Innlent

Alfreð boðin Landsvirkjun

Alfreð Þorsteinssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, hefur samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verið boðin staða stjórnarformanns Landsvirkjunar ákveði hann að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Framsóknarflokksins í lok janúar á næsta ári.

Alfreð er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, en sem kunnugt er hafa farið fram viðræður um hugsanleg kaup ríkisins á 45 prósenta hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Talið er hugsanlegt að breytingar í stjórn Landsvirkjunar tengist breyttri stöðu Landsvirkjunar ef af kaupunum verður. Sem stendur eru viðræður um sölu á hlut Reykjavíkurborgar í uppnámi, en fjallað verður um stöðu málsins á borgarráðsfundi í dag.

Núverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar er Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Jóhannes Geir hefur setið í stjórn Landsvirkjunar frá 1995 og varð stjórnarformaður árið 1997. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipar í stöðu Jóhannesar Geirs komi til mannaskipta.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar kveðst hafa heyrt að Alfreð hafi verið boðin staða stjórnarformanns Landsvirkjunar. En jafnframt, að Alfreð hafi leitast við að bera slíkan orðróm til baka.

Alfreð kveðst hafa staðið að stofnun og uppbyggingu Orkuveitu Reykjavíkur. "Orkuveitan stendur í samkeppni við Landsvirkjun og sú samkeppni á eftir að aukast á næstunni. Það yrði óneitanlega flókin staða sem upp kæmi ef ég ætti að taka að mér stjórnarformennsku í Landsvirkjun við þær aðstæður. Það væri að minnsta kosti eitthvað sem ég yrði að skoða vandlega og ég sé reyndar ekki fyrir mér sem heppilegan valkost. Ég kysi heldur að vinna áfram að uppbyggingu Orkuveitu Reykjavíkur," segir Alfreð Þorsteinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×