bíó og sjónvarp Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum Lífið Átta ár án áfengis og fíkniefna Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Svava Rós og Hinrik eiga von á dreng Lífið „Laugarnesið hafði mjög mikil áhrif á mig í uppvexti“ Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Um og upp úr jólunum sýndu þeir Concert for George í bæði danska og sænska sjónvarpinu. Ég horfði sem límdur á í bæði skiptin. Konsertinn var haldinn í Royal Albert Hall 29. nóvember 2002. Þarna er samankominn hópur frábærra músíkanta sem spila lög eftir Harrison af mikilli vináttu og kærleika. Fremstur er gamli vinur hans Eric Clapton sem stjórnar hljómsveitinni eins og herforingi - ekki vanþörf á því stundum er slíkur fjöldi af hljóðfæraleikurum á sviðinu að maður gæti búist við því að allt færi í rugl. Af öðrum má nefna Jeff Lynne úr ELO, Paul McCartney sem syngur Something og spilar undir á ukulele, Ringo Starr sem rennir sér í gegnum Photograph og Honey Don´t, Billy Preston, orgelleikarann sem kallaður var "fimmti bítillinn", en einn hápunkta tónleikanna er þegar hann syngur lagið Isn´t It a Pity. Fleiri stjörnur má telja upp: Gary Brooker úr Procul Harum, gítarleikarana Albert Lee og Andy Fairweather-Low, son Georges, Dhani Harrison, Jim Capaldi úr Traffic, Tom Petty, Klaus Voormann, Ravi Shankar og svo Joe Brown, gamlan samferðamann Bítlanna sem endar tónleikana með einstaklega innilegum flutningi á slagaranum I´ll See You in My Dreams. Þetta hefur verið brilljant konsert - andinn sem svífur yfir er viðkunnanlegur eins og maðurinn sem verið er að minnast. Merkilegt hvað mörg lögin hans leyna á sér - þau virka hlédræg líkt og hann sjálfur. Sjaldan hefur jafn frægur maður verið jafn lítið fyrir að trana sér fram. Annars bendi ég á grein sem ég skrifaði á vefinn stuttu eftir andlát Harrisons - ég læt hana fljóta með hér fyrir neðan. Konsertinn fæst bæði á geisladiski og DVD, ég keypti diskinn. Á hann vantar reyndar frábæran flutning Jools Holland og söngkonunnar Sam Brown á laginu Horse to Water sem Harrison samdi undir lok ævi sinnar og líka Monty Python og Tom Hanks sem flytja hinn fræga skógarhöggsmannasöng bresku grínistanna. Þetta er að finna í myndinni - maður bíður bara eftir að hún verði sýnd í sjónvarpi hérna. --- --- ---Harrison allur30.11.2001 George Harrison var stundum eins og hann væri hafinn yfir það að vera Bítill. Einu sinni fór þetta svolítið í taugarnar á mér - er hægt að vera of merkilegur til að vera ein aðalpersónan í einhverri frábærustu sögu aldarinnar? Undir 1970 þegar hljómsveitin var að liðast í sundur gat hann verið á svipinn eins og honum leiddist þetta frekar, eins og þetta væri skrípaleikur sem hann væri farinn að sjá í gegnum. Eftir að hljómsveitin hætti gerði hann stundum lítið úr veru sinni í henni, líkt og þetta hefði verið óþægileg innilokun og vesen. En kannski var hann bara svona hlédrægur? Eða þá að hann var ringlaður? Harrison var ekki nema tvítugur þegar Bítlarnir urðu á örfáum mánuðum frægustu menn í heimi, hann var tuttugu og sjö ára þegar þeir hættu. Það er ungur aldur til að klára besta hluta ævistarfsins, því hvað gerir maður eftir að hafa verið í frægustu hljómsveit allra tíma annað en að verða hálfgildings eftirlaunaþegi? Harrison hafði ómæld áhrif á tónlist Bítlanna og þar af leiðandi á dægurtónlistina síðan. Hann veitti þangað straumum frá Indlandi sem urðu fyrirferðarmiklir á plötunum Rubber Soul, Revolver og Sgt. Peppers. Þennan tón hefur mátt greina í margháttaðri poppmúsík allar götur síðan. Hann spilaði á gítar sem vældi - eða skældi - á einstaklega hugljúfan hátt; sólóin í lögum eins og Something eru ekki löng, það er farið spart með, en þau eru með öllu ógleymanleg. Mann grunar að hann hafi verið betri hljóðfæraleikari en hann skildi sjálfur. Hann hafði sinn eigin stíl, hljóm sem maður þekkir undireins og maður heyrir hann. Það er ekki öllum gefið. Ég var svona fjögurra eða fimm ára þegar ég heyrði fyrst lag með Bítlunum. Mér finnst eins og She Loves You hafi borist með sumargolunni inn um stofugluggann sem vissi út í grænan garð. Þetta voru öðruvísi hljóð en allt sem heyrðist í útvarpinu, sinfóníurnar, harmóníkkan, karlakórarnir og væmnin. Ungt fólk sem upplifði þetta er alltaf að reyna að skýra út hvílík undur og stórmerki hún var þessi músík, hvað þetta var sterk lífsreynsla. Því verðum við að fyrirgefa Ingólfi Margeirssyni þótt hann hafi gert þúsund þætti um Bítlana - honum er ennþá svona mikið niðri fyrir. Fyrir mér er töfraljómi yfir fjórmenningunum frá Liverpool. Það var furðulegt ævintýri á sínum tíma að ómenntaðir unglingspiltar úr stríðs- og kreppuhrjáðu nápleisi skyldu leggja svona undir sig heiminn. Ég skrifaði að þetta hefði verið einhver frábærasta saga tuttugustu aldarinnar. Eftir andstyggilega atburði áranna á undan, heimstyrjöld, kjarnorkusprengju og kalt stríð, sker hún sig úr af því hún var skemmtileg og mestanpart falleg. Bítlarnir lýsa upp árin í kringum sig. Þeir blésu á stéttaskiptingu, snobb, vanahugsun og pólitískar kreddur, á alla grámygluna og leiðindin; í staðinn mæra þeir ástina og verða tákn fyrir óbeislaðan sköpunarkraft, forvitni, hugmyndaflug, lífsgleði, velvilja og þrá eftir friði. Í þessari sögu er George Harrison afar hugþekk persóna þar sem hann stendur á sviðinu, horað ungmenni með stóra gítarinn sinn, strákslegt brosið og fæturna sem taka lítil spor sem hver einasti bítlaaðdáandi kannast við...
Brotasilfur Menning Silfur Egils Mest lesið Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Halda til Spánar að smakka messuvín fyrir þjóðkirkjuna Bíó og sjónvarp Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum Lífið Átta ár án áfengis og fíkniefna Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Svava Rós og Hinrik eiga von á dreng Lífið „Laugarnesið hafði mjög mikil áhrif á mig í uppvexti“ Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira